50 ára Björn Þór er Akureyringur og ólst upp bæði í Þorpinu og á Brekkunni. „Ég er alinn upp sem grjótharður Þórsari en sökum fjölskyldutengsla í KA er ég orðinn dálítill KA-maður í mér.“ Björn Þór og fjölskylda búa núna í Lundarhverfi

50 ára Björn Þór er Akureyringur og ólst upp bæði í Þorpinu og á Brekkunni. „Ég er alinn upp sem grjótharður Þórsari en sökum fjölskyldutengsla í KA er ég orðinn dálítill KA-maður í mér.“ Björn Þór og fjölskylda búa núna í Lundarhverfi.

Björn Þór lauk meistaranámi í húsasmíði við Tækniskólann í Reykjavík árið 2008. „Ég villtist suður í ansi mörg ár, alveg frá 1992 til 2011. Svo var ég í Noregi, á Stavanger-svæðinu 2011-2014 og flutti svo aftur til Akureyrar endanlega 2014.“ Hann stofnaði síðan árið 2016 byggingafyrirtækið BF byggingar ásamt Frey Aðalgeirssyni og eiga þeir hvor sinn helminginn í því. „Við höfum verið nánast eingöngu í því að byggja og selja fasteignir, fjölbýlishús og raðhús á Akureyri.“

Björn Þór er frímúrari og er í Golfklúbbi Akureyrar, en hann er mikill áhugamaður um golf, hjólreiðar og skíði. „Ég stunda þetta þrennt töluvert mikið og fer nánast árlega bæði í golfferðir og skíðaferðir. Svo hef ég líka verið í skotveiði og stangveiði um margra ára bil. Fnjóská er í pínu uppáhaldi þótt ég veiði aldrei rosamikið í henni, en ég fer þangað á hverju ári í ansi skemmtilegum félagsskap. Svo eru Rangárnar alltaf hugljúfar sökum magns af fiski.“


Fjölskylda Eiginkona Björns Þórs er Halla Berglind Arnarsdóttir, f. 1975, hjúkrunarfræðingur við Sjúkrahúsið á Akureyri. Sonur þeirra er Baldvin Þór, f. 2015. Börn Björns Þórs eru Aníta Lind, f. 1996, dýralæknir, og Guðmundur Hreiðar, f. 1998, borstjóri. Börn Höllu eru Guðrún Karítas, f. 1996, skógarbaðastjóri, Kolbeinn Þór, f. 2003, stjóri með meiru, og Finnur Bessi, f. 2005, hamborgarakóngur Norðurlands. Foreldrar Björns Þórs: Guðmundur Sigurbjörnsson, f. 1954, húsasmíðameistari, búsettur á Akureyri, og Þórný Kristín Sigmundsdóttir, f. 1954, d. 2022, húsmóðir.