Séra Hjálmar Jónsson rakst á það í fréttum RÚV að stytta Einars Jónssonar af Þorfinni karlsefni væri enn í geymslum Fíladelfíuborgar. Sex ár eru liðin frá því spellvirkjar afhöfðuðu styttuna og köstuðu henni út í Schuylkill-ána

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Séra Hjálmar Jónsson rakst á það í fréttum RÚV að stytta Einars Jónssonar af Þorfinni karlsefni væri enn í geymslum Fíladelfíuborgar. Sex ár eru liðin frá því spellvirkjar afhöfðuðu styttuna og köstuðu henni út í Schuylkill-ána. Lilja Alfreðsdóttir segir ekki standa til að menningar- og viðskiptaráðuneytið hlutist til um endurreisn styttunnar, enda sé það innanríkismál. Hjálmari varð að orði:

Sjálfur bar hann sverð og skjöld,

sýndi kjark og festu,

en nú eru íslensk yfirvöld

afskiptalaus að mestu.

Annars bárust þær fregnir frá Hagstofunni að heildarfjöldi kinda á Íslandi væri kominn niður í 354.986 eða 0,94 kind á hvern íbúa. Til samanburðar má geta þess að árið 1973 var stofninn 845.796 eða um fjórar kindur á hvern íbúa. Einar Kolbeinsson í Bólstaðarhlíð fær ekki orða bundist:

Afturför í ýmsu sé,

eykst hér sífellt vandi,

nú er orðið færra fé,

en fólk á þessu landi.

Davíð Hjálmar Haraldsson beið eftir hausthretinu fyrir norðan:

Mér er hlýtt, með hörku bók,

heitan kaffisopa,

úlpu, peysu, prjónabrók

og pungbindi úr lopa.

Þá Friðrik Steingrímsson í Mývatnssveit:

Hjá bændunum komin er klemma

því kornlaus er nánast hver skemma.

þeir muna því árið

með úrkomu fárið,

og vorið er vetraði snemma.

Sigurður Albertsson horfði á veðurfréttamanninn Hrafn Guðmundsson spá vondu veðri enn eina ferðina – og varð að orði:

Lóan heim úr lofti flaug.

Leit þá ský við himinbaug.

Gusta fór á grundu.

Þykkur snærinn þakti láð.

Þessu veðri hafði spáð

Hrafn fyrir hálfri stundu.

Að síðustu Pétur Stefánsson:

Á þig setur svartan blett

sértu æ að kvarta.

Að fyrirgefa er ljúft og létt

og lyftir fargi af hjarta.