Stórsigur Bjarki Björn Gunnarsson skorar fjórða mark Eyjamanna í sigrinum gegn Grindvíkingum á Hásteinsvelli í gær, 6:0.
Stórsigur Bjarki Björn Gunnarsson skorar fjórða mark Eyjamanna í sigrinum gegn Grindvíkingum á Hásteinsvelli í gær, 6:0. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gríðarleg spenna er í toppbaráttu 1. deildar karla í fótbolta fyrir lokaumferðina um næstu helgi en að lokinni 21. og næstsíðustu umferðinni um helgina skilja aðeins sex stig að efstu sex liðin. Ljóst er að annað hvort ÍBV eða Fjölnir vinnur deildina og fer beint upp í Bestu deildina

Fyrsta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Gríðarleg spenna er í toppbaráttu 1. deildar karla í fótbolta fyrir lokaumferðina um næstu helgi en að lokinni 21. og næstsíðustu umferðinni um helgina skilja aðeins sex stig að efstu sex liðin.

Ljóst er að annað hvort ÍBV eða Fjölnir vinnur deildina og fer beint upp í Bestu deildina. ÍBV er með 38 stig á toppnum eftir stórsigur á Grindavík, 6:0, og Fjölnir endurheimti annað sætið með 37 stig með því að sigra Aftureldingu í lykilleik í Grafarvogi, 2:0.

Eyjamenn eiga fyrir höndum útileik gegn Leikni í Reykjavík og eru komnir upp ef þeir vinna. Það verður þó enginn hægðarleikur því Leiknismenn hafa verið á mikilli siglingu, unnu Þrótt 3:2 í Laugardalnum í gær og eru ósigraðir í sjö leikjum eftir að hafa verið í bullandi fallbaráttu lengi vel.

Misstígi Eyjamenn sig gegn Leikni fara Fjölnismenn upp ef þeir ná að vinna útisigur í Keflavík á laugardaginn, í stórleik lokaumferðarinnar milli liðanna í öðru og þriðja sæti.

Myndu þurfa risasigra

Keflavík og ÍR, sem eru með 35 stig, eiga reyndar bæði tæknilega möguleika á að vinna deildina með risasigrum en eru svo langt á eftir ÍBV í markatölu að það eru bara tölfræðilegar líkur. Keflavík er 14 mörkum á eftir ÍBV og ÍR 18 mörkum.

Keflavík og Njarðvík skildu jöfn í grannaslag á Ljósanótt, 0:0, á Njarðvíkurvelli en ÍR lagði Gróttu, 2:1, í Mjóddinni í gær.

Afturelding mætir ÍR

ÍR með 35 stig, Afturelding með 33 og Njarðvík með 32 stig eru í baráttu um tvö síðustu sætin í umspilinu en þar munu liðin í öðru til fimmta sæti slást um eitt sæti í Bestu deildinni.

Afturelding og ÍR mætast í leik sem er nánast hreinn úrslitaleikur um að komast í umspilið því Njarðvík, sem mætir Grindavík, kæmist með sigri upp fyrir annaðhvort Aftureldingu eða ÍR.

 Hermann Þór Ragnarsson og Bjarki Björn Gunnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir ÍBV gegn Grindavík og þeir Vicente Valor og Oliver Heiðarsson eitt hvor.

 Dagur Ingi Axelsson og Máni Austmann skoruðu mörk Fjölnis í sigrinum á Aftureldingu.

 Renato Punyed, bróðir Pablo í Víkingi, og Bragi Karl Bjarkason skoruðu fyrir ÍR-inga gegn Gróttu.

Grótta féll og Þór slapp

Grótta féll niður í 2. deild í gær með tapinu gegn ÍR, 2:1, en Seltirningar urðu að vinna leikinn til að eiga einhverja von um að halda sér í deildinni.

Sigur hefði þó ekki breytt neinu fyrir Gróttu því Þór gulltryggði sæti sitt með því að vinna Dalvík/Reyni á Akureyri, 2:0, en Dalvíkingar voru fallnir fyrir leikinn.

Aron Einar Gunnarsson fyrrverandi landsliðsfyrirliði skoraði fyrra mark Þórs gegn Dalvík/Reyni úr vítaspyrnu, sitt fyrsta mark í deildakeppni hér á landi.

Þetta var fyrsti sigur Þórs eftir heimkomu Arons en Akureyrarliðið hafði leikið átta leiki í röð án sigurs og tap hefði getað þýtt hreinan úrslitaleik við Gróttu í lokaumferðinni næsta laugardag.

Höf.: Víðir Sigurðsson