Þýsk yfirvöld segjast hætt að veita kolefnisheimildir sem samsvara 215.000 tonnum af koltvísýringslosun til nokkurra olíufyrirtækja vegna gruns um svikamyllu tengda loftslagsverkefnum í Kína. Stjórnvöld í Þýskalandi hafa hafið rannsóknir á…

Þýsk yfirvöld segjast hætt að veita kolefnisheimildir sem samsvara 215.000 tonnum af koltvísýringslosun til nokkurra olíufyrirtækja vegna gruns um svikamyllu tengda loftslagsverkefnum í Kína.

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa hafið rannsóknir á fyrirtækjunum í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla þar sem grunur hefur vaknað um að ekki sé allt með felldu í meintum kolefnisminnkandi verkefnum í Kína.

Verkefnin voru ætluð til þess að hjálpa fyrirtækjunum að ná losunarmarkmiðum Evrópusambandsins, þar sem gerð er krafa um að þau framleiði umhverfisvænna eldsneyti. Yfirleitt ná fyrirtæki markmiðunum með notkun lífræns eldsneytis eða með því að styðja við frumkvæði sem draga úr losun við olíuframleiðslu.

40 verkefni til rannsóknar

Komið hefur á daginn að sum verkefnin voru aldrei til en í öðrum tilfellum reyndust tölurnar sem fyrirtækin gáfu upp um kolefnisminnkun ekki réttar. Segir í athugun þýsku umhverfisstofnunarinnar UBA að í sjö tilfellum hafi verið „alvarlegt lagalegt og tæknilegt ósamræmi“ í þeim upplýsingum sem fyrirtækin gáfu upp. Í einu tilfelli hafi fyrirtæki sömuleiðis gefið upp rangar upplýsingar um hvenær loftslagsverkefnið gæti hafist.

Með því að fegra tölurnar er talið að fyrirtækin hafi komið sér undan sektum upp á allt að 4,5 milljarða evra eða tæpa 690 milljarða króna.

Í júlí á þessu ári réðust saksóknarar í Berlín í rannsókn á skrifstofum umhverfiseftirlitsaðila sem kunna að vera meðsekir í málinu.

Nöfn fyrirtækjanna sem um ræðir hafa ekki verið opinberuð en fyrir liggur að af 69 verkefnum eru 40 til rannsóknar hjá UBA og sterkur grunur um svik í 21 verkefnanna. Aðstandendur aðeins fimm verkefna sem liggja undir grun hafa veitt stofnuninni samþykki til að framkvæma vettvangsathugun.

Fjárhagsleg áhrif uppljóstrunarinnar eru enn óljós en sérfræðingar telja að eldsneytisverð neytenda geti hækkað í kjölfarið. Samkvæmt Reuters er sömuleiðis talið að kolefnisheimildirnar, sem hafa verið við lýði síðan 2018 og verið umdeildar jafn lengi, verði afnumdar í áföngum fram til ársins 2025.