Grindavík Jarðhræringarnar hafa haft mikil áhrif á greiðslugetu NTÍ.
Grindavík Jarðhræringarnar hafa haft mikil áhrif á greiðslugetu NTÍ. — Morgunblaðið/Eggert
Lagt er til að Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) verði á næsta ári heimilað að innheimta hærra álag á iðgjöld sem renna til stofnunarinnar. Þetta kemur fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs

Lagt er til að Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) verði á næsta ári heimilað að innheimta hærra álag á iðgjöld sem renna til stofnunarinnar. Þetta kemur fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs.

Frumvarpið var lagt fram samhliða fjárlagafrumvarpinu. Í mati á áhrifum af hækkuninni kemur fram að hækkun iðgjalda Náttúruhamfaratryggingar Íslands samkvæmt þeirri heimild sem lögð er til í frumvarpinu muni auka tekjur stofnunarinnar um 2,7 milljarða kr.

„Áætlað er að tekjur Náttúruhamfaratryggingar Íslands árið 2025 verði 2,7 milljörðum kr. meiri nýti stofnunin sér þá heimild sem felst í frumvarpinu. Áætlað er að þar af séu 1,4 milljarðar kr. vegna iðgjalda einstaklinga og 1,3 milljarðar kr. vegna iðgjalda lögaðila og opinberra aðila,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Bent er á að að með þessu minnki líkur á að greiðslugeta NTÍ reynist ófullnægjandi komi á ný til náttúruhamfara sem valda svipuðu eða jafnvel meira tjóni en jarðhræringarnar við Grindavík. Breytingin styrki viðnámsþrótt hins opinbera og þjóðarbúsins í heild, gagnvart náttúruhamförum.

Gert er ráð fyrir að ef NTÍ nýtir þessa heimild til hækkunar á þeim hluta iðgjalda sem renna til hennar megi gera ráð fyrir því, sem dæmi, að gjaldið fyrir íbúð sem er vátryggð fyrir 100 milljónir kr. hækki úr 25.000 kr. á ári í 37.500 kr. á ári. omfr@mbl.is

Neikvæð áhrif á gjaldþol

Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa haft neikvæð áhrif á gjaldþol Náttúruhamfaratryggingar Íslands

Að mati NTÍ er hækkun iðgjalda nauðsynleg til að tryggja að tekjur stofnunarinnar haldi í við gjöld

Eigið fé NTÍ hefur dregist saman og greiðslugetan versnað