[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það má ekki líta svo á að Isavia og Landsvirkjun hafi starfað í óþökk eigenda sinna.

Örn D. Jónsson

„Ísland getur orðið fyrsta landið í heiminum til að nota eingöngu græna endurnýjanlega orku. Við notum um milljón tonn af olíu á ári … Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands … Markmið orkuskipta er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að nýta endurnýjanlega orkugjafa í stað þess að nota olíu og bensín.“ (Af vefnum orkuskipti.is.)

Í þessum orðum felst að rafmagnað land verður grænt og sjálfbært; ef olíu er skipt út með rafmagni er takmarkinu náð. Á sama vef er bent á að 53% núverandi losunar séu tilkomin vegna notkunar á þotueldsneyti. Framtíðarsýn I er að „tengja heiminn í gegnum Ísland“ og eitt kjörorðið er: „Saman á nýrri vegferð.“ Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að 12,9 milljónir farþega fari um Keflavíkurvöll árið 2035 og 15,9 milljónir farþega árið 2045.

Stórnotendur raforku

Árið 2003 var Landsvirkjun ætlað að „hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi„. En athafnasvið félagsins hefur verið þrengt. Landsvirkjun er aftur orðin virkjun: „Orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar„ sem vinnur „rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum; vatnsafli, jarðvarma og vindi.“

Í upphaflegri áætlun var áhersla félagsins að ná til stórnotenda. Árangurinn hefur verið rýr. Norðurál hætti við og setti verkefnið í þrot. Þrjú fyrirtækjanna, United Silicon, Silicor og Thorsil, stóðust ekki hefðbundna áreiðanleikakönnun. Eina starfandi félagið er PCC. Það kaupir eitt prósent af orku landsins og hefur lengst af verið á barmi gjaldþrots; lífeyrissjóðirnir afskrifuðu sitt framlag að mestu. PCC losar 150 þúsund tonn á ári. Rammaáætlunin hefur því verið óþörf í reynd.

Fyrir utan PCC eru gagnaverin einu stórnotendur raforku frá því Kárahnúkavirkjun var gangsett, keyptu fimm prósent af orku landsins þegar mest var eða jafn mikið og heimili landsins nota. Kaupendurnir hafa að mestu verið að grafa eftir rafmynt sem er sýndarvara, ónothæf í almennum vöruviðskiptum.

Árið 2018 var losun 80% koltvísýrings beintengd hlutverki, starfsháttum og áætlunum tveggja stórra ríkisfyrirtækja, Landsvirkjunar og I, eins og meðfylgjandi súlurit sýnir.

Það má ekki líta svo á að I og Landsvirkjun hafi starfað í óþökk eigenda sinna. Vandinn er að félögin halda í upphaflegar fyrirætlanir á meðan ytri aðstæður og ríkjandi viðmið hafa breyst í grundvallaratriðum. Árið 2003 var markmið Landsvirkjunar arðsemi og aukið umfang. Síðan var það spennan á milli virkjunar og umhverfisverndar eða ramminn. Nú er yfirmarkmiðið takmörkun á losun koltvísýrings.

„Fyrsti stórnotandi raforku í Vestmannaeyjum“

Laxeldi hefur tekið við af rafmyntinni. Núverandi staða minnir á tilkomu kvótakerfisins þar sem veiðireynsla var úthlutunarviðmiðið. First Water stefnir á fimmtíu þúsund tonn og er áætlað að framkvæmdin kosti yfir 100 milljarða (Viðskiptablaðið 28. október 2023).

„Uppbyggingin miðar að sjálfbærri og umhverfisvænni framleiðslu þar sem lax er alinn við kjöraðstæður í hreinum sjó sem dælt er upp í gegnum hraunlög á svæðinu og öll orka kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum vatns- og gufuaflsvirkjana Landsvirkjunar.“ („First Water lýkur 12,3 milljarða fjármögnun,“ Landsbankinn.is 4. júlí 2023.)

Í frétt á vef Landsvirkjunar 18. mars 2024 segir að Landsvirkjun hafi gert „grænan raforkusamning„ við Laxey sem stefnir á að framleiða 32 þúsund tonn af laxi og verður „fyrsti stórnotandi raforku í Vestmannaeyjum“ – en forsendan er að Búrfellslundur verði tekinn í gagnið árið 2026 og Hvammsvirkjun árið 2028.

Búrfellsmyllurnar eru tilraunaverkefni. Vatnsaflsvirkjanir verða tæpast fleiri en fjórar en það er stefnt á tíu jarðvarmavirkjanir en þær hafa þann ókost að einungis tíu til fimmtán prósentum af því vatni sem dælt er upp er hægt að umbreyta í að raforku og aðstæður hafa afgerandi þýðingu eins og hörmungarnar á Reykjanesi bera með sér. Dýr og áhættusöm leið.

Framtíðasýn Isavia er í fullu gildi, eins og umfangsmiklar byggingarframkvæmdir gefa til kynna og Landsvirkjun gerir samninga við stórhuga laxeldisfyrirtæki. Þeirri orku sem fyrirhugað er að virkja hefur þegar verið ráðstafað í fiskeldi. Ef orkuskipti eru annað en orðin tóm telur aukin virkjun lítið. Verkefnið hlýtur að vera pólitísk forgangsröðun framleiddrar orku; hvað er framleitt, fyrir hvern og hvers vegna.

Höfundur er prófessor emeritus.

Höf.: Örn D. Jónsson