Baker Var snjall njósnari í seinna stríði.
Baker Var snjall njósnari í seinna stríði. — Ljósmynd/Wikipedia
Ljósvakahöfundur horfði á þriggja þátta heimildamynd á erlendri stöð um konur sem tóku þátt í stríðsaðgerðum í seinna stríði, Women on the Frontline. Fjallað var um konur sem voru njósnarar, í flugher, blaðamenn á vígvelli og jafnvel leyniskyttur

Kolbrún Bergþórsdóttir

Ljósvakahöfundur horfði á þriggja þátta heimildamynd á erlendri stöð um konur sem tóku þátt í stríðsaðgerðum í seinna stríði, Women on the Frontline. Fjallað var um konur sem voru njósnarar, í flugher, blaðamenn á vígvelli og jafnvel leyniskyttur. Ekki var einungis fjallað um konur sem unnu fyrir bandamenn. Þarna var einnig sagt frá þýskum konum sem störfuðu fyrir nasista.

Franski skemmtikrafturinn Josephine Baker er frægust þessara kvenna en hún var eitursnjall njósnari. Önnur kona var sovésk leyniskytta, Ljúdmíla, en eftir að nasistar drápu eiginmann hennar sór hún þess eið að drepa eins marga óvini og hún gæti. Hún var kölluð frú Dauði og drap 309 óvini. Hún varð svo fræg að henni var boðið í Hvíta húsið og mynduð með Eleanor Roosevelt.

Í einum þætti var rætt við hundrað ára gamla hollenska konu sem njósnaði fyrir bandamenn. Fjölskylda hennar dó í fangabúðum nasista. Hún sagði: „Heilinn segir að ég eigi að fyrirgefa en hjartað getur það ekki.“

Þarna voru konur sem hikuðu ekki við að leggja líf sitt í hættu fyrir málstað sem þær trúðu á. Allnokkrar létu lífið ungar að árum.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir