Haust Viðvaranir vegna veðurs gilda allt fram á þriðjudagskvöld.
Haust Viðvaranir vegna veðurs gilda allt fram á þriðjudagskvöld. — Kort/Veðurstofa Íslands
Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi að Glettingi, Ströndum og á miðhálendinu. Kristín Hermannsdóttir, fagstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, segir að óveðrið muni vara með einhverjum hætti fram að næstu helgi

Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi að Glettingi, Ströndum og á miðhálendinu.

Kristín Hermannsdóttir, fagstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, segir að óveðrið muni vara með einhverjum hætti fram að næstu helgi.

„Haustið er bara komið,“ segir Kristín. „Það er óvenjukalt loft að koma til okkar og óvenjumikil úrkoma úr leið,“ segir hún og bætir því við að síðan muni úrkoman aukast og loftið kólna enn frekar á svæðunum sem um ræðir.

Varað við ferðalögum

Spáð er miklum vindi og snjókomu á fjallvegum á Norðvesturlandi, Norðurlandi, Norðausturlandi og hálendinu sem mun skapa mjög krefjandi aðstæður.

Varað er við ferðalögum á miðhálendinu sökum snjókomu, skafrennings og lélegs skyggnis. Kristín segir að eitthvað komi til með að lægja á miðvikudaginn en einkum á Norðurlandi eystra haldi óveðrið áfram fram að næstu helgi. Annars staðar á landinu verði þurrt og bjart en nokkuð kalt.

Upplýsa og undirbúa fólk

Ferðamálastofa vekur athygli á mögulegri áhættu og nauðsyn varúðar. Allir sem eru í samskiptum við ferðamenn eru hvattir til að upplýsa og búa þá undir erfið veðurskilyrði. Ráðleggja eigi að forðast ferðalög á fjallvegum og hvetja til að fylgjast með vef Vegagerðarinnar og nýjustu veðurspám. Ganga eigi úr skugga um að fólk hafi meðferðis mat, vatn og hlý föt og bjóða aðstoð við að skipuleggja öruggari ferðaleiðir.