Fylgi Trump og Harris mælast hnífjöfn í könnunum og nú gefst þeim mögulega tækifæri til að breyta þeirri stöðu.
Fylgi Trump og Harris mælast hnífjöfn í könnunum og nú gefst þeim mögulega tækifæri til að breyta þeirri stöðu. — AFP/Alex Wroblewski
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, munu mætast í kappræðum á sjónvarpsstöð ABC News annað kvöld. Þetta eru einu kappræðurnar sem eru skipulagðar að svo stöddu og því gætu þetta orðið einu…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, munu mætast í kappræðum á sjónvarpsstöð ABC News annað kvöld. Þetta eru einu kappræðurnar sem eru skipulagðar að svo stöddu og því gætu þetta orðið einu kappræðurnar fram að kosningum, sem yrði mjög óvenjulegt.

Mikil eftirvænting er fyrir kappræðunum og þá er vert að minnast á það að Trump og Harris eru að fara hittast í fyrsta sinn á ævinni.

Álitsgjafar vestanhafs segja kappræðurnar vera einstaklega mikilvægar í ljósi þess hversu jafnir frambjóðendurnir eru í fylgismælingum. Í sjö mikilvægustu sveifluríkjunum – sem koma til með að ráða úrslitum um það hver vinnur kosningarnar – mælast þau beinlínis hnífjöfn samkvæmt RealClear Politics sem tekur saman meðaltal kannanna. Mesti fylgismunurinn í sveifluríkjunum er í Wisconsin, þar sem Harris er með 1,5% forskot á Trump samkvæmt mælingum og er það tölfræðilega ómarktækur munur.

Kappræðurnar verða klukkan eitt að nóttu til á miðvikudag á íslenskum tíma, eða klukkan 21 á þriðjudegi að staðartíma. Kappræðurnar fara fram í Stjórnarskrársetrinu í Pennsylvaníu-ríki, sem er eitt allra mikilvægasta ríkið í komandi kosningum 5. nóvember.

ABC mun ekki gefa út hvaða mál verða helst rædd en ætla má að meðal annars verði farið yfir efnahagsmál, útlendingamál, aðgengi kvenna að fóstureyðingum, utanríkismál og jafnvel framgöngu Trumps í kjölfar þess að hann tapaði síðustu forsetakosningum.

Undirbúningur frambjóðenda er mismunandi en á fimmtudag mætti Harris til Pennsylvaníu til að undirbúa sig fyrir kappræðurnar ásamt ráðgjöfum.

Á sama tíma hefur Trump sagt að hann sé að undirbúa sig fyrir kappræðurnar eins og hann gerði fyrir kappræðurnar á móti Joe Biden, með því að mæta í viðtöl, halda kosningafundi og ræða við ráðgjafa um ýmis mál.

Harris er fyrir mörgum Bandaríkjamönnum enn nokkuð óþekkt og þá þykir sumum óljóst hvað hún stendur fyrir nákvæmlega. Í kappræðunum gefst henni tækifæri til að kynna sig og sín stefnumál. Hún mun væntanlega einblína á fóstureyðingarmálin sem hafa reynst repúblikönum nokkuð erfitt mál meðal kvenkyns kjósenda. Hún mun þá þurfa að sýna að hún sé raunveruleg breyting en ekki bara framhald á nokkuð óvinsælli ríkisstjórn hennar og Bidens.

Fáir eru jafn sjóaðir í forsetakappræðum og Trump og því ekki ólíklegt honum muni líða nokkuð þægilega á stóra sviðinu. Margir munu fylgjast með því hversu agaður hann verður og þá hvort að hann forðist það að vera með persónulegar móðganir í garð Harris. Líklegt þykir að hann muni einblína á útlendingamálin og efnahagsmálin eins og í síðustu kappræðum.