Listamaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir er forseti Bandalags íslenskra listamanna, BÍL.
Listamaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir er forseti Bandalags íslenskra listamanna, BÍL. — Morgunblaðið/Eggert
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Íslensk menning hefur aldrei staðið í harðari samkeppni við aðra möguleika til afþreyingar og nú. Þá hefur menningarstarf ekki náð sér á strik eftir heimsfaraldurinn og aðsókn til dæmis á tónleika er aðeins um 60-70% af því sem var áður,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir, listakona og forseti Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), en bandalagið sendi nýverið frá sér áskorun til fjölmiðla um að auka umfjöllun sína um menningu og listir.

Í áskoruninni segir m.a. að menningarumfjöllun hafi aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Minni umfjöllun verði til þess að færri sæki menningarviðburði, kaupi bækur eða njóti menningar á annan hátt. BÍL telur mikinn áhuga vera í samfélaginu á fjölbreyttu menningarefni í fjölmiðlum.

Vegna áskorunar BÍL skal þess getið að á síðasta ári birtust á menningarsíðum Morgunblaðsins 352 dómar um bókmenntir, leiklist, tónlist, kvikmyndir, dans og myndlist. Einnig birtust 417 viðtöl, 56 bókakaflar og um 1.200 menningarfréttir af ýmsum toga. Frá áramótum til loka ágúst sl. birtust 228 dómar, 240 viðtöl, 37 bókakaflar og yfir 940 fréttir.

Umfjöllunin mikilvæg

Jóna Hlíf segir að hér á landi starfi margir hæfileikaríkir listamenn og menningarstarfið öflugt. Fjöldi tónleika, leiksýninga, myndlistarsýninga og útgáfu hvers kyns menningarefnis sé mun blómlegra en höfðatala landsins segi til um.

Hvað er til ráða?

„Við hjá Bandalagi íslenskra listamanna teljum að fagleg menningarumfjöllun sé mjög mikilvæg þegar kemur að því að ná til almennings. Menningarumfjöllun skiptir sköpum til að beina kastljósinu að því sem er í boði og vel er gert. Við teljum að á síðustu árum hafi umfjöllun um menningu breyst mikið og því miður dalað frá því sem verið hefur. Fækkun hefðbundinna fjölmiðla hefur haft þau áhrif að verulega hefur dregið úr umfangi menningarumfjöllunar og að faglega sé að henni staðið. Bandalag íslenskra listamanna sendi áskorun til fjölmiðla á Íslandi fyrir stuttu þar sem við hvöttum þá til að sinna menningarumfjöllun á faglegan hátt og í meira mæli í vetur. Nú er bara að bíða og sjá hvort það muni hafa áhrif.“

Hvernig viltu sjá umfjöllun um listir? Nú er endalaust flæði á öllum vígstöðvum af umfjöllun, hvað vantar upp á?

„Ég myndi vilja sjá fleira fagfólk innan listgreina fjalla um listir og menningu og það á landsvísu. Þá útskrifar Háskóli Íslands á hverju ári fjölda nemenda úr listfræði og skapandi skrifum sem ég tel vera vannýttan mannauð sem fjölmiðlar gætu leitað til og ráðið í vinnu.

Við hjá BÍL teljum að það sé mikill áhugi og eftirspurn eftir vönduðu og fjölbreyttu menningarefni í fjölmiðlum og fjölmörg tækifæri til þess að gera betur á þeim vettvangi. Ég myndi vilja sjá klukkutíma þátt í sjónvarpinu í hverjum mánuði þar sem sérhver listgrein myndi fá umfjöllun og gagnrýni eins og Kiljan gerir, en hún er einn af vinsælustu sjónvarpsþáttum landsins og hefur fengið fjölda verðlauna.

Einnig myndi ég vilja sjá meira af gagnrýni í prentmiðlum eins og t.d. hjá Morgunblaðinu, Heimildinni og Bændablaðinu. Bændur hafa líka áhuga á menningu og menningarlífið stendur í blóma á landsbyggðinni. Þar sem fjölmiðlar fá m.a. ríkisstyrki tel ég það þeirra hlutverk að sjá til þess að efla listgreinar með vandaðri menningarumfjöllun.“

Stefnir ekki í líflegan menningarvetur?

„Jú, heldur betur, margt í boði um allt land og það er gaman að sjá fjölbreytileikann sem einkennir komandi vetur. Allir ættu að finna eitthvað fyrir sinn snúð, eitthvað sem hreyfir við hlutlausum huga og nærir sálina. Ég er mjög spennt að sjá Líkaminn er skál sem er dansverk og sýnt í Tjarnarbíói og einnig spennt að fara á Yo-Yo Ma leika Elgar í Hörpu. Ég er mikið fyrir leikhús og hlakka til að sjá þau fjölmörgu verk sem verða sýnd í vetur. Það er öruggt að ég ætla ekki að missa aftur af Óbærilegum léttleika knattspyrnunnar og mun gera mér ferð norður til að sjá hana.“

Hvað er fram undan í myndlistinni sem er sérstaklega vert að segja frá og gefa gaum?

„Það sem er frábært við myndlistina er frelsið sem einkennir hana og að oftast nær er hægt að njóta hennar ókeypis. Á hverju ári opna sirka á þriðja hundrað myndlistarsýningar á landsvísu. Það er erfitt að gera upp á milli sýninga og safna en af því sem er á næsta leiti vil ég þó nefna að ég er spennt fyrir sýningunum sem opna 14. september í Listasafni Árnesinga en þá opna tvær einkasýningar; Millibil eftir Þórdísi Jóhannesdóttur og Hljóðróf eftir Sigurð Guðjónsson og samsýningin Lífrænar hringrásir. Einnig mæli ég með listahátíðinni HEAD2HEAD sem er samstarfsverkefni Kling og Bang og gríska gallerísins A - DASH. Það verður sannkölluð grísk veisla sem felur í sér áhugavert samtal milli listamanna með ólíkan bakgrunn en líka margt sameiginlegt. Þó að Ísland og Grikkland eigi ólíka og mislanga menningarsögu eigum við ýmislegt sameiginlegt, eins og að elska jógúrt og skyr.“

Aðgerðir skipta máli

Nú hafa af hálfu stjórnvalda verið mótaðar stefnur varðandi ákveðnar listgreinar; bókmenntastefna, tónlistarstefna o.s.frv. Hvernig hefur þetta reynst og hvar standa þessi mál í kerfinu?

„Fyrsta heildarlöggjöf um tónlist og myndlist var samþykkt á Alþingi á síðasta ári, það var mikið fagnaðarefni og hefur það reynst vel enn sem komið er. Sviðslistastefna og bókmenntastefna verða vonandi samþykkt á árinu og eiga stefnur stjórnvalda það sameiginlegt að markmið þeirra er að efla umgjörð og stuðning listsköpunar. Þá má nefna að markmið úr stefnumörkun stjórnvalda hafa verið að stofna myndlistarmiðstöð og tónlistarmiðstöð sem hafa gengið eftir og eru mikilvægur grunnur að því að efla listir og menningu í landinu. Einar og sér skila stefnur nefnilega litlu, það eru aðgerðirnar sem er gripið til við að ná markmiðum í stefnum sem skipta höfuðmáli og að þær séu fjármagnaðar að fullu. Við erum bjartsýn á framhaldið og það verður gaman að sjá hvernig vinnst úr.“

Hver er hún?

Jóna Hlíf er fædd árið 1978.

Útskrifaðist með MFA-gráðu frá Glasgow School of Art árið 2007.

MA í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012.

Hún tók við sem forseti BÍL fyrr á árinu af Erling Jóhannessyni.

Listaverk hennar hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum, bæði innanlands og erlendis.

Þar ber helst að nefna einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri og Berg Contemporary.