Ingibjörg Jónína Þórðardóttir (Lilla frá Skálanesi) fæddist 11. ágúst 1932. Hún lést 25. ágúst 2024. Útför fór fram 6. september 2024.

Elsku Lilla mín.

Mig langar að minnast þín með nokkrum línum. Þið þrjár eldri systur mínar voruð allar fæddar á Akureyri, síðan fluttist fjölskyldan til Njarðvíkur og loks til Vestmannaeyja 1937 og leigði þar kjallarann í Vallatúni hjá góðu fólki. Þar höfðu þau búið í ein tvö ár þegar sorgin kvaddi dyra. Faðir okkar lést óvænt í svefni 1. febrúar 1939, aðeins 52 ára að aldri. Lára var 11 ára, Didda níu ára og Lilla sjö ára. Ég var ófædd, fæddist í apríl. Þetta voru erfiðir tímar fyrir ykkur, mamma þekkti fáa í Eyjum og ekki voru tryggingar né áfallahjálp.

Pabbi hafði fest kaup á austurhelmingi Skálaness og fluttum við þangað. Mamma fann ráð til að framfleyta fjölskyldunni og fór að selja fæði til kostgangara, enda frábær kokkur. Það reyndi mikið á eldri systur mínar að hjálpa til og passa mig.

Það var gott að alast upp við lautina og alltaf nóg um að vera, leikir og fjör. Mannlífið var gott, Lilla eignaðist þar sínar bestu vinkonur, Þyri í Varmahlíð og Svölu í Sigtúni, var vinátta þeirra einlæg og góð. Föðurbróðir okkar Guðmundur og Jónína á Háeyri bjuggu í næsta húsi og var alltaf vinátta þeirra viss.

Lilla fór í sveit nokkur sumur, fyrst í Fljótshlíð en svo í Reynishverfi, Svala var á næsta bæ, áttu þær ánægjulegan tíma þar. Lilla veiktist um fermingu og fór á spítala, var þar um tíma. Síðan árið 1950 veiktust Lára og Lilla af berklum og þurfti Lilla að vera 11 mánuði á Vífilsstöðum og Lára þrjú ár. Lilla vann í fiski, en þegar hún var búin að jafna sig eftir dvölina á Vífilsstöðum fór hún að vinna á símstöðinni og vann þar lengst af.

Við Lilla vorum alltaf samrýndar og góðar vinkonur, eins og við allar systurnar, mikið þurfti að vinna enda var ekki annað hægt en að leggja sitt af mörkum.

Ég fór líka að vinna á símstöðinni og var gott að vinna með Lillu og öllu góða fólkinu sem þar vann.

Lilla giftist Svani Jónssyni 1956, glæsilegum og góðum manni, eignuðust þau synina Jón Ólaf og Þórð. Fljótlega eftir að Lilla og Svanur fóru að vera saman kynnti Svanur mig fyrir vini sínum og þar hitti ég Eyva minn. Allt gekk vel, við urðum samstiga, fórum að byggja hús og eiga börn. Lilla og Svanur byggðu Sóleyjargötu 7 en Eyvi og Hlíðarfeðgar Sóleyjargötu 3. Það var vinátta og samheldni, allir hjálpuðust að, mikið unnið en líka dansað og farið í bíó. Alltaf var hægt að fá pössun hjá mömmu eða Láru, alltaf nóg pláss.

Þrátt fyrir heilsuleysi var hún hress, lífsglöð og þakklát fyrir lífið, synina og afkomendur. Hún var fagurkeri, unni hannyrðum, gjafmild og hlý.

Seinni árin ferðuðust Lilla og Svanur, nutu þess að fara í sól og hita og hafði það góð áhrif á hana. Ég heimsótti Lillu mína 11. ágúst á 92 ára afmælinu ásamt Þórunni, Þóru og barabörnunum. Við áttum yndislegan dag með fjölskyldu Lillu og vinum, hún var svo glöð og ánægð. Þegar hún kvaddi mig sagði hún: Reyndu að vera kát og hress Þóra mín.

Hún var félagslynd og hugsaði mikið um fólkið sitt og alla í kringum sig, vildi öllum gott gera.

Elsku Lilla mín takk fyrir allt og allt.

Þín systir,

Þóra.

Elsku Lilla.

Mikið komum við til með að sakna þín. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga þig að og njóta samvista við þig. Sú tilfinning að þinn tími hafi ekki verið kominn og þú hafir farið allt of fljótt er óháð aldri, 92 ár er hár aldur, en lífsgleði þín, jákvæðni og lífsvilji sögðu okkur allt annað. Þú varst jafningi, viðhorf þitt til lífsins, gleðin yfir lífinu, fólkinu í kringum þig og fegurðinni var einlæg.

Lífið var stundum erfitt, og það blés á móti en styrkur þinn var æðruleysi og jákvæðni.

Við spjölluðum oft um liðna tíma, um lífsbaráttu ömmu, ekkju með fjórar dætur sem börðust með henni til að lifa af. Þú sagðir mér að amma hefði aldrei beðið um lán en hún varð þó að brjóta þá reglu. Hún bað um lán í nokkra daga til þess að borga kol fyrir veturinn, kolaskipið var að koma og hún átti ekki fyrir greiðslunni. Henni var neitað. Eftir nokkra daga fékk viðkomandi bakþanka og sagði að hún gæti fengið lánið. Amma gat stolt afþakkað það því að Lilla hafði fengið greidda sumarhýruna fyrir vinnuna í sveitinni og þær voru búnar að borga kolin.

Ég man enn símtalið sem kom um miðja nótt, þú sagðir að það væri farið að gjósa við endann á götunni og það væru allir að flýja. Það var ekki sofið þá nóttina, við brunuðum á Kambabrún og sáum þaðan eldana sem loguðu í Eyjum. Síðan tók við bið eftir að heyra hvort allir hefðu bjargast og væru komnir í land.

Þið stóðuð þetta af ykkur og byggðuð ykkur aftur upp fallegt heimili. Þú varst fagurkeri og elskaðir fallega hluti, listaverkin voru mörg sem þú gerðir í höndunum, þú hafðir einfaldlega glæsilegan stíl. Þú sagðir mér frá atviki sem þú hafðir ekki getað gleymt. Þú hafðir sé mjög fallega ljósakrónu í búð og þig langaði mikið í hana. Þú ákvaðst að lokum að láta slag standa. Í versluninni tók á móti þér ræðin afgreiðslukona. Sem sagði að svona ljósakrónur hefði bara eitthvert ríkt lið úr Eyjum keypt sem fengið hefði allt frá Viðlagasjóði. Þér sárnaði (kannaðist ekki við að borið hefði verið á ykkur fé) þú varst að spá í að ganga út, en ljósakrónan varð ofan á og þú keyptir hana, þú hugleiddir þó að draga upp tékkheftið og skrifa ávísun frá Sparisjóði Vestmannaeyja.

Maður er manns gaman á svo sannarlega við um þig. Þú elskaðir að hitta fjölskylduna, halda veislur og veita vel, brauðterturnar og veisluréttirnir, maður minn, það kemst enginn með tærnar þar sem þú hafðir hælana. Þú vildir öllum gott gera, varst gjafmild og vildir deila því sem þú áttir með öðrum. Þegar þú varðst níræð, hélstu um taumana, skipulagðir veisluna, bauðst ættingjum og vinum heim kvöldið fyrir veisluna, eldaðir grænbaunasúpu fyrir tugi manna, geri aðrir betur.

Við áttum saman langt spjall á afmælinu þínu. Þú varst glöð og ánægð, mamma hafði drifið sig til Eyja með fríðu föruneyti og birtist allt í einu inni á gólfi hjá þér. Dagurinn var fullkominn, þú eyddir honum með vinum og vandamönnum og naust hverrar mínútu.

Þú auðgaðir lífið og yljaðir öllum sem kynntust þér, takk fyrir allar þær stundir sem þú gafst mér.

Þín frænka,

Kristbjörg.