Magnea Sigurbergsdóttir fæddist í Grænhól í Ölfusi 4. september 1937. Hún lést 28. ágúst 2024 á B2 taugalækningadeild LSH.

Foreldrar hennar voru Sigurbergur Jóhannsson, f. 18. ágúst 1886, d. 23. febrúar 1969, og Arnfríður Einarsdóttir, f. 8. júlí 1906, d. 2. nóvember 1994. Systkini hennar voru Guðmundur, f. 15. apríl 1928, d. 14. apríl 2003. Jóhann Þór, f. 13. mars 1933, d. 27. apríl 2023. Einar, f. 10. september 1934, d. 21. júní 2024. Árni Bergur, f. 4. mars 1948, d. 30. nóvember 2001.

Barnsfeður og eiginmaður Magneu voru Knut Erik Andersen, d. 1960, og Ásgeir Sæmundsson, f. 22. maí 1927, d. 5. desember 2009. Börn: Anna Lísa Andersen, f. 24. október 1959. Sæmundur Ásgeirsson, f. 15. janúar 1963. Ólína Ásgeirsdóttir, f. 20. ágúst 1965. Bragi Ásgeirsson, f. 18. maí 1968, maki Petra Nicola Deutrich. Barnabörn voru átta og fjögur barnabörn.

Magnea ólst upp í Ölfusi en lengst af á Arnbergi. Árið 1963 giftist Magnea og fluttist í Selpart þar sem hún bjó lengstan hluta ævi sinnar og stundaði bústörf. Eftir skilnað flutti hún til Reykjavíkur og rak m.a. fyrirtækið Moby Dick sem hún stofnaði.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. september 2024, klukkan 13.

Elsku mamma/amma var mögnuð kona, hún hafði frá unga aldri verið dugleg að bjarga sér og koma sér í skemmtileg og lærdómsrík ævintýri. Hún hafði mikið viðskiptavit og var alltaf með eitthvað á prjónunum og seldi vettlinga fram á síðustu stundu. Hún var hins vegar ekki með á prjónunum að verða veik enda fékk hún endurnýjuð ökuréttindi í febrúar á þessu ári. Í lok maí kom greining á því sem var búið að hrjá hana í nokkurn tíma og sjúkdómurinn MND/ALS kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og gekk mjög hratt yfir.

Mamma/amma var af rokkkynslóðinni, glaðlynd og sagði okkur margar sögur. Hún þorði að framkvæma og prófa eitthvað nýtt, fór til Danmerkur um tvítugt, lærði dönsku og að elda ýmislegt framandi. Lærði að keyra bíl, sem var ekki algengt að konur gerðu á þeim tíma. Hún lét byggja 30 fermetra gróðurhús úr afgangsgleri úr íbúðarhúsinu í sveitinni. Þar ræktaði hún rósir og aðrar plöntur, sannkallaður unaðsreitur. Hún var í garðyrkjufélaginu og skógræktarfélaginu og ef einhver sagði að ekki væri hægt að rækta einhverja plöntu eða tré þá fékk hún sérstakan áhuga á að rækta það.

Þegar við vorum yngri í sveitinni keypti hún prjónavél og seldi bleyjubuxur, ullarboli, gammósíur og fleira fyrir ungbörn. Hún saumaði eða prjónaði flestallt á heimilisfólkið og fannst gaman að hanna margs konar flíkur. Svo fékk hún sér hænur og seldi egg. Þegar sala á gulrótum, rófum og kartöflum gekk illa eitt árið þá tók hún sig til og pantaði bás í Kolaportinu og seldi alla uppskeruna og meira til. Hún stækkaði veldi sitt í Kolaportinu og var alveg í essinu sínu þar í nokkur ár. Um sjötugt keypti hún 300 fermetra hús á Lindargötunni, gerði það upp frá grunni og stofnaði og rak gistiheimilið Moby Dick. Þegar gistiheimilisrekstri lauk framleiddi hún vettlinga o.fl. til að selja í handprjónasambandinu.

Fram á þetta ár sat hún aldrei verklaus. Hún hafði áhuga á svo mörgu, sem dæmi las hún í nokkur ár allt um misvísandi upplýsingar um landnám á Íslandi og hafði sínar skoðanir á því. Mamma/amma var kraftmikill frumkvöðull á undan sinni samtíð í mörgu. Hún var stálminnug, með jafngott minni og öll börnin hennar fjögur samanlagt, fannst okkur. Hún fylgdist vel með og hringdi reglulega til að athuga með okkur og hvort við gætum gert eitthvað. Hún kenndi okkur svo margt varðandi seiglu, hugrekki og um að njóta lífsins og fylgja draumum fyrir utan að skipta um kló á innstungu, mála, teppaleggja, dúkleggja, sauma, prjóna, vefa, rækta plöntur, mjólka kýr, raka saman heyi, rýja kindur, búa til slátur, baka, galdra fram stórkostlegar veislur og svo margt fleira.

Hvíl í friði elsku mamma og amma, við vonum að þú sért að tjútta einhvers staðar við Chuck Berry.

Ólína og Lára Katrín (Lorax).

Magnea Sigurbergsdóttir var bjargvætturinn hans pabba, Heimis Þórs Gíslasonar. Þau kynntust á dálítið skondinn máta.

Pabbi kom að máli við mig og spurði hvort ég þekkti einhverja konu sem væri til í að dansa við hann og koma með honum á gömludansana. Ég sagði Önnu Lísu vinkonu minni þetta og hún sagði óðar: Láttu hann tala við mömmu, hana langar líka til að dansa. Hún lét mig fá símanúmerið hennar og ég gaf pabba það.

Þegar þau hittust þá kom í ljós að þau höfðu spjallað saman í heitu pottunum í Sundhöllinni. Eftir fyrsta danstímann voru þau yfir sig ástfangin eins og unglingar, en hann hafði verið eins og vængbrotinn fugl eftir að mamma dó, tveimur árum áður. Þessi yndislega kona kom eins og bjargvættur inn í líf hans. Ég var virkilega hamingjusöm með þeirra kynni, en þau skráðu sig í sambúð fljótlega og bjuggu saman þar til hann lést.

Vinskapur minn við börn hennar hefur haldist í gegnum tíðina og er ég þakklát fyrir það.

Ég votta aðstandendum og vinum Magneu mína innilegustu samúð.

Helga Nína Heimisdóttir.

Haustið 1963 var ég 14 ára vinnudrengur í Selparti hjá ungu hjónunum Ásgeiri Sæmundssyni og Magneu Sigurbergsdóttur og undi mér vel á bökkum Þjórsár við garðavinnu og fleira sem til féll á bænum. Það var líka tilkomumikið að hafa Surtseyjargosið í návígi þarna niðri við sjóinn. Þá kynntist ég húsfreyjunni Magneu sem var hlýleg og skemmtileg í viðkynningu. Mikil dugnaðarkona og listræn í sér. Þá var nýbúið að byggja íbúðarhús í Selparti og það var málað innandyra í margs konar litum eftir fyrirsögn Magneu og listaverkamyndir hengdar upp á veggi.

Ekki gleymi ég ferðinni sem við Magnea fórum að Króki til að sækja blóm í nýja húsið. Lilja í Króki gaf Magneu mikið af stofublómum sem við tókum með heim að Selparti. Gamli Willysinn hans Ásgeirs var farinn að gefa sig en honum var tjaslað saman með snæri og límbandi ef svo má segja. Á heimleiðinni fór kúplingin úr sambandi og ökuferðin endaði inni á gafli í bílskúrnum. Eftir þetta afsagði Magnea að keyra Willysinn sem var þá snarlega settur á verkstæði og allt féll í ljúfa löð.

Magnea var mikill frumkvöðull á ýmsum sviðum. Hún var fyrsta konan í Flóanum sem fór með alls konar búsafurðir frá sjálfri sér og öðrum, eins og brodd og grænmeti, til sölu í Kolaportinu í Reykjavík og ruddi þar brautina fyrir aðra sem síðar fóru sömu leið. Þetta stundaði hún lengi og varð þekkt fyrir dugnað sinn við að koma alls konar framleiðsluvörum bænda á framfæri.

Seinna, þegar Magnea var flutt til Reykjavíkur, kom ég stundum í heimsókn og sótti til hennar fróðleik um menn og málefni því hún var einstaklega vel að sér og mikil fróðleikskona. Handavinnan hennar og bútasaumsteppin voru listaverk sem gaman var að skoða. Magnea var fríðleikskona sem vakti athygli hvar sem hún fór fyrir myndarskap og skörulega framgöngu hvarvetna.

Mér þótti vænt um að ég náði að kveðja Magneu, mína gömlu húsmóður, þegar hún var komin á spítala og séð var að hverju dró. Börnum hennar votta ég innilega samúð mína. Blessuð sé minning Magneu Sigurbergsdóttur.

Jón M. Ívarsson.