Hægt hefur á sölu rafbíla í Evrópu.
Hægt hefur á sölu rafbíla í Evrópu.
Luca de Meo, forstjóri Renault, varar við því að evrópskir bílaframleiðendur gætu fengið á sig allt að 15 milljarða evra sekt ef sala rafbíla tekur ekki að glæðast. Þessi ummæli lét hann falla á laugardag í viðtali hjá útvarpsstöðinni France Inter…

Luca de Meo, forstjóri Renault, varar við því að evrópskir bílaframleiðendur gætu fengið á sig allt að 15 milljarða evra sekt ef sala rafbíla tekur ekki að glæðast.

Þessi ummæli lét hann falla á laugardag í viðtali hjá útvarpsstöðinni France Inter en Evrópureglur leggja þær skyldur á herðar bílaframleiðenda að frá og með næsta ári losi nýir bílar að meðaltali aðeins 96 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra. Fyrir þetta ár er viðmiðið hins vegar 116 grömm á hvern kílómetra og því um liðlega 17% útblástursminnkun að ræða. Fyrir hvert gramm koltvísýrings umfram leyfilegt meðaltal verða framleiðendur að greiða 95 evra sekt fyrir hvern seldan bíl.

Hægt hefur á sölu rafbíla að undanförnu og gerir það framleiðendum erfitt fyrir að halda útblástursmeðaltalinu nógu lágu til að brjóta ekki útblástursreglur ESB.

De Meo, sem einnig leiðir Samtök evrópskra bílaframleiðenda (ACEA) segir að sala rafbíla þyrfti að vera tvöfalt meiri en hún er í dag til að geta fullnægt kröfum ESB. Önnur leið til að komast hjá sektunum – sem gætu numið hundruðum milljóna evra fyrir stærstu félögin á markaðinum – væri að framleiða færri bensínbíla en eftirspurn er eftir og þannig bæta útblástursmeðaltalið.

Vilja framleiðendur að Evrópusambandið veiti þeim einhvers konar tilslökun með hraði, ella stefni í mikið óefni fyrir greinina. ai@mbl.is