Brúarstæðið Myndin er tekin frá Snekkjuvogi yfir að Tranavogi við hina nýju Vogabyggð. Starfsmenn Ístaks hófu á dögunum að vinna við undirstöður.
Brúarstæðið Myndin er tekin frá Snekkjuvogi yfir að Tranavogi við hina nýju Vogabyggð. Starfsmenn Ístaks hófu á dögunum að vinna við undirstöður. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafin er vinna við uppsetningu göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut. Helsta hlutverk hennar verður að tryggja gönguleið skólabarna í hinni nýju Vogabyggð til og frá Vogaskóla. Börnin þurfa að fara yfir mjög fjölfarna hraðbraut sem Sæbrautin er

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Hafin er vinna við uppsetningu göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut. Helsta hlutverk hennar verður að tryggja gönguleið skólabarna í hinni nýju Vogabyggð til og frá Vogaskóla.

Börnin þurfa að fara yfir mjög fjölfarna hraðbraut sem Sæbrautin er. Því hefur Reykjavíkurborg skipulagt skólaakstur undanfarna vetur og svo verður áfram þennan veturinn.

Skiltabrýr verða settar upp sitt hvorum megin við brúna til að koma í veg fyrir að há ökutæki rekist upp í hana. Eins og gefur að skilja gæti það haft mjög alvarlegar afleiðingar ef slíkt gerðist.

Vegagerðin stendur fyrir verkinu í samvinnu við Reykjavíkurborg. Brúin verður staðsett milli Tranavogs og Snekkjuvogs, um það bil miðja vegu milli gatnamóta Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar.

Verkið hefur tafist nokkuð vegna vandræða varðandi útboð. Þegar það var fyrst boðið út sumarið 2023 barst einungis eitt tilboð. Var það langt yfir kostnaðaráætlun og því var tilboðinu hafnað. Útboð númer tvö var fellt niður því ákveðið var að bæta inni í það árekstrarvörnum.

Tókst í þriðju tilraun

Það var loks í þriðju tilraun að Vegagerðin taldi sig fá viðunandi tilboð. Í lok júlí sl. var skrifað undir samning við Ístak um að vinna verkið. Samningsupphæðin var 290 milljónir króna. Þrjú tilboð bárust í verkið og var Ístak lægst. Kostnaðaráætlun var 218 milljónir.

Upphaflega voru verlok áætluð um mánaðamótin nóvember/desember nk. en þeim hefur verið frestað fram í apríl 2025.

Brúin verður yfirbyggð og við báða enda hennar verður stigahús og lyfta. Góð lýsing verður á og við brúna. Verkís hannaði mannvirkið og VBV verkfræðistofa hefur eftirlit og umsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.

Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk, segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Samkvæmt reglugerð er hámarkshæð ökutækja 4,2 metrar. Til að koma í veg fyrir að ökutæki rekist upp í brúna verður skiltabrúm komið fyrir sitt hvorum megin við göngubrúna. Skiltabrýrnar eru lægri en sjálf göngubrúin þannig að of há ökutæki munu rekast í skiltabrúna. Fríhæð undir skiltabrú verður 5,5 metrar. Fríhæð undir viðvörunarslá verður 5,2 metrar.

Vegagerðin og Reykjavíkurborg munu biðla til verktaka og flutningsfyrirtækja að kynna þessar hæðartakmarkanir fyrir sínu starfsfólki.

Verkið er fjármagnað af samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, og uppfærður fyrir skömmu.

Í maí sl. fékk Morgunblaðið þær upplýsingar hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur að í Vogabyggð væru í dag 76 börn á grunnskólaaldri (fædd 2008-2017) og 102 börn á leikskólaaldri (fædd 2018-2023).

Vogabyggðin er í dag skilgreind sem skólahverfi Vogaskóla og eru næstum 40% grunnskólabarnanna í skólanum. Hin rúmlega 60% barnanna dreifast á marga skóla í borginni og sum eru skráð í skólum utan Reykjavíkur og erlendis.

Flest börnin á leikskólaaldri, sem komin eru með leikskólapláss, eru með vistun í Ævintýraborg í Vogabyggð.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson