Ólafur Friðrik Eiríksson fæddist 28. ágúst 1966. Hann lést 28. ágúst 2024.

Foreldrar Ólafs voru Sigurlaug Straumland, f. 1939, og Eiríkur Ólafsson, f. 1936, d. 1996. Bróðir Ólafs er Andrés, f. 1957.

Eiginkona Ólafs er Valgerður Vilmundardóttir, f. 1968. Þau eignuðust tvær dætur; Sigrúnu Elvu, f. 1992, og Kolbrúnu Dögg, f. 1999.

Ólafur ólst upp í Reykjavík að undanskildum tveimur árum þegar hann bjó á Siglufirði. Hann fluttist til Grindavíkur tæplega tvítugur og gerðist fljótlega verkstjóri hjá fiskvinnslufyrirtækinu Hópsnesi. Síðar varð hann yfirmaður hjá Bláa lóninu, stundaði málningarvinnu og var sjómaður lengst af. Hann stundaði nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð.

Útförin fer fram í Fossvogskirkju í dag, 12. september 2024, klukkan 15.

Í dag kveð ég æskuvin minn Óla. Við kynntumst fyrst í grunnskóla í Álftamýrinni. Báðir feimnir og hlédrægir, en það sem dró okkur saman var sameiginlegur áhugi á íþróttum og sameiginlegir vinir og skólabræður. Það er margt að minnast þau 47 ár sem liggja að baki vináttu okkar. Spurningakeppnir á Háaleitisbrautinni, röngu svörin sem vöktu kátínu og hlátur, við vorum kannski ekki með allt á hreinu en við kunnum að skemmta okkur. Ferðirnar í Vík í Mýrdal. Vinahópurinn stækkaði og vináttan var sönn og bundin sterkum böndum. Hallærisplanið og rúnturinn. Hávaðapartí í Safamýrinni, nágranninn og kvartanir. Áramótaböll með Stuðmönnum í Sigtúni og koma sér heim í hávaðaroki, skafrenningi og nístingsfrosti. The Smitheerens í Íslensku óperunni. Imperiet í Höllinni og hljómborðsleikarinn hrækti á þig, það var toppurinn á tilverunni. Útihátíðir, dekkjaskipti á núll-einni þó svo farangursrýmið væri fullt og varadekkið undir öllu draslinu. Búsbrothers, vitleysan var ekki öll eins en við vorum ungir og kannski ekki með allt á hreinu. Þú flytur að heiman, ferð að vinna fyrir þér í Grindavík, kynnist Valgerði, festir rætur og þið stofnið fjölskyldu og eignist tvær yndislegar dætur. Allt var eins og það átti að vera og vinahópurinn stækkaði. Fjölskylduferðir og tjaldútilegur á Vigdísarvöllum, brúðuleikhús fáránleikans í Rúgbrauði, við kunnum að skemmta okkur og vorum með allt á hreinu. Árleg spilakvöld um áramót, matarveislur, þorrablót og árshátíð vinahópsins. Það er algjör óþarfi að láta sér leiðast þótt maður hafi ekki allt á hreinu. Gráu hárunum fjölgaði og aldurinn færðist yfir en vináttan var áfram sönn og bundin sterkum böndum.

Það er auðvelt að rifja upp góðar og skemmtilegar minningar með þér og vinahópnum, ég mun ávallt sakna þín minn kæri vinur. Hvíl í friði.

Þinn vinur,

Björn Helgi (Bjössi).

Lífið er oft óútreiknanlegt. Það getur verið eins og veðrið á Íslandi. Þegar sólin skín sem skærast getur allt í einu dregið ský fyrir sólu og á næstu mínútu farið að rigna. Maður venst þessu sjálfsagt aldrei en þetta er engu að síður veruleikinn á okkar harðbýla landi.

Það dró svo sannarlega ský fyrir sólu þegar ég fékk skilaboðin um að æskuvinur minn Óli Eiríks væri látinn og mér vöknaði um augu. Þessi þungbæru tíðindi tóku verulega á. Við höfðum vissulega ekki verið í miklu sambandi síðustu árin nema þegar honum datt í hug að hringja í mig á stundum þegar vinirnir komu saman og hann lék á als oddi.

Æskuminningarnar spretta fram, kalla fram bros og af nógu er að taka. Það sem við félagarnir brölluðum. Óli var svo lífsglaður og skemmtilegur vinur. Það var alltaf gaman í kringum hann og uppátækin eftir því. Við gleymum því seint skólafélagarnir þegar við stofnuðum heila hljómsveit til að taka þátt í hæfileikakeppni Álftamýrarskóla árið 1982. Hljómsveitin fékk nafnið Erlendur og það verður að segjast eins og er að við höfðum enga hæfileika á þessu sviði. Við létum það hins vegar ekki aftra okkur frá því að taka þátt. Óli dró vagninn og útvegaði æfingaaðstöðu í bílskúrnum í Safamýrinni þar sem við æfðum stíft. Við sömdum eitt lag í anda Purrks Pillnikks og hluti textans í laginu var eitthvað á þessa leið: „Watching me watching you, með hjólbörur í fanginu geng ég niður veginn …“ Síðan þá hafa margar hljómsveitir notað a.m.k. fyrri hluta textans í lögin sín en það sem við skemmtum okkur vel við þessa vitleysu. Ég mun áfram ylja mér við þessar og fleiri góðar minningar tengdar okkar vináttu.

Óli var sannkallaður Víkingur enda sá eini sem ég veit um í Framhverfinu á þessum tíma sem hélt með Knattspyrnufélaginu Víkingi. Það var sama hvað við reyndum að fá hann til að skipta um skoðun, Víkingur var hans félag. Mér hefur oft orðið hugsað til Óla núna þegar Víkingar eru líka komnir með aðstöðu sína í Safamýrina. Óli hefur að vonum verið sáttur við það.

Óli var búinn að búa lengi í Grindavík ásamt fjölskyldu sinni og löngu orðinn Grindvíkingur. Hann eins og aðrir bæjarbúar hafa gengið í gegnum ótrúlega tíma sl. ár og það er tæpast hægt að setja sig í þau spor. Það hlýtur að reyna á og því mun mikilvægara fyrir þjóðina að standa þétt við bakið á fjölskyldum þessa bæjarfélags sem hefur skilað svo miklu til samfélagsins alls. Óli var einn af þessum íbúum sem voru lengi á sjó og sáu um, eins og aðrir sem vinna þá erfiðisvinnu, að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Fyrir það eigum við að vera þakklát.

Elsku besti vinur, hvíl í friði. Þín er og verður sárt saknað. Ég votta fjölskyldunni mína dýpstu samúð og veit að hún mun ylja sér við minningarnar um góðan dreng eins og við æskuvinirnir gerum.

Eiríkur Björn Björgvinsson.

Elsku Óli.

Með þér er genginn stór hluti af lífi mínu og æsku síðustu 48 árin. Ég man það eins og í gær þegar þú komst í 10 ára bekk í Álftamýrarskóla. Þú stóðst einn, feiminn og hlédrægur í skýlinu við aðalinnganginn í bláu Gefjunar-úlpunni þinni, með hettuna yfir höfðinu og rennt upp í háls. Ég varð forvitinn og gaf mig á tal við þig. Upp frá þessu urðum við bestu vinir.

Við vorum óaðskiljanlegir um tíma og ég fékk þann heiður að verða svaramaður þinn í brúðkaupi ykkar Völku. Minningarnar hafa hrannast upp síðustu daga. Við vorum saman öllum stundum í ýmsum leikjum, fótbolta og fleira. Við fundum okkur alltaf eitthvað til að bralla, ef okkur datt ekkert í hug þá töldum við litina á bílunum út um gluggann heima hjá þér. Stundum var spjallað og teflt klukkutímum saman í gegnum símann. Við fórum ferðir í Mýrdalinn í bústað foreldra þinna og í heimsókn til ömmu þinnar. Óli var mikið inni í tónlist og kynnti mig fyrir hljómsveitum. Tónlistarsmekkur okkar var ekki eins en Óli fann auðveldlega út úr hvar við deildum smekk í hljómsveitum á borð við U2, Big Country o.fl.

Óli var alltaf ljúfur og þægilegur í viðmóti og stutt í gleði og húmor. Hann vildi öllum vel en var ekki sáttur við óréttlæti heimsins. Dýr og sérstaklega hundar fengu svo sannarlega að njóta góðvildar hans og hann hugsaði sig ekki tvisvar um að kaupa mat handa heimilislausum dýrum í utanlandsferðum sínum.

Það var mikið brallað á þessum árum, stofnuð var hljómsveit og að sjálfsögðu fótboltalið á fyrstu árum utandeildarkeppninnar. Óli fluttist til Grindavíkur, kynntist Völku og eignaðist tvær yndislegar dætur. Óli var klár og hæfileikaríkur, vel lesinn og inni í málefnum líðandi stundar. Eftir að ég útskrifaðist sem stúdent ræddi ég við Óla um að mig langaði að prófa að fara á sjóinn. Nokkrum dögum síðar var mér boðið að gerast háseti á Hópsnesi GK þar sem ég var rúma vertíð á sjó. Óli var ekki lengi að bjarga vini sínum plássi.

Í gegnum vináttu við Óla og Völku kynntist ég mörgu yndislegu fólki í Grindavík. Vinátta okkar var einlæg og ég fann alltaf hlýju og fallega orku frá þér. Það er ekki sjálfgefið að halda vináttu frá grunnskólaaldri; við héldum alltaf hópinn og hittumst oft allir vinirnir og yngdumst mikið þegar við hittumst.

Elsku Óli, það voru margar áskoranir sem þú þurftir að glíma við síðustu misserin, missa heimilið, heilsuna og geta ekki stundað vinnu. Veikindin ágerðust og höfðu þig undir að lokum. Þú varst alltaf æðrulaus og kvartaðir ekki við okkur vinina. Nokkrum dögum áður en þú kvaddir áttum við stutt en gott spjall. Á afmælisdaginn þinn áttirðu að innritast á spítala, mér fannst þú vera sáttur. Hún var sterk taugin á milli okkar, nánast öll árin heyrði ég í þér á afmælisdaginn þinn, það hvarflaði ekki að mér að síðasta afmælisdaginn þinn færi ég upp á spítala til að kveðja þig.

Minning um góðan vin og yndislega manneskju lifir, ég mun geyma allar skemmtilegu og fallegu minningarnar okkar. Elsku vinur, takk fyrir allt.

Ingvar Stefánsson.

Það er komið að kveðjustund sem kom allt of fljótt. Erfiðir tímar eru sjaldan langir en samt lengri fyrir suma og lausnirnar ekki alltaf í sjónmáli. Enginn les lífsbókina fyrir fram og komandi dagar eru oft sem óskrifað blað. Ekki hvarflaði að mér þegar ég heyrði í þér degi fyrir slæmu fréttirnar að það væri í síðasta sinn sem við töluðum saman og það síðasta sem þú sagðir við mig var „takk fyrir að hringa“.

Kynni okkar Óla og vinskapur hófst í Langagerðinu sumarið 1972 þegar við vorum sex ára svo árin eru orðin 52 og ekki óraði mig fyrir að þau ættu ekki eftir að verða fleiri. Margt hefur verið brallað í gegnum tíðina og það var sjaldan lognmolla í kringum þig, sumarbústaðaferðir, tónleikar og fótbolti innanlands sem utan, spilakvöld þar sem keppnisskapið kom virkilega fram, árleg spilavist í vinahópnum sem þú vannst aldrei og spurningaleikir þar sem fróðleikur þinn um hin ýmsu málefni komu sér vel. Þær voru ófáar stundirnar sem við töluðum saman um allt mögulegt, t.d. tónlist og utandeildarfótbolta sem enginn hafði áhuga á nema við. Alltaf gat maður treyst á hjálpsemi þína ef því var að skipta og ekki þurfti að hafa mikið fyrir því að fá þig til að passa hundinn okkar hana Dimmu enda hef ég engan hitt sem dýr hænast eins mikið að og þig. Það eru ófáar sögurnar um þig að sinna dýrum, t.d. í sumarfríi á Krít þegar þú fórst í búðina til að kaupa kattarmat til að gefa villiköttum eða hér heima að gefa hundum í næstu húsum lifrarpylsu. Ég trúi því að við regnbogabrúna bíði þín hópur ferfætlinga sem fagna þér og í þeim félagsskap líður þér vel. Það var gott að eiga þig fyrir vin og þín er sárt saknað.

Tíminn flýgur áfram og hann teymir
mig á eftir sér

og ekki fæ ég miklu ráðið um það
hvert hann fer.

En ég vona bara að hann hugsi
svolítið hlýlega til mín

og leiði mig á endanum aftur til þín.

(Megas)

Elsku Valka, Sigrún Elva, Kolbrún Dögg, Sigurlaug og Andrés, ykkar missir er mikill, megi minningarnar ylja til að gera missinn ögn bærilegri. Ég mun alltaf minnast Óla með hlýju og söknuði, það var enginn eins og Óli.

Hvíl í friði kæri vinur.

Sigurður Ingi.