Björn Gíslason
Björn Gíslason
Það er furðuleg afstaða að halda að þær þúsundir höfuðborgarbúa sem daglega bíða í löngum bílaröðum á Reykjanesbrautinni bíði einnig með öndina í hálsinum eftir brúnni yfir í Kársnesið.

Björn Gíslason

Samgöngusáttmálinn sem upphaflega var undirritaður fyrir fimm árum hefur nú loksins verið uppfærður. Þegar uppfærsluákvæði hans var virkjað vorið 2023 var gert ráð fyrir að uppfærsla hans tæki einn og hálfan mánuð og lyki fyrir þingrof. En hún tók 18 mánuði. Það er líklega álíka vanefnd og seinkun og við sjáum í framkvæmdaáætlun upphaflega sáttmálans.

Þegar frá eru taldir þrír verkþættir sem voru upphaflega á vegaáætlun ríkisins og sem Vegagerðin hafði hannað og síðan framkvæmt snerist framkvæmdaáætlun sáttmálans frá 2019 um átta meginframkvæmdir við stofnbrautir og sex um borgarlínu, að viðbættri snjallljósavæðingu, hjólastígum og göngustígum.

Nú, fimm árum eftir undirritun upphaflega sáttmálans, átti helmingur þessara stofnbrautarframkvæmda að vera kominn í gagnið og helmingur borgarlínuverkþáttanna. Það er hins vegar víðs fjarri.

Af þessum fjórtán verkþáttum hefur einungis verið hafist handa við einn þeirra og honum er langt því frá lokið. Ekki eru hafnar framkvæmdir við neinn af hinum þrettán verkþáttunum.

Það er því ekki nógu djúpt í árinni tekið að segja að þessi framkvæmdaáætlun hafi farið í handaskolum. Hún hefur líklega aldrei verið nein framkvæmdaáætlun. Aldrei annað en draumórar og innantóm óskhyggja, ofhlaðin lýsingarorðum sem einkum eru ætluð í sjálfshól þeirra stjórnmálamanna sem að sáttmálanum stóðu. Svona vinnubrögð eru hins vegar engum til sóma.

Með uppfærslu sáttmálans er gatnamótum við Sæbraut breytt í Sæbrautarstokk og Miklubrautarstokk breytt í lengri undirgöng. Hvor tveggju eru mun veigameiri og kostnaðarsamari framkvæmdir. En að öðru leyti eru stórir verkþættir þeir sömu og áður og því óskiljanlegt hvers vegna uppfærslan tók 18 mánuði.

Umferðaröngþveitið nær neyðarástandi

Aðrar meginbreytingar á sáttmálanum felast í nýrri forgangsröðun, breyttri kostnaðaráætlun og lengingu á framkvæmdatímanum.

Hin nýja forgangsröðun bendir eindregið til þess að ráðamenn ætli raunverulega að horfa upp á umferðaröngþveitið á höfuðborgarsvæðinu ná fullkomnu neyðarástandi án þess að hreyfa litla fingur.

Tökum dæmi. Gatnamótin við Bústaðaveg-Reykjanesbraut eru langmikilvægasti framkvæmdaþáttur sáttmálans til að draga úr bráðavanda og umferðartöfum. Hann er jafnframt arðbærastur með hliðsjón af hlutfallslega lágum tilkostnaði. Ráðgert er að kostnaður við þessi gatnamót verði u.þ.b. 2,5 milljarðar eða u.þ.b. 0,8% af heildarfjárfestingu uppfærðs sáttmála.

Samkvæmt upphaflega sáttmálanum átti að ljúka við þessi gatnamót árið 2021. Borgarstjórnarmeirihlutinn kom í veg fyrir það og nú hefur þeim verkþætti verið seinkað til 2030.

Á meðan sitja tugir þúsunda íbúa úr Breiðholti, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði fastir í umferðinni á Reykjanesbrautinni í um það bil hálftíma til þrjú korter á hverjum degi á heimleið úr vinnu. En framkvæmd þessi myndi gera Reykjanesbrautina ljósalausa frá Kaplakrika í Hafnarfirði að Miklubraut.

Á sama tíma hefur göngu- og hjólabrú yfir Fossvoginn, sem nánast ekkert fór fyrir í upphaflega sáttmálanum, verið sett í algjöran forgang og á að vera fullbúin árið 2027.

Hún átti upphaflega að kosta 2,1 milljarð en er nú komin í 9 milljarða og hækkar enn. Það er furðuleg afstaða að halda að þær þúsundir höfuðborgarbúa sem daglega bíða í löngum bílaröðum á Reykjanesbrautinni bíði einnig með öndina í hálsinum eftir brúnni yfir í Kársnesið.

Úrelt umferðarljós

Annar afar arðbær verkþáttur sem jafnframt hefur hlutfallslega lágan tilkostnað er snjallljósavæðing höfuðborgarsvæðisins. Hún myndi auka umferðarflæði verulega, auka umferðaröryggi, veita Strætó og viðbragðsaðilum forgang og verða mikilvægur gagnagrunnur við alla umferðargreiningu. Þessi verkþáttur var settur í algjöran forgang í upphaflega sáttmálanum en nú hefur verið hætt við slíkt átak.

Þess í stað koma jafnar, lágar greiðslur til umferðarstýringar sem jafnast út á tíma sáttmálans til ársins 2040. Aðgerð sem hægt væri að framkvæma í einum grænum, enda þarfnast hún engra skipulagsbreytinga. Þá er ljóst að tækninni fleygir fram og þess má vænta að þegar uppfærslu kerfisins verður loks lokið árið 2040 verði komin ný tækni og þessi úrelt.

Það er því augljóst að þessum sáttmála er ekki ætlað að draga sem fyrst úr umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu þó að þær séu nú að nálgast þolmörk.

Ekki pappírsins virði

Upphaflegi sáttmálinn var ekki pappírsins virði þegar kemur að raunsæjum kostnaðar- og framkvæmdaáætlunum. En þrátt fyrir botnlaust óraunsæið sýndi hann þó viljann fyrir verkið. Hann var þó að hluta til draumur um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi uppfærsla á sáttmálanum er að því leytinu til mun verri, að hún afneitar augljóslega því mikilvæga markmiði, að draga sem mest og sem fyrst úr þeim gífurlega kostnaði sem einstaklingar og samfélag þurfa að greiða fyrir 12 ára vanrækslu á umferðarmannvirkjum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Björn Gíslason