[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grótta fór vel af stað í úrvalsdeild karla í handknattleik á laugardaginn og sigraði KA, 29:25, á Seltjarnarnesi í síðasta leik fyrstu umferðar deildarinnar. Jón Ómar Gíslason skoraði 9 mörk fyrir Gróttu og Jakob Ingi Stefánsson 7, og Magnús Gunnar…

Grótta fór vel af stað í úrvalsdeild karla í handknattleik á laugardaginn og sigraði KA, 29:25, á Seltjarnarnesi í síðasta leik fyrstu umferðar deildarinnar. Jón Ómar Gíslason skoraði 9 mörk fyrir Gróttu og Jakob Ingi Stefánsson 7, og Magnús Gunnar Karlsson varði 11 skot í marki liðsins. Daði Jónsson og Dagur Árni Heimisson skoruðu 6 mörk hvor fyrir KA og Bruno Bernat varði 13 skot í marki Akureyrarliðsins.

Íslandmeistarar Vals lentu í basli með ÍR í fyrri hálfleik í fyrstu umferðinni í úrvalsdeild kvenna í handbolta á Hlíðarenda á laugardag en unnu svo öruggan sigur, 35:26. Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Val, Elísa Elíasdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 5 og Elín Rósa Magnúsdóttir 5. Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði 5 mörk fyrir ÍR, Karen Tinna Demian 4, Hanna Karen Ólafsdóttir 4 og Katrín Tinna Jensdóttir 4.

ÍBV vann Gróttu í hörkuleik á Seltjarnarnesi, 23:21, í úrvalsdeild kvenna í handbolta á laugardag. Sunna Jónsdóttir skoraði 8 mörk fyrir ÍBV, Birna Berg Haraldsdóttir 6 og Britney Cots 3 en Daðey Ásta Hálfdánsdóttir og Karlotta Óskarsdóttir skoruðu 5 mörk hvor fyrir Gróttu og Rut Bernódusdóttir 4.

Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, tryggði Kristianstad góðan útisigur á Hammarby, 2:1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær með marki á 79. mínútu. Kristianstad er í fjórða sæti en Hammarby í þriðja. Hlín og Katla Tryggvadóttir léku allan leikinn með Kristianstad og Guðný Árnadóttir fór af velli skömmu fyrir leikslok.

María Ólafsdóttir Gros skoraði tvö mörk fyrir sænska liðið Linköping þegar það vann stórsigur á First Vienna frá Austurríki, 8:0, í fyrstu umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta á laugardaginn. María lék fyrstu 65 mínúturnar. Linköping er þó úr leik því liðið tapaði fyrir Sparta Prag í undanúrslitum í sínum riðli.

Þrjú lið eru í tvísýnni baráttu um eitt sæti í 1. deild karla í fótbolta, Völsungur, Þróttur úr Vogum og Víkingur frá Ólafsvík. Völsungur stendur best að vígi, stigi á undan hinum, eftir jafntefli gegn Þrótti á Húsavík í gær, 2:2, þar sem Juan Guardia jafnaði fyrir Völsung í uppbótartíma. Völsungar fara upp ef þeim tekst að vinna KFA á Reyðarfirði í lokaumferðinni, annars þurfa þeir að treysta á að Þróttur og Víkingur tapi stigum.

Akureyringurinn Dagur Gautason skoraði sjö mörk á laugardaginn þegar lið hans Arendal vann Sandnes, 32:29, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Dagur hefur skorað 13 mörk í fyrstu tveimur umferðunum og Arendal hefur unnið tvo fyrstu leiki sína.

Meistarar Kolstad eru líka með fjögur stig eftir tvo leiki í Noregi. Sveinn Jóhannsson skoraði fimm mörk, Benedikt Gunnar Óskarsson þrjú og Sigvaldi Björn Guðjónsson eitt fyrir Kolstad sem vann Bergen, 36:30, á útivelli.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings í Reykjavík, sagði í viðtali við fótbolti.net á laugardaginn að 85 prósent líkur væru á því að Víkingar myndu spila heimaleikina þrjá í Sambandsdeild karla í Færeyjum. UEFA samþykkir hvorki Laugardalsvöllinn í desember né Víkingsvöllinn. Eini möguleikinn sé að spila á Kópavogsvelli, Breiðablik hafi samþykkt það, en til þess þurfi að ráðast í mikinn kostnað til að gera völlinn löglegan.

Þýskalandsmeistarar Magdeburg í handknattleik hófu titilvörnina á sigri gegn Wetzlar, 35:28, á laugardaginn og þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson byrjuðu tímabilið líka vel. Ómar var markahæstur með 9 mörk og Gísli skoraði 7.

Íslendingarnir í Leipzig fóru líka vel af stað í þýsku 1. deildinni en liðið, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann Stuttgart í gær, 33:24. Viggó Kristjánsson var með 5 mörk og tvær stoðsendingar og Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk og átti fjórar stoðsendingar.