Spurt um z Morgunblaðið spurði nokkur ungmenni um álit þeirra á afnámi setunnar í september 1973.
Spurt um z Morgunblaðið spurði nokkur ungmenni um álit þeirra á afnámi setunnar í september 1973.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1973 Ekki skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (d, ð, t) + s, þar sem tannhljóðið er fallið brott í eðlilegum framburði Auglýsing um afnám z

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Aðalfréttin á baksíðu Morgunblaðsins 5. september 1973 bar fyrirsögnina: Z numin úr ritmáli
Nú hefur stafsetningin breyst en ekki breytzt.

Síðan segir að bókstafurinn z hafi verið afnuminn úr íslenskri stafsetningu en greinilegt er að ritstjórn blaðsins hefur ekki tekið þær reglur til sín og í fréttinni er setan notuð óspart:

„Menntamálaráðuneytið hefur fallizt á tillögur nefndar, sem endurskoða á reglur um stafsetningu og greinarmerkjasetningu þess efnis að „seta“ verði felld niður úr íslenzku ritmáli. Reglur um þetta eru auglýstar í dag og öðlast þegar gildi. „Setan“ hefur verið í gildi frá því í febrúarmánuði 1929,“ hefst fréttin.

Í auglýsingu frá menntamálaráðuneytinu um afnám z, sem birt er í blaðinu, segir m.a. að nýjar reglur skuli gilda um stafsetningarkennslu í skólum, um kennslubækur útgefnar eða styrktar af ríkisfé, svo og um embættisgögn sem út eru gefin. Meginreglan sé að ekki skuli rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (d, ð, t) + s, þar sem tannhljóðið væri fallið brott í eðlilegum framburði. Ýmsar afleiddar reglur fylgdu, svo sem að ef stafurinn t hefði verið framan við z þá félli hann brott og orð eins og stytzt, hitzt og flutzt skyldu skrifuð styst, hist og flust.

Linka og vesaldómur

Í blaðinu er rætt við Magnús Torfa Ólafsson, sem þá var menntamálaráðherra, Halldór Halldórsson, formann nefndarinnar sem endurskoðaði stafsetninguna, og nokkra íslenskukennara um málið og sýndist sitt hverjum. Halldór segir m.a. að samkomulag hafi orðið í meginatriðum um brottfall setunnar. Hann bendir á að þessi breyting nái aðeins til kennslu í skólum, til kennslubóka útgefinna eða styrktra af ríkisfé, svo sem til embættisgagna sem út væru gefin. Reglugerðin nái hins vegar ekki til embættisbréfa og bóka sem ríkið gefur út nema til kennslubóka. „Vildi ráðherra ekki láta þetta ganga lengra, t.d. vildi hann ekki þvinga rithöfund, sem Menningarsjóður gæfi út eftir, að skrifa setulaust, ef hann vildi skrifa setu. Því eru menn frjálsir að því að skrifa setu í langsamlegast flestum tilvikum.“ Halldór sagði að það myndi taka eina kynslóð áður en nýju reglurnar yrðu ríkjandi.

Baldur Jónsson lektor segir við blaðið að tilefnið til þess að stafsetningunni sé breytt sé að hans hyggju illa ættað. „Það hafa engar breytingar orðið á máli, sem kalla á breytingu á starfsetningu. Tilefnið er einfaldlega það, að fólk hefur gefizt upp. Það er þessi linka og vesaldómur, sem mér finnst afskaplega lítilfjörlegt tilefni til að breyta menningaratriði eins og stafsetningu.“

Morgunblaðið hélt áfram að fjalla um afnám setunnar daginn eftir og ræðir meðal annars við nokkra nemendur um brottfall bókstafsins. Flestir eru þeir frelsinu fegnir og telja óþarfa að nota z þegar annar stafur sé til fyrir sama hljóðið. Jóhanna Jónsdóttir, sem tók landspróf frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar um vorið, segist halda að hún hafi bætt við átta aukasetum á prófinu um vorið, en það átti aðeins að vera ein z í öllu prófinu. „Ég tók vel eftir því í vor að krakkarnir virtust hafa mestar áhyggjur af z fyrir stafsetningarprófið,“ segir hún.

En Friðrik Sigurbergsson, nemi í MH, segist vera mjög mikið á móti breytingunni. „Ég á satt að segja erfitt með að skilja það að z skyldi felld úr ritmálinu þar sem z-reglurnar eru auðveldastar af öllum stafsetningarreglum í íslenzku. Það er alveg hlálegt að fólk skuli vera að gráta út af z.“ Hann bætir við að ef skólinn krefjist þess að nemendur skrifi s í staðinn fyrir z verði hann auðvitað að tileinka sér þær reglur, „en utan skólans ætla ég að skrifa z fram í rauðan dauðann.“

Stafur gerður útlægur

Í blaðinu er einnig frétt með fyrirsögninni: Z-liðið í vandræðum og er ekki laust við að hún sé skrifuð í hálfkæringi.

„Hvernig skyldi það vera að vakna upp við það, að einn bókstafurinn í nafni manns hefur verið gerður útlægur í íslenzku ritmáli? Sennilega hafa einhverjir hrokkið upp með andfælum en aðrir taka tíðindunum með jafnaðargeði. Geir Zoëga, ferðamálaskrifstofustjóri, talar vafalaust fyrir hönd margra Z-manna: „Hjá mér breytir afnámið engu – til eða frá, því ég ætla að halda áfram að prýða nafnið mitt með Z. Satt að segja finnst mér þessi nýja reglugerð hálfgerður hégómi og yfirleitt ætla ég að halda áfram að nota Z hvað sem Magnús Torfi segir,“ segir Geir.

Ekki eru allir eins vel staddir og Geir Zoëga. Í nýju reglunum segir að Z skuli afnumin í opinberum gögnum en svo vill til að hjá ríkinu eða á vegum þess starfar fjöldinn allur af Z-mönnum. Hvernig skyldu þeir fara að við undirritun opinberra skjala eða gagna? Morgunblaðið gerði heiðarlega tilraun til að forvitnast um viðbrögð viðkomandi Z-manna, en svo einkennilega vildi til að enginn þessara manna var til viðtals.

Pétur Eggerz, sendiherra, Klemenz Tryggvason, hagstofustjóri, Jónas Haralz, Landsbankastjóri, og Zophaníus Pálsson, skipulagsstjóri ríkisins, voru allir erlendis. Það var engu líkara en allir þessir kunnu embættismenn hefðu vitað hvað í vændum var,“ segir í fréttinni.

Síðan segir að margir spyrji hvernig fari t.d. með bíla og dráttarvélar bænda í Skaftafellssýslum, sem séu einmitt merktar með einkennisstafnum Z. „Verða Skaftfellingar ekki að fá nýjan einkennisstaf? Við bárum þetta undir forstöðumann Bifreiðaeftirlits ríkisins. „Já það er nú það,“ svaraði hann, „eiginlega finnst mér þetta meiri höfuðverkur ráðuneytisins en okkar, og ég býst við að hér verði haldið áfram að skrá Z á bíla Skaftfellinga, þar til við fáum fyrirmæli um annað.“

Þess má geta að bílnúmerakerfinu var breytt með lögum árið 1988 þannig að bílar fengu fastanúmer með bókstöfum og tölustöfum eins og enn er við lýði. Í kjölfarið hurfu gömlu bílnúmerin smátt og smátt þegar bílar sem þau báru voru teknir úr umferð og þá var þetta vandamál úr sögunni.

Þrjár tillögur um z

En deilum um setuna var langt frá því lokið. Þannig lögðu þingmennirnir Sverrir Hermannsson, Helgi Seljan, Ellert B. Schram og Bjarni Guðnason fram þingsályktunartillögu á Alþingi í nóvember 1973 um að hrundið skyldi þeirri ákvörðun að fella z niður. Greinargerðin með tillögunni var stutt og laggóð: „Ákvörðunin um að fella z niður í ritmáli er undanhald. Öllu undanhaldi er varðar íslenzkt mál, talað eða ritað, ber þegar í stað að snúa í sókn.“

Tillagan var árið eftir samþykkt í sameinuðu þingi með 28 atkvæðum gegn 27 og vísað til ríkisstjórnarinnar en engar breytingar voru gerðar á stafsetningarreglunum. Sverrir gerði aðra tilraun árið 1975 og lagði fram ásamt fleiri þingmönnum þingsályktun um að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa löggjöf um stafsetningu. Þar til slík lög hefðu verið sett skyldi fylgja þeirri stafsetningu sem í gildi var áður henni var breytt 1973 og 1974. Segir m.a. í greinargerð að viljayfirlýsing Alþingis um að hrinda reglugerð um z hafi verið að engu höfð. Þvert á móti hafi 1974 verið auglýstar nýjar og furðulegar reglur um stóran og lítinn staf. Sameinað þing samþykkti fyrri hluta tillögunnar með 33 atkvæðum gegn 6 en ekki síðari lið hennar um að eldri reglur ættu að gilda fram að lagasetningu.

Sverrir lagði árið 1977 fram þriðju tillöguna „um íslenzka stafsetningu“ ásamt 10 þingmönnum öðrum. Var tillagan í greinargerð sögð málamiðlun en þar var lagt til að gömlu reglurnar frá 1929 yrðu teknar upp að nýju en þó aðeins slakað á kröfum um setuna. Þá tillögu dagaði uppi við þinglok árið eftir.

Setan var víða notuð áfram næstu árin, þ. á m. í dagblöðum, einna lengst í Morgunblaðinu en þar var blaðamönnum í sjálfsvald sett hvort þeir skrifuðu z. Nokkrir blaðamenn héldu því áfram allt fram á þessa öld en nú er setan horfin af síðum blaðsins – nema í þessari grein!

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson