Björgvin Ólafur Sveinsson fæddist 3. desember 1949 á Djúpavogi. Hann lést 22. ágúst 2024.

Björgvin bjó á Djúpavogi til fullorðinsára. Árið 1969 fór á hann á vertíð í Sandgerði og kynnist þar Rósu G. Benediktsdóttur og hefja þau sinn búskap þar.

Þau flakka töluvert fyrstu árin; Neskaupstaður, Keflavík, Hveragerði, Hnífsdalur, Þórshöfn og Seyðisfjörður, en árið 1990 flytja þau aftur til Neskaupstaðar og eru þar til dánardags.

Faðir Björgvins, Sveinn Snjólfur Þórðarson sjómaður, f. 15. janúar 1918, d. 28. mars 2009, fæddist í Steinholti í Stöðvarfirði og móðir hans, Ólöf Ólafsdóttir, f. 6. október1916, d. 22. apríl 2009, fæddist á Þverá í Álftafirði.

Björgvin var næstelstur sex systkina: Sjöfn, f. 24. ágúst 1937, d. 12. febrúar 2024,

Þórður, f. 13. júlí 1952, Heiðar, f. 15. apríl 1954, Auður, f. 20. desember 1955, og Sigurður, f.13. febrúar 1962.

Rósa Benediktsdóttir fæddist 15. júlí 1951 á Blönduósi. Hún lést 22. ágúst 2024.

Hún ólst upp á Drangsnesi en flutti þaðan 14 ára í Hnífsdal. Faðir Rósu var Benedikt Sigurðsson sjómaður, f. 1. október 1899, d. 8. október 1965. Móðir hennar var Hjálmfríður Lilja Jóhannsdóttir, f. 22. nóvember 1913, d. 29. júlí 2000.

Rósa ólst upp í stórum systkinahóp og átti 21 systkini, 12 alsystkini og 9 hálfsystkini, voru þau því 22 talsins:

Guðríður Sigrún Anna Benediktsdóttir, f. 1937, d.2003, Helga Benediktsdóttir, f. 1939, Sigurður Benediktsson, f.1940, d. 2017, Ragnar Benediktsson, f. 1941, d. 2011, Jórunn Jóna Benediktsdóttir, f. 1943, d. 1944, Magnús Örn Benediktsson, f. 1944, Jóhann Karl Benediktsson, f. 1945, Jón Stefán Benediktsson, f. 1947, d. 1990, Ragnheiður Benediktsdóttir, f. 1949, Guðný Benediktsdóttir, f. 1952, Svanhildur Erla Benediktsdóttir, f. 1954, d.2010, Hjálmar Benediktsson, f.1955, d. 2023, Elías Benediktsson, f. júlí 1921, d. 1970, Sigríður Benediktsdóttir, f. 1922, d. 2021, Guðjón Benediktsson, f. 1924, d. 1987, Elínborg Benediktsdóttir, f. 1925, d. 2019, Arnfríður Kristbjörg Benediktsdóttir, f. 1926, d. 2007, Ingigerður Benediktsdóttir, f. 1927, d. 2020, Halldóra Álfheiður Benediktsdóttir, f. 1928, d. 1929, Halldóra Svava Benediktsdóttir Clausen, f. 1930, d. 2007, Guðfinnur Áskell Benediktsson, f. 1932, d. 2021.

Björgvin og Rósa giftu sig 26. desember 1970. Rósa átti fyrir dótturina Fríðu Björk, fædda 1969, en saman eignuðust þau fjóra syni: Ómar Freyr, fæddan 1973, dáinn 2001, Róbert Þór, fæddan 1973, Ólaf Ægi, fæddan 1974, og Björgvin Hrannar, fæddan 1986.

Fríða Björk er gift Svani Frey Jóhannssyni og eiga þau saman þrjú börn; Halldóru, f.1999, Rebekku, f. 2000, og Ísak Mána, f. 2005, en fyrir átti Fríða Andreu, f. 1989, og Rósu, f. 1993.

Róbert Þór á þrjú börn: Mikael, f. 1998, Ómar Frey, f. 2001, og Róbert Breka, f. 2014.

Ólafur Ægir er kvæntur Önnu Lovísu Jónsdóttur. Dóttir Ólafs er Erna Ólöf, f. 2000.

Björgvin Hrannar er kvæntur Hrefnu Hafdal Sigurðardóttur og eiga þau saman fimm börn:

Heiðrúnu, f. 2006, Helenu, f. 2006, Bjarka, f. 2018, Breka, f. 2020, og Baldur, f. 2023.

Útför þeirra fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 9. september 2024, klukkan 13. Hlekkur á streymi er á:
www.mbl.is/andlat

Elsku amma og afi, sorgin og söknuðurinn er mikill. Við þökkum ykkur fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum með ykkur. Æska okkar er rík af minningum úr útilegum í húsbílnum, sundferðum og í fjörunni við húsið ykkar að tína skeljar og kuðunga.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma til ykkar á Þorláksmessu, þar sem afi útbjó skötu og saltfisk og amma sá um að elda hinn hefðbundna möndlugraut. Eins þegar þið komuð til okkar á jóladag og borðuðuð með okkur og tókuð þátt í árlega jólapakkaleiknum.

Það var alltaf gaman að heimsækja ömmu og afa. Amma átti óendanlegt magn af sögum að segja. Hún var einstaklega minnug og gat rifjað upp minningar úr sinni eigin æsku sem og okkar. Við gátum setið tímunum saman og hlustað á hana segja frá og aldrei var þögn þegar hún sat í sófanum með prjónana.

Amma og afi voru hörkudugleg og vinnusöm. Á okkar yngri árum höfðum við systurnar auga á beitustígvélunum hennar ömmu og höfðum miklar áhyggjur af því hvor okkar fengu stígvélin þegar hún væri hætt að nota þau. Við áttum ófá rifrildin um þau, ömmu til mikillar undrunar.

Afi var skemmtilegur og stríðinn við okkur krakkana. Hann laumaði alltaf sykurmolum til okkar þegar foreldrar okkar sáu ekki til. Afi var mikill dýravinur, hann hafði mikla ástríðu fyrir því hvað væri í matinn fyrir Patton, köttinn þeirra, sem fékk daglega heita máltíð af lúxusgerð og var hann þyngri en þekkist.

Sú saga sem hefur alltaf vakið mikinn hlátur í gegnum árin var þegar við seldum afa svefnsófa af haugunum og eftir mikið basl og bras sá afi að þetta höfðu ekki verið góð viðskipti. Það mætti segja að það hafi verið ástæða fyrir því að hann hafi verið á haugunum, hann var handónýtur. Þá var afi fljótur að hóta okkur lögsókn, í góðu gríni.

Einn daginn tókum við krakkarnir upp á því að semja hádramatískt ástarlag um erfitt hjónaband og fluttum það stolt fyrir framan ömmu. Þá átti hún í mestum vandræðum með að halda hlátrinum niðri. Hún geymdi textann í mörg ár með þann ásetning að lesa hann í brúðkaupinu okkar, okkur til mikils ama.

Við gáfum ömmu viðurnefnið „ríka amma“ því hún var alltaf svo dugleg að stinga að okkur nokkrum seðlum þegar við heimsóttum hana. Amma var einstaklega handlagin og prjónaði alltaf svo fallegar flíkur á okkur barnabörnin, barnabarnabörnin og meira að segja dúkkurnar þeirra.

Elsku amma og afi, við erum þakklát þeim tíma sem við höfum eytt með ykkur og jafnframt þakklát að börnin okkar fengu að kynnast ykkur. Við munum alltaf geyma ykkur í hjörtum okkar og halda minningu ykkar á lífi.

Ykkar barnabörn,

Andrea Björk, Rósa Margrét, Halldóra Marín, Rebekka Rut og Ísak Máni.

Elsku systir mín og mágur, Rósa og Björgvin.

Skyndilegur dauði ykkar varð mér mikið áfall. Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að hitta ykkur í sumar og átt með ykkur yndislega samverustund. Söknuður og tómarúm verður í lífi okkar allra en minningin um yndisleg hjón lifir í hjörtum okkar.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kölluð á
örskammri stundu,

í huganum hrannast upp
sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisin, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Þín systir,

Helga.

Þegar Rósa og Björgvin fluttu á Þórshöfn fór Rósa að beita og Björgvin að róa. Sett voru ný viðmið í beitningu á staðnum þegar Rósa mætti. Samhliða því sá hún um fimm börn með hádegismat og öllu öðru sem fylgdi stóru heimili. Rósa sagði mér oft sögur af því að karlarnir sem voru að beita með henni væru einhverjir frekar fúlir yfir því að þessi kona kæmi og rústaði þeim í keppninni í beituskúrnum. Þetta er lýsandi dæmi um dugnaðinn sem Rósa hafði allt sitt líf.

Þegar ég fór að venja komur mínar á heimili þeirra 17 ára þá reyndi ég að komast óséður út. En Rósa náði að sjá mig, bauð kaffi og fór að spjalla. Það var strax eins og við hefðum þekkst alla ævi og við ræddum um alla mögulega hluti. Oft var setið við eldhúsborðið og við töluðum saman. Ég var feginn að Björgvin var á sjó því ég var hálfhræddur við hann, en það átti eftir að breytast.

Að tala við Rósu og kynnast henni var mikils virði. Hún hafði öðruvísi skoðanir á fólki en ég hafði oft kynnst. Rósa gat fundið gott í öllu fólki og sérstaklega fólki sem aðrir gerðu lítið úr. Hún var einlæg og fann góðu hliðarnar hjá fólki.

Ég kynntist Björgvini betur þegar þau fóru að koma til okkar Fríðu fyrir sunnan. Þá var þessi maður, sem ég var smá hræddur við áður, þvílíkur ljúflingur og skemmtilegur. Seinna bauð Björgvin mér að koma með sér á grásleppuvertíð.

Björgvin var hörku duglegur sjómaður og gerði út nokkra báta. Miðin við Langanes þekkti hann greinilega vel. Við bjuggum hjá þeim á Norðfirði í nokkrar vikur þar sem við gerðum netin klár í Landalæk. Svo sigldum við á Þórshöfn og rerum frá Þórshöfn og Bakkafirði. Á meðan við vorum á sjó sá Rósa um að verka hrognin frá okkur og tveimur öðrum bátum. Þarna bjuggum við saman í íbúð á Þórshöfn í tvo mánuði og þá kynntist ég þeim vel í landi og á sjó. Ég hef alltaf hugsað hlýlega til þessa tíma og þótt vænt um að hafa farið á þessa grásleppuvertíð við Langanes og vil þakka fyrir þennan dýrmæta tíma.

Í seinni tíð hef ég alltaf hitt þau reglulega, enda afi og amma minna barna og sambandið gott. Þótt tími líði á milli þá hittirðu alltaf vini sem taka upp þráðinn frá því síðast. Þegar ég eignaðist barn með minni konu þá sendi Rósa vettlinga og sokka sem hún hafði prjónað á dóttur okkar og það sýnir hvað hún hafði fallega hugsun til allra.

Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessu yndislega fólki sem alltaf var gott og almennilegt við mig. Minningarnar eru hlýjar en sorgin mikil.

Elsku Fríða mín, Róbert, Óli, Björgvin Hrannar, Andrea, Rósa og fjölskyldur, ykkur og öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur.

Rósa og Björgvin, megið þið hvíla í friði.

Óli Pétur.