Sæstrengir Fjórir neðansjávarkaplar liggja nú við Ísland, en hér sést kaplaskipið Durable leggja hinn fjórða þeirra, IRIS-strenginn svonefnda sem liggur á milli Íslands og Írlands, en hann var tekinn í notkun í fyrra.
Sæstrengir Fjórir neðansjávarkaplar liggja nú við Ísland, en hér sést kaplaskipið Durable leggja hinn fjórða þeirra, IRIS-strenginn svonefnda sem liggur á milli Íslands og Írlands, en hann var tekinn í notkun í fyrra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atlantshafsbandalagið hleypti fyrr á þessu ári af stokkunum verkefninu Hybrid Space and Submarine Architecture to Ensure Information Security of Telecommunications, sem skammstafað er HEIST, en það snýst um að tryggja þá mikilvægu innviði sem felast í neðansjávarköplunum yfir Atlantshafið

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Atlantshafsbandalagið hleypti fyrr á þessu ári af stokkunum verkefninu Hybrid Space and Submarine Architecture to Ensure Information Security of Telecommunications, sem skammstafað er HEIST, en það snýst um að tryggja þá mikilvægu innviði sem felast í neðansjávarköplunum yfir Atlantshafið.

Stjórnandi HEIST-verkefnisins, dr. Gregory Falco, var staddur hér á landi á dögunum til þess að ræða við íslenska ráðamenn um verkefnið og mikilvægi neðansjávarkaplanna. Falco er prófessor við hinn virta Cornell-háskóla í Bandaríkjunum og frumkvöðull á sviði netöryggis og hvernig eigi að tryggja það í lofthelgi og geimnum.

Falco er nú að sinna verkefnum á vegum Fulbright-stofnunarinnar við Háskólann á Bifröst og kennir hann áfanga í BA-námi í öryggisfræðum og almannavörnum, en þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á áþekkt nám á Íslandi.

Falco segir, spurður hvernig það hafi komið til að hann færi að kenna við Bifröst, að hann hafi mikil tengsl við Ísland, en eiginkona hans er af íslensku bergi brotin og bjuggu þau saman hér á landi meðan á heimsfaraldrinum stóð. „Við höfum mikil tengsl og djúpar rætur hér á landi og okkur er mjög annt um landið,“ segir Falco.

Háskólinn á Bifröst er einnig tengdur HEIST-verkefninu, en það er á vegum SPS-verkefnis Atlantshafsbandalagsins sem miðar að því að nota vísindi í friðsamlega þágu til þess að tryggja öryggi almennings.

Forgangsröðunin skiptir máli

Falco segir að meginmarkmið verkefnisins sé að finna leiðir til þess að verja þá mikilvægu umferð sem fari um neðansjávarkaplana, hvort sem þeir yrðu slitnir eftir aðgerð óvinveitts ríkis eða jafnvel eftir slys sem gæti dregið úr gagnaflutningsgetu þeirra.

„Já, það þarf að auka viðnámsþol [e. resilience] neðansjávarkaplanna og Ísland er í mjög sérstakri stöðu þar sem þið hafið einungis fjóra kapla sem liggja til og frá landinu, þannig að það er mikilvægt að auka viðnámsþolið þar sem fyrst,“ segir Falco.

Fyrsta atriðið sem HEIST-verkefnið er að skoða í þessu skyni er sá möguleiki að láta gervihnetti taka við hluta umferðarinnar. Falco bendir á að sú leið sé þó enn nokkrum annmörkum háð. „Í fullkomnum heimi, í fjarlægri framtíð, gætum við komist á þann stað þar sem við gætum sent alla gagnaumferðina aðra leið ef eitthvað kæmi upp á. En það er ekki mögulegt núna, í ljósi þeirrar gervihnattatækni sem við höfum og þeirrar bandvíddar sem gervihnettirnir ráða við,“ segir Falco.

Verkefnið sé því hvernig eigi að forgangsraða þeirri umferð sem fer venjulegast um neðansjávarkaplana og svo hvernig eigi að beina þeirri umferð til gervihnattanna. Falco segir aðspurður að í slíkri forgangsröðun þyrfti að líta til væntanlegra notenda, en þar er einna helst litið til tveggja aðila sem hafa sérstaka aðkomu að verkefninu, annars vegar íslenska ríkisins og hins vegar sænska sjóhersins.

Falco hefur verið í samskiptum við tvo tengiliði vegna HEIST-verkefnisins, en annar þeirra er Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins. Hinn tengiliðurinn er sænski varaaðmírállinn Ewa Skoog Haslum, en hún er æðsti yfirmaður sænska sjóhersins.

„Og þú getur rétt ímyndað þér, að það sem sænski sjóherinn myndi vilja setja í forgang er kannski frábrugðið því sem Ísland myndi vilja setja í forgang. Í grunninn er það þó rétt, að líklega yrðu leyniþjónustugögn, mikilvæg samskipti stjórnvalda eða neyðarboð í forgangi þegar kemur að því að velja hvað eigi að fara um gervihnettina,“ segir Falco. Hann bætir við að fjármálaupplýsingar hljóti þar einnig að vera ofarlega á blaði, sér í lagi þar sem 90% af öllum peningaviðskiptum fari um sæstrengina.

Ísland er í brennideplinum

-En hafið þið unnið sviðsmyndir eða áætlanir um viðbrögð ef, segjum togari frá ákveðnu ríki myndi „óvart“ skera á einn sæstrenginn?

„Allar þessar sviðsmyndir eru á þessari stundu í skoðun á vegum CERT-IS. Ég fékk tækifæri til þess að funda með þeim ásamt kollegum mínum frá sænska hernum á dögunum,“ segir Falco.

Hann segir að meðal þess sé verkefni, sem sé ekki leynilegt en hafi þó ekki farið hátt, sem kallast á ensku „Iceland Unplugged“, en það snýst um að líkja eftir og kanna hvað myndi gerast ef Ísland yrði slitið frá umheiminum. Það sé þó ekki það sem HEIST-verkefnið sé að athuga.

„Því það er gott að vita að Ísland geti haldið sér gangandi, jafnvel þótt það yrði slitið frá umheiminum. Stærri spurningin þar er hins vegar sú, að ef þessir kaplar slitna allir er mjög ólíklegt að það gerist fyrir slysni, ekki satt? Þá er það þjóðaröryggisvandamál,“ segir Falco.

Hann ítrekar því að í slíkri sviðsmynd myndi Ísland þurfa á bandamönnum sínum að halda, ekki síst hinum norrænu ríkjunum, að ekki sé minnst á heri t.d. Svíþjóðar og Bandaríkjanna. „Og þið mynduð þurfa að geta átt samskipti við þessa aðila og sent þeim þessar upplýsingar og stundað þau viðskipti sem þörf krefur,“ segir Falco.

Hann bætir við að hann telji ekki að það sé verið að „spila út“ þær sviðsmyndir sem þessi samvinna við bandamenn Íslands myndi kalla á. „En Ísland er vissulega að skoða þetta, að minnsta kosti hvað snertir Iceland Unplugged.“

Falco bendir á í þessu samhengi að við vitum að það sé eitt ákveðið ríki, sem hegði sér reglulega í vondri trú, sem hafi verið að kortleggja þessa neðansjávarkapla sem eru í hafinu í kringum Ísland. „Þannig að við vitum að þið eruð í brennideplinum, og nágrannar ykkar hafa líka áhyggjur af þessu því að Ísland er svo mikilvægt hinu „alþjóðlega vistkerfi,““ segir Falco.

Tækninni mun fleygja fram

HEIST-verkefnið mun standa yfir í tvö og hálft ár eða svo, en það á m.a. að athuga hversu fýsilegt það sé að færa þessa mikilvægu netumferð yfir í gervihnettina. Falco segir aðspurður að hann eigi von á því að gervihnattatækninni muni fleygja fram á þeim tíma, en að væntingarnar séu ekki þær að þetta verði fullkomið.

„Þegar við hleyptum verkefninu af stað með sérstökum viðburi við Cornell-háskólann funduðum við m.a. með fulltrúum frá SpaceX og Starlink, Viasat, Voyager Space og við hittum fólk frá SES, sem er annað stórt fyrirtæki í gervihnattasamskiptum. Og þessir aðilar ræddu um getu sína til þess að setja upp samskiptakerfi með mikilli bandvídd í gervihnetti,“ segir Falco.

Hann segir að þar hafi t.d. komið fram að Starlink-gervihnattakerfið geti nú sett upp svæði þar sem getu ákveðins svæðis er safnað upp og þá ráða þau kerfi við samskipti upp að einu gígabæti með háhraðatengingu. „Það er ekki nóg fyrir þau petabæti sem nú fara í gegnum sæstrengina á hverjum einasta degi. En varðandi HEIST-verkefnið, ástæðan fyrir því að við viljum fá þessa aðila í geiranum til að sitja saman við borðið, er að við teljum ekki að neinn einn þeirra geti leyst vandann, heldur muni þurfa samvinnu allra til þess að geta leyst þetta vandamál og veitt þá þjónustu sem við þörfnumst. Það er ein hlið þessa penings,“ segir Falco.

Hin hliðin er sú, að aðstandendur HEIST telja að fram undan sé ör framþróun í getu fjarskiptakerfa í geimnum til þess að senda upplýsingar með leysigeislum, sem veiti bæði mikla bandvídd og leyfi mikla umferð án mikilla tafa á sendingunum.

„En það eru margar tæknilegar áskoranir á þessari stundu varðandi dreifni í andrúmsloftinu, í stuttu máli hvernig ský og önnur fyrirbrigði í gufuhvolfinu dreifa merkinu og valda vandræðum fyrir samskiptainnviðina,“ segir Falco og bætir við að þangað þurfi að beina hluta rannsóknanna. Meginhluti verkefnisins frá rannsóknarlegu sjónarmiði muni því snúast um hvernig hægt verði að tryggja þá bandvídd sem þessi varageta muni þarfnast.

Hrekklaust samfélag

Talið berst að lokum að stöðu varnar- og öryggismála og hvernig tekið er á þeim í íslensku samfélagi. Falco segir að þátttaka Bifrastar í verkefninu, sem og BA-námið í varnar- og öryggisfræðum, sé gott dæmi um það hvernig rétt sé að reyna að setja þjóðaröryggismál framar í hugsun Íslendinga. „Samfélagið hér er mjög hrekklaust. Fólk hér vill ekki hugsa um ógnirnar eða þann möguleika að einhver vilji valda því skaða,“ segir Falco.

Hann segir þetta ríkan þátt í íslenskri þjóðarsál. „Ég er ekki að segja að við þurfum að vera haldin vænisýki hér, en við þurfum að vera fróð um þær ógnir sem nú eru í kringum okkur,“ segir Falco.

Hann bætir við að lokum að vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu hafi gert mikið gagn og tryggt landinu bæði bandamenn og visst öryggi. Hins vegar sé hann hugsi yfir hinni samþykktu þjóðaröryggisstefnu, sem virðist í grunninn snúast um að ef eitthvað bjáti á þurfi að leita til Bandaríkjanna. Það sé hins vegar að hans mati engan veginn fullnægjandi lausn. „Þið þurfið að íhuga þetta vel.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson