Orri Páll Jóhannsson
Orri Páll Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að á komandi þingvetri muni Sjálfstæðisflokkurinn leggja mesta áherslu á að stuðla að hjöðnun verðbólgu og veita aðhald í ríkisfjármálunum

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að á komandi þingvetri muni Sjálfstæðisflokkurinn leggja mesta áherslu á að stuðla að hjöðnun verðbólgu og veita aðhald í ríkisfjármálunum.

„Vextir eru út í hött og verður að ná niður. Fjárlög hafa ekki verið lögð fram en þau verða að vinna með Seðlabankanum í að hægja á hagkerfinu, sem þau ku gera þótt ég hafi ekki enn séð lokaútfærslu fjármálaráðherra. Útgjaldavöxtur skiptir þar mestu máli en að raunvirði ættu útgjöld ríkissjóðs að standa í stað,“ segir Hildur.

Hún segir að ná þurfi í gegn frumvörpum um t.d. búsetuúrræði fyrir hælisleitendur, vindorku, skýrari reglur í kringum fjárfestingu erlendra aðila í innviðum á Íslandi og um netsölu áfengis.

Heldur þú að það verði kosið í vor eða haustið 2025?

„Ég get ekki svarað því,“ svarar Hildur.

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að eitt brýnasta málið á komandi þingvetri verði efnahagsmálin, þ.e. að verðbólga hjaðni frekar og að vextir lækki. Hann segir að fyrir liggi að klára samgönguáætlun sem og stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Þá væntir hann þess að matvælaráðherra muni koma með frumvörp tengd vinnunni við Auðlindina okkar. Hann telur sig vita að það liggi ekki fyrir önnur ákvörðun en að klára kjörtímabilið.

„Þá er það í september á næsta ári en það hefur auðvitað verið til umræðu í samfélaginu að það sé praktískara að kjósa á vorin og ég er ekkert ósammála því,“ segir hann og bætir við að það geti verið ansi bratt að setja saman fjárlagafrumvarp á veturna á sama tíma og það er verið að mynda ríkisstjórn.

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar segir að efnahagsmálin séu stærsta forgangsmálið á komandi þingvetri en mál eins og útlendingamál og orkumál séu einnig mikilvæg. Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp fer fram á fimmtudag.

„Verðbólgan hefur verið þrálátari en við vorum að vonast til þannig að við þurfum að halda verkefninu áfram þar til við náum tökum á þessu. Ríkisfjármálin eru einn þáttur í því að ná tökum á verðbólgunni,“ segir hún. Ráðherrar Framsóknar munu m.a. leggja áherslu á neytendamál, íslensku, menntamál og heilbrigðismál.

Heldur þú að það verði kosið næsta vor eða haustið 2025?

„Við stefnum að því að klára þetta kjörtímabil sem þýðir að við horfum á kosningar 2025, þangað til og ef eitthvað annað kemur í ljós“ segir Ingibjörg.