— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur flutt tillögu í borgarráði um aukið rekstrarframlag til Strætó vegna hækkunar kostnaðar fyrir aðkeyptan akstur. Kostnaður umfram áður samþykkta fjárhagsáætlun Strætó á árinu 2024 er áætlaður um 188 milljónir…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur flutt tillögu í borgarráði um aukið rekstrarframlag til Strætó vegna hækkunar kostnaðar fyrir aðkeyptan akstur.

Kostnaður umfram áður samþykkta fjárhagsáætlun Strætó á árinu 2024 er áætlaður um 188 milljónir króna og er hlutur Reykjavíkurborgar 62% eða 116 milljónir.

Tillagan er flutt með fyrirvara um að aðrir eigendur félagsins leggi fram viðbótarfjármagn í samræmi við eigendahlutfall sitt til jafns við Reykjavíkurborg. Tillögunni var vísað til afgreiðslu borgarstjórnar.

Fyrr á þessu ári samþykkti stjórn Strætó að ganga til samninga við Almenningsvagna-Kynnisferðir ehf. og Hagvagna ehf. að loknu útboði á hluta leiða. Þessi tvö fyrirtæki tóku þátt í því. Fram kemur í umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringasviðs Reykjavíkurborgar að í erindi Strætó bs., dags. 8. ágúst 2024, er þess farið á leit að eigendur, þ.e. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, samþykki viðbótarframlag vegna hækkunar kostnaðar við aðkeyptan akstur.

Samningar við verktaka um aðkeyptan akstur rann út 15. ágúst 2024 og var Strætó falið að bjóða út að nýju þann hluta sem þeir samningar ná til. Tvö fyrirtæki skiluðu tilboðum og var tilboðsverð hærra en fjárhagsáætlun ársins 2024 gerði ráð fyrir. Lokatilboðin voru þó um 1% undir kostnaðaráætlun.

Á eigendafundi Strætó 3. apríl 2024 var því beint til stjórnar Strætó bs. að óska eftir því við aðildarsveitarfélög að gerður yrði viðauki við fjárhagsáætlun þeirra árið 2024 til að fjármagna þann mismun sem var fyrirséður. Og á eigendafundi 1. júlí 2024 var því beint til stjórnar Strætó bs. að leita leiða til að lágmarka viðbótarfjármagnsþörf frá eigendum vegna ársins 2025 með því að skoða möguleika á m.a. hagræðingu og gjaldskrárbreytingum og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta fund eigenda.

Fyrir liggi að rekstur Strætó hefur verið þungur síðustu árin, einkum vegna taprekstrar á tímum covid. Eigið fé félagsins sé uppurið og var staða þess neikvæð um síðustu áramót. Sama staða er uppi við sex mánaða uppgjör 2024 þótt horfi til betri vegar.

Félagið hafi reglulega endurskoðað og hækkað gjaldskrár á síðustu tveimur árum en skv. upplýsingum frá félaginu telur stjórn þess ekki ráðlegt að fleyta ofangreindum kostnaðarhækkunum út í verðskrár að svo stöddu.

Vagnarnir að eldast

Stöðugt sé þó leitað leiða til hagræðingar og unnið að öðrum þáttum sem tengjast gjaldtöku fyrir þjónustuna, segir m.a. í umsögn sviðsstjórans.

Framkvæmdastjóri Strætó fór yfir minnisblað á stjórnarfundi í maí sl. Fjárhagsstaða Strætó er þung, vagnar eldast og rekstrarkostnaður þeirra hækkar. Vanfjármögnun Strætó í gegnum árin og bæting tekna vegna covid hafa dregið úr tækifærum Strætó til þjónustubóta og staðið í vegi fyrir eðlilegri endurnýjun vagnaflotans og orkuskiptum. Mikilvægt sé að sem fyrst verði fundin lausn á fjárhagsskipan Strætó.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson