Fjölskyldan Frá vinstri: Guðjón, Ingibjörg, Magnús Ingi, Stefán, Díana Rán, Gabríel Enzo, Álfheiður, Jóhanna, Guðjón Sabatino og Stefán Haukur.
Fjölskyldan Frá vinstri: Guðjón, Ingibjörg, Magnús Ingi, Stefán, Díana Rán, Gabríel Enzo, Álfheiður, Jóhanna, Guðjón Sabatino og Stefán Haukur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Stefánsdóttir er fædd 12. september 1954 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. „Fyrstu vikurnar vorum við mæðgur í Reykjavík á Sólvallagötu 6 hjá þeim hjónum Guðrúnu Markúsdóttur og Magnúsi Björnssyni en mamma hafði verið í vist hjá þeim sem ung stúlka

Ingibjörg Stefánsdóttir er fædd 12. september 1954 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. „Fyrstu vikurnar vorum við mæðgur í Reykjavík á Sólvallagötu 6 hjá þeim hjónum Guðrúnu Markúsdóttur og Magnúsi Björnssyni en mamma hafði verið í vist hjá þeim sem ung stúlka. Ég var skírð í stofunni í Ásbrekku, Gnúpverjahreppi, hjá móðurforeldrum mínum þann 31. október 1954 í höfuðið á báðum ömmum mínum sem hétu Ingveldur og Guðbjörg. Séra Gunnar Jóhannesson í Skarði hafði þá sagt við mömmu þessi fleygu orð: „Ragga mín, ætlið þið að sleppa bæði Guði og valdinu?“ og það gerðu þau og ég var skírð Ingibjörg.“

Ingibjörg ólst upp á Selfossi hjá foreldrum sínum og þremur systkinum. „Ég fór öll sumur til 13 ára aldurs í sveit að Ásbrekku til ömmu og móðurbróður míns Steindórs sem tók við búi eftir andlát Zóphóníasar afa míns 1960. Ég beið óþreyjufull eftir að skóla lyki til þess að komast í sauðburð og kom svo heim með mjólkurbílnum eftir réttir í lok september. Fermingarsumarið mitt fór ég svo að Brúarholti/Efri-Brú í Grímsnesi til Steinunnar Ingvarsdóttur og Böðvars Guðmundssonar og var hjá þeim næstu þrjú sumur sem vinnukona. Mörg börn dvöldu hjá þeim í sumardvöl og þar var líf og fjör. Fjölskyldan í Brúarholti var og er mér afar kær og þar eignaðist ég mína allra bestu vinkonu, hana Steinu, þó að aldursmunur væri 20 ár.“

Skólaganga Ingibjargar hófst í Barnaskóla Selfoss 1960, síðan í Gagnfræðaskóla Selfoss og 1971 útskrifaðist hún sem gagnfræðingur. „Það sumar fór ég fyrst út á vinnumarkaðinn og mitt fyrsta launaða starf var afgreiðsla á Bílalager Kaupfélags Árnesinga. Fyrir tæplega 17 ára stelpu var þetta heilmikil áskorun á þeim tíma að afgreiða aðallega karlmenn um varahluti í bíla og til að byrja með var ég oft sniðgengin af viðskiptavinum sem frekar leituðu til karlkyns afgreiðslumanns. En þegar kom fram á sumar og mér óx ásmegin fann ég fyrir trausti í minn garð og jafnvel var fyrst leitað til mín og beðið um aðstoð. Um haustið fór ég svo að vinna á skrifstofu KÁ og starfaði þar þangað til ég hóf nám við Fósturskóla Íslands haustið 1972.“

Ingibjörg útskrifaðist sem fóstra/leikskólakennari vorið 1975 og fór síðan í framhaldsnám í stjórnun við sama skóla 1983-1984. Hún hóf störf við Leikskóla Selfoss sumarið 1975 og samhliða því hjá Þroskahjálp á Suðurlandi til ársins 1981. Frá þeim tíma starfaði hún svo við leikskóla á Selfossi, fyrst sem deildarstjóri í Glaðheimum og síðan sem leikskólastjóri við leikskólann Álfheima fram á haustdaga 2016 er hún lauk störfum eftir tæplega 42 ár. „Ég var samt ekki alveg hætt því í tvo vetur starfaði ég við leikskólann Krakkaborg í Flóahreppi í hlutastarfi. Vorið 2019 varð ég óvinnufær um tíma eftir fall á hestbaki og þá ákvað ég að mínum starfsferli værið lokið.

Leikur og leikskólastarf hefur ávallt verið mér hugleikið og mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar. Leikskólinn Álfheimar er einn af fyrstu skólum hér á landi sem tileinkaði sér útinám barna og vann þróunarverkefni „út um mó inn í skóg“ þar sem fylgst var með samskiptum barna í leik í náttúrunni og hvernig það hafði áhrif á hegðun þeirra og líðan. Börn eru besta fólk, þau eru bestu kennararnir og að hafa starfað með börnum allan minn starfsaldur eru forréttindi.“

Ingibjörg hefur sinnt ýmsum félagsstörfum í gegnum tíðina. Hún var í stjórn Félags stjórnenda leikskóla, formaður Samkórs Selfoss, sat í húsnefnd Hestamannafélagsins Sleipnis og er heiðursfélagi þess. Í dag er hún ritari Kvenfélags Gnúpverja, er í ferðanefnd Félags eldri borgara á Selfossi og formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands.

„Ég hef mikinn áhuga á fólki og sumum finnst nóg um hvað ég fer víða og er vel virk. Ég hef sungið í kórum frá því ég söng með Stúlknakór Gagnfræðaskóla Selfoss og syng núna í Vörðukórnum og í Kirkjukór Stóra-Núps og Ólafsvalla. Ég fer í gönguferðir um íslenska náttúru á hverju sumri, fer í Veiðivötn með systkinum mínum og vinum, iðka sundleikfimi og svo hef ég stundað hestamennsku frá síðustu aldamótum. Ég fór í nám í LBHÍ í reiðmennsku sem kallast Reiðmaðurinn 2011-2014 og aftur 2019. Ég keypti fyrsta hestinn minn 2003 og síðan hefur þeim fjölgað og fækkað á víxl og nú eru þeir fimm. Hestar og allt sem viðkemur þeim hefur tengt mig aftur við sveitastörfin sem áttu hug minn allan fyrstu æviárin. Ég er í hestahópum sem fara í ferðir inn á hálendið og/eða í byggð og það er fátt sem jafnast á við það að láta gamminn geisa í íslenskri náttúru í góðra vina hóp.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ingibjargar er Guðjón Haukur Stefánsson, f. 28.5. 1952, bifreiðasmiður og fangavörður/varðstjóri. Þau gengu í hjónaband í Selfosskirkju 17.4. 1976 og hafa búið á Selfossi alla tíð. Foreldrar Guðjóns voru hjónin Ingibjörg Guðjónsdóttir húsmóðir, f. 11.2. 1920, d. 24.1. 2021, og Stefán Þorgrímsson, starfsmaður í Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, f. 1.10. 1919, d. 31.7. 2004. Þau bjuggu í Reykjavík.

Börn Ingibjargar og Guðjóns eru: 1) Stefán Haukur, f. 18.12. 1985, starfar sem leiðsögumaður hjá South Coast, í sambúð með Jóhönnu Kristínu Elfarsdóttur, sjúkraþjálfara við HSu, f. 1992, barn þeirra er Díana Rán, f. 20.6. 2017. Sonur Stefáns er Magnús Ingi, f. 6.2. 2010, barnsmóðir: Tinna Björk Magnúsdóttir, f. 1993; 2) Álfheiður Shalini, f. 28.12. 1988, skrifstofu- og rekstrarstjóri hjá Jóhanni Helga og co, í sambúð með Stefáni Óskari Orlandi, f. 1984, sem starfar við trésmíðar á Selfossi. Synir þeirra eru Guðjón Sabatino, f. 14.2. 2009, og Gabíel Enzo, f. 12.9. 2016.

Systkini Ingibjargar eru Margrét, f. 15.1. 1956, starfar við umönnun á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi; Jóhann Ingvi, f. 25.10. 1964, tónmenntakennari/aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Árnesinga, og Soffía, f. 1.12. 1967, starfar hjá Motus við innheimtustörf.

Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Ragnheiður Zóphóníasdóttir, f. 26.8. 1930, d. 29.6. 2021, húsmóðir, starfaði á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi til starfsloka, og Stefán Haukur Jóhannsson, f. 12.2. 1934, d. 22.9. 2016, bifvélavirki hjá KÁ og lögregluþjónn/varðstjóri frá 1974 til starfsloka.