Ólína Margrét Jónsdóttir (Lína) fæddist 1. ágúst 1945. Hún lést 30. ágúst 2024.

Útför hennar fór fram 6. september 2024.

Elsku amma mín, ég sakna þín svo mikið. Ég man þegar þú komst alltaf að sækja mig á leikskólann, þú varst svo glöð að sjá mig og ég var svo glöð að sjá þig. Ég man líka að þegar ég gisti hjá þér og afa, þá lét ég afa alltaf sofa í gestaherberginu svo ég gæti verið með þér í ykkar rúmi. Þú og afi gerðuð alltaf hakk og spagettí þegar ég gisti því það var uppáhaldið mitt. Við lásum saman bækur, horfðum á myndir, spiluðum og borðuðum Snickers-ís, þú passaðir alltaf að eiga Snickers-ís fyrir mig því þú vissir að ég elskaði hann og þú gerðir það líka. Þér fannst ég alltaf svo fyndin og hlóst að öllu sem ég sagði og gerði.

Þú varst besta vinkona mín. Allar góðu minningarnar mun ég alltaf geyma og þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu.

Eygló Þorsteinsdóttir.

Kæra amma mín.

Vá hvað mig langar að segja margt. Þessi síðustu fimm ár eru búin að vera svo erfið, að sjá þig hverfa frá mér hægt og rólega hefur verið það erfiðasta sem ég hef upplifað. Þessi síðasta vika var sérstaklega erfið, það er svo erfið tilhugsun að ég muni aldrei sjá þig aftur. Ég var 10 ára þegar mamma og pabbi sögðu mér að þú værir veik, en núna er ég 15 ára í framhaldsskóla, vá hvað tíminn líður hratt. Núna þegar ég hugsa til þín koma fram svo margar minningar, t.d. þú að sækja mig úr frístund, við að reka afa úr rúminu svo að ég gæti sofið við hliðina á þér og þegar þú gafst Eygló systur Snickers-ís í hvert skipti sem við komum. Allar þessar minningar eru svo fallegar á sinn hátt því í þeim öllum sést ást þín á okkur.

Ég sagði við mömmu eitt kvöld að þegar tíminn kæmi að þú færir frá okkur myndi ég vilja syngja fyrir þig í útförinni, því ég vissi hversu þú myndir elska það. Þú gast horft endalaust á myndböndin af mér að syngja á mismunandi viðburðum. Ég vildi svo mikið að þú kæmir að horfa á mig í leikritinu í 10. bekk en við vorum ekki viss um hvort þú gætir setið svona lengi, en þótt ótrúlegt megi virðast þá sastu þar allan tímann, fyrir mig. Þú varst alltaf svo stolt af mér og ég skal aldrei gleyma því. Þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig alveg síðan ég fæddist, en að hugsa að þú getir ekki verið hjá mér lengur brýtur í mér hjartað.

Þegar ég frétti af því að þú værir farin var ég nýbúin í skólanum og hágrét í fanginu á bekkjarsystrum mínum þangað til afi Steini kom og sótti mig. Ég grét alla bílferðina til þín, en þá sagði afi Steini við mig að það væri eins og þú hefðir bara verið að bíða eftir að ég kláraði skólann svo að ég gæti komið strax til þín.

Ó elsku amma mín, þú varst og ert svo stór partur af mér, en hvíldu nú í friðlandinu sem hefur tekið á móti þér. Ég elska þig svo mikið og mun aldrei hætta að elska þig. Vonandi ertu þarna uppi að passa upp á mig og alla fjölskylduna.

Frá einum af söngenglunum þínum,

Álfhildur Edda
Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við elsku Línu, uppáhalds systur/mágkonu, sem var okkur svo kær.

Lína var yndisleg persóna, glæsileg og alltaf flott í tauinu. Í hugann koma margar góðar og skemmtilegar minningar enda hefur margt verið brallað í gegnum árin. Við vorum fastagestir á gamlárskvöld þar sem þið Steinn voruð svo dugleg að bjóða okkur til ykkar með börnin okkar sem þú hugsaðir svo vel um. Ekki var heldur leitt að heimsækja ykkur í sumarbúsaðinn í Efstadal sem var þinn sælureitur í sveitinni og fá silung af grillinu.

Sem hluti af Original-hópnum (Flutningsmiðlunin) var farið m.a. í ferðalög, útilegur og ýmislegt gert til skemmtunnar og stendur þar upp úr siglingin í Karíbahafið.

Með þessum fáu orðum viljum við þakka þér fyrir allar ógleymanlegu samverustundirnar sem við munum geyma í hjarta okkar að eilífu. Við munum alltaf muna þig elsku Lína. Megir þú hvíla í friði.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Steinn, Ellý, Tinna, Vala og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sturla og Sigríður.

Það var við upphaf áttunda áratugarins sem ég kynntist minni góðu vinkonu, Ólínu Margréti Jónsdóttur, sem við kölluðum ætíð Línu. Við giftumst æskuvinum úr Vestmannaeyjum. Við Lína fundum líka hvor aðra frá fyrstu kynnum enda báðar úr Hafnarfirði og má segja að við höfum fetað svipaða leið í gegnum lífið.

Lína var einstaklega ljúf og hafði þægilega nærveru, mér leið ætíð svo undurvel í návist hennar. Við ferðuðumst víða saman og gilti þá einu hvort það var í sól og sumarhita eða í skíðabrekkum á vetrum.

Lífið var okkur ljúft og sá þráður sem við ófum saman í upphafi rofnaði aldrei. Ég minnist þess ekki að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða og Línu gat ég treyst fyrir öllum hugrenningum mínum. Betri vinkonu var vart hægt að hugsa sér.

Ég tel mig ríka að hafa fengið að kynnast Línu. Ég heimsótti hana reglulega síðustu vikurnar þar sem hún dvaldist á Hrafnistu í Hafnarfirði í námunda við heimilið sem hún bjó fjölskyldu sinni á Sævangi. Þrátt fyrir erfið veikindi og óminnið var nærveran sú sama góða og áður fyrr. Brosið var sjaldan langt undan enda stutt í gleðina hjá minni góðu vinkonu. Steinn og fjölskyldan sinnti Línu einstaklega vel í erfiðum veikindum hennar, það leyndi sér ekki að þau lögðu sig fram um að launa vel nestið sem Lína útbjó sínu fólki á lífsins leið.

Minningar um ferðalög með sameiginlegum vinum og allar ljúfu stundirnar okkar Línu geymi ég í hugskotinu. Minning um góða og einstaklega trausta vinkonu lifir.

Þórey Morthens.