Grímur Aldísar Leikhópurinn Skýjasmiðjan að æfa sýninguna Hetja.
Grímur Aldísar Leikhópurinn Skýjasmiðjan að æfa sýninguna Hetja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldís Gyða Davíðsdóttir fæddist 9. september 1984 í Reykjavík og ólst að mestu upp í Selási. Hún fór einnig oft í sveitina hjá afa sínum og ömmu í Landeyjum. „Við stofnuðum leikhóp í bílskúrnum hjá Ingu frænku þegar við vorum um 7 ára sem ég…

Aldís Gyða Davíðsdóttir fæddist 9. september 1984 í Reykjavík og ólst að mestu upp í Selási. Hún fór einnig oft í sveitina hjá afa sínum og ömmu í Landeyjum.

„Við stofnuðum leikhóp í bílskúrnum hjá Ingu frænku þegar við vorum um 7 ára sem ég var að endingu rekin úr vegna slæmrar mætingar vegna tíðra sveitaferða til ömmu og afa, en það skapaðist líka visst ósætti vegna þess að ég missti aðalhlutverkið í Tarzan-söngleiknum til Guðrúnar vinkonu minnar en hún var reiðubúin að vera á lendaskýlu fyrir hlutverkið, annað en ég sjálf sem var óttaleg kuldaskræfa.

Ég hef alltaf blómstað í iðnfögum og fór að nema listnámsbraut við Fjölbraut í Breiðholti árið 2000. Ég tek þátt í uppfærslu nemendafélags FB á Lifi Rokkið queen show og fór fyrir algera tilviljun að taka þátt í Fríðu og dýrinu sem Leikfélag Mosfellssveitar setti upp á þessum tíma og fékk þar að leika forláta skeið og má þar segja að ekki hafi verið aftur snúið. Ég tók þátt í uppfærslum og námskeiðum hjá leikfélögunum, eins mikið og ég mögulega gat komið fyrir. Ég fæ svo símtal frá Helgu Steffensen og er boðið starf við Brúðubílinn sem ég tók og við tók tímabil Brúðuleikhússins sem hefur loðað við mig allar götur síðan.“

Árið 2008 fékk Aldís svo inni í skólanum Rose Bruford í London í klassískt leikaranám. „Þegar ég útskrifaðist stofnuðum við Stefán Benedikt leikhópinn Skýjasmiðjuna og við bættust svo Orri Huginn og Ágústa Skúladóttir. Fleiri snillingar hafa svo starfað fyrir leikhópinn í gegnum tíðina. Við settum upp heilgrímusýninguna Hjartaspaðar 2012 sem hlaut tvær grímutilnefningar 2013, þar af eina fyrir grímurnar mínar. Skýjasmiðjan bjó svo til heilgrímusýninguna Hetja, barnasýninguna Fiskabúrið og Hríma í samstarfi við Baun í Bala. Allt eru þetta sýningar sem ég bjó til og hannaði grímur og brúður og fleira. í þeim dúr.“ Hetja fékk einnig grímutilnefningu fyrir grímurnar hennar Aldísar árið 2022.

Aldís stofnaði hljómsveitina Sunnyside Road með Rósu Ásgeirs, leik- og tónlistarkonu. „Hljómsveitin breyttist gegnum árin en við spiluðum á nokkrum „Melodica Festival“, Gærunni, Menningarnóttum, á stóra sviðinu 17. júní, sjómannadeginum og á hinum ýmsu stöðum við hin ýmsu tilefni. Við gáfum út sex lög, þar af fimm frumsamin, og Winterlong sem var í öðru sæti í Neil Young-coverlagakeppni Rásar tvö. Flest komust á vinsældalista Rásar tvö og fengu ágætisspilun, til að mynda sumarlagið Gerum ekki neitt.“

Aldís hefur búið til brúður fyrir Þjóðleikhúsið, leikmuni fyrir Íslensku óperuna, búninga fyrir sænska danshópinn Blauba og hannað leikmyndir. „Ég hef gert flest það sem kemur að leikhúsi nema kannski ljósahönnun, en það er gott að eiga eitthvað eftir til að prófa síðar. Síðast má nefna brúðukindina Þokkabót og fleiri brúður í verki Þórs Túliníusar, Hollvættir á heiði, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur sem vann Grímuverðlaun fyrir barnasýningu ársins 2024.

Annars er lífið ljúft með fjögur dásamleg börn í fallega húsinu Bala í Mosfellsbæ en þess má geta að það hús var áður í eigu listamannsins Dieter Roth sem nýtti það sem vinnustofu en við Kiddi maðurinn minn höfum verið að vinna í að gera það upp síðastliðin ár. Ég hef unnið mikið með börnum og fyrir börn gegnum tíðina og þykir þau einkar skemmtilegir og heiðarlegir vinnufélagar og sjaldan er lognmolla þar sem börn eru að skapa. Ætli maður sé ekki bara eilíft náttúrubarn, enda elska ég að leika mér og njóta í náttúrunni á berum tánum á sumarnóttum.“

Fjölskylda

Maki Aldísar er Kristinn Sigurbjörnsson, f. 10.9. 1986, framkvæmdastjóri og eigandi Langelds ehf., byggingafræðingur og eigandi Allt fasteignasölu, múrarameistari og húsasmíðameistari. Þau eru búsett í Reykjahverfi í Mosfellsbæ. Foreldrar Kristins eru Katrín Jónsdóttir, f. 4.12. 1961, listakona, gift Helmut Grimm, og Sigurbjörn Kristinn Haraldsson, f. 29.10. 1953, húsasmíðameistari.

Börn Aldísar eru Embla Steinvör Stefánsdóttir, f. 18.6. 2009, Iðunn Eldey Stefánsdóttir, f. 10.7. 2014, Óðinn Ylur Aldísar Kristinsson, f. 19.12. 2019, og Una Þórey Aldísar Kristinsdóttir, f. 19.7. 2023.

Systkini Aldísar: Jóhannes Pétur Davíðsson tónlistarmaður, f. 11.7. 1971, d. 13.8. 2013; Karl Gústaf Davíðsson gullsmíðameistari, f. 10.8. 1977, og María Guðfinna Davíðsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur, f. 15.6. 1979.

Foreldrar Aldísar eru Margrét Karlsdóttir, f. 21.10. 1955, móttökuritari hjá fjármálaráðuneytinu, búsett í Reykjavík, og Davíð Jóhannesson, f. 28.7. 1950, gullsmíðameistari, kvæntur Guðlaugu Bjarnþórsdóttur, f. 19.12. 1956. Þau eru búsett á Selfossi.