Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að veita Ölgerðinni vilyrði fyrir lóð á athafnasvæðinu á Hólmsheiði með fyrirvara um gerð nýs deiliskipulags fyrir lóðina. Stærð hennar verður ákveðin í skipulaginu

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að veita Ölgerðinni vilyrði fyrir lóð á athafnasvæðinu á Hólmsheiði með fyrirvara um gerð nýs deiliskipulags fyrir lóðina. Stærð hennar verður ákveðin í skipulaginu.

Fram kemur í gögnum sem lögð voru fyrir borgarráð að Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. hafi óskað eftir því að fá vilyrði fyrir lóð á svæðinu en félagið hyggst reisa þar húsnæði vegna starfsemi sinnar.

Í lóðarvilyrðinu kemur fram að athafnasvæðið sé í nágrenni við vatnsból og gera þurfi sérstakar kröfur í deiliskipulagi um að fyrirhuguð uppbygging og framkvæmdir feli ekki í sér mögulega mengunarhættu gagnvart nærliggjandi vatnsbólum.

Verðmat fasteignasala

Félagið mun greiða fyrir byggingarréttinn kr. 28.705 kr. fyrir hvern heimilaðan fermetra af atvinnuhúsnæði ofanjarðar. Verð á byggingarréttinum byggist á meðaltali verðmats tveggja fasteignasala.

Gatnagerðargjöld greiðast í samræmi við gildandi samþykkt um slíkt gjald hjá Reykjavíkurborg.

Hafi nýtt deiliskipulag tekið gildi innan tveggja ára frá samþykkt vilyrðisins í borgarráði skal félagið greiða fjárhæð sem samsvarar 10% af upphæð greiðslu félagsins fyrir byggingarréttinn.

Reykjavíkurborg er að þróa nýtt athafnasvæði á Hólmsheiði við Suðurlandsveg, austan Rauðavatns.

Svæðið er 87 hektarar en verður gert byggingarhæft í áföngum. Í aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem athafnasvæði undir landfreka starfsemi svo sem léttan iðnað, gagnaver, matvælaiðnað, vörugeymslur og umboðsverslanir og aðra umhverfisvæna iðnaðarstarfsemi. Búið er að úthluta nokkrum lóðum á þessu svæði nú þegar.

Seinni hluta árs 2022 auglýsti Reykjavíkurborg eftir fyrirtækjum sem væru áhugasöm um að staðsetja sig á Hólmsheiði. Alls bárust 56 erindi frá ýmsum fyrirtækjum sem lýstu áhuga sínum, svo áhuginn reyndist verulegur.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson