Svanhildur Jónsdóttir fæddist á Hvammstanga 30. ágúst 1961. Hún lést á Landspítalanum 19. ágúst 2024.

Foreldrar Svanhildar eru hjónin Jóhanna Björnsdóttir, f. 4. ágúst 1930, og Jón Marz Ámundason, f. 11. október 1921, d. 12. júní 2000.

Systkini Svanhildar eru: Guðrún, f. 1. nóv. 1950, d. 23. sept. 2013, gift Halldóri H. Árnasyni, Ámundi Grétar, f. 14. apríl 1952, Birna, f. 23. nóv. 1954, gift Eiríki Jónssyni, Sigurbjörg Dagbjört, f. 19. des. 1955, gift Hermanni J. Ívarssyni, Daði, f. 12. ágúst 1958, kvæntur Olgu S. Ákadóttur, og Þórhildur, f. 19. nóv. 1965, d. 29. mars 2013.

Svanhildur giftist 1. október 1988 eftirlifandi eiginmanni sínum, Bárði Helgasyni, f. í Reykjavík 30. júlí 1961. Bárður er sonur hjónanna Valnýjar Bárðardóttur, f. 24. okt. 1917, d. 17. jan. 2014, og Helga Sæmundssonar, f. 17. júlí 1920, d. 18. febr. 2004.

Börn Svanhildar og Bárðar eru: 1) Ragnheiður, f. 29. janúar 1987, búsett í Kaupmannahöfn, gift Mads Gelting, f. 17. maí 1982. Ragnheiður og Mads eiga tvo syni, Mána, f. 17. ágúst 2014, og Nóa, f. 14. júlí 2017. 2) Helgi, f. 9. apríl 1990, búsettur í Reykjavík.

Svanhildur ólst upp í Bjarghúsum í Vestur-Hópi en foreldrar hennar voru bændur í Bjarghúsum. Hún sótti skóla á Laugarbakka í Miðfirði en fór á síðasta ári grunnskólans til Reykjavíkur og dvaldist þar í skjóli systur sinnar Guðrúnar og eiginmanns hennar Halldórs H. Árnasonar. Að loknu grunnskólaprófi fór hún í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en eftir tvö ár í Fjölbrautaskólanum hóf hún nám í Þroskaþjálfaskóla Íslands og lauk þaðan námi vorið 1983.

Svanhildur hóf störf hjá BUGL strax eftir útskrift og starfaði þar allt til dauðadags að einu ári undanskildu þegar hún starfaði sem forstöðumaður í Ragnarsseli í Keflavík.

Svanhildur sat í stjórn og samninganefnd Þroskaþjálfafélags Íslands um tíma.

Lengstan tíma eftir að Svanhildur flutti suður bjó hún í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrst við Reynimel og síðan á Kaplaskjólsvegi. 1990 byggðu Svanhildur og Bárður ásamt nokkrum úr fjölskyldu Svanhildar sumarbústað í Munaðarneslandi í Borgarfirði. Þarna naut fjölskylda Svanhildar sín afar vel.

Svanhildur var mikil fjölskyldukona og var stórfjölskyldan hennar þar ekki undanskilin. Börnum sínum fylgdi hún vel eftir og lét sér annt um þau og að þeim liði vel, hvort sem það var í skóla eða tómstundum.

Síðustu ár fór Svanhildur reglulega í Sporthúsið og þá aðallega til að dansa zumba.

Svanhildur og Bárður ferðuðust líka mikið. Þegar börnin voru yngri var farið til Spánar eða Portúgals til að njóta sólar, þá voru ferðir til Kaupmannahafnar ófáar eftir að Ragnheiður flutti þangað, ófáar borgarferðir og stundum var farið lengra eins og t.d. á fimmtugsafmælisári þeirra, þegar þau fóru til Kína.

Útför Svanhildar fer fram frá Neskirkju við Hagatorg í dag, 12. september 2024, klukkan 15.

Með sorg í hjarta kveð ég elskulegu Svanhildi systur mína sem fór alltof snemma frá okkur og er söknuðurinn mikill hjá okkur fjölskyldunni. Ég minnist systur minnar með miklum kærleik og hlýju, alltaf svo kát og hress, hafði góða nærveru og var mjög félagslynd enda var hún vinmörg. Hún ólst upp í sveitinni ásamt okkur systkinum og var næstyngst, byrjaði snemma að hjálpa til við sveitastörfin og sást snemma hversu dugleg hún var. Hún fór suður í framhaldsskóla, en var fyrir norðan á sumrin fyrst um sinn að vinna við búskapinn og við afleysingar í eldhúsinu á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Hún var mjög skipulögð og góður starfskraftur, hvort sem það var í vinnu eða við annað sem hún tók sér fyrir hendur.

Systir mín var afar dugleg að rækta fjölskylduböndin og dugleg að hafa samband og gleðja fólkið sitt. Hún kom miklu í verk, alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd ef eitthvað stóð til. Hún hafði gaman af að hafa fólk í kringum sig. Hún var mjög góður kokkur og þau hjónin voru annáluð fyrir gestrisni, það var gott að koma á heimili þeirra hjóna og líka í sumarhúsið í Borgarfirðinum, þá var stundum tekið í spil og spilaður kani, sagðar háar sagnir, spilað djarft og mikil gleði. Svanhildur systir naut þess að ferðast og fór mikið innan lands og utan, það var skemmtileg ferð sem við Eiríkur fórum með þeim hjónum til Glasgow ásamt fleirum úr stórfjölskyldunni og öðru fólki. Það var líka farið saman í skemmtilegar ferðir innanlands og líka svo margt annað sem við gerðum saman.

Ég vil þakka elsku Svanhildi systur minni samfylgdina í gegnum árin og við fjölskyldan mín eigum svo dýrmætar minningar um hana sem við munum varðveita.

Elsku Bárður, Ragga, Mads, Máni, Nói og Helgi, innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Hvíl í friði.

Birna Jónsdóttir.

Svanhildur mágkona mín er látin eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Kærleikur, góðvild, dugnaður, ósérhlífni og frændrækni eru orð sem lýsa henni vel. Svanhildur var dugleg að rækta samband við ættingja og vini. Hún stóð oft fyrir hittingi og/eða matarboði að ógleymdu þorrablóti á heimili þeirra hjóna. Enginn fór svangur frá borði á því heimili. Þá voru bingóin sem hún stóð fyrir og stjórnaði af mikilli röggsemi ógleymanleg og skemmtileg, ekki síst fyrir ungu frændur og frænkur hennar. Er ég var í iðnnámi í Iðnskólanum leigði ég hjá þeim Svanhildi og Bárði en þau bjuggu þá á Reynimelnum. Þar var gott að vera og var Svanhildi umhugað um að mér liði sem best á meðan á dvöl minni stóð. Þegar mér bárust þær fregnir að Svanhildur hafi greinst með illvígt krabbamein og tæki því af miklu æðruleysi, kom þetta vísukorn.

Gengur þú um grýttan veg

geði heldur þínu.

Þig ég geymi, yndisleg,

í hugarfylgsni mínu.

Hvíl í friði

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, Bárður, Ragga og fjölskylda og Helgi.

Kveðja,

Hermann Ívarsson.

Með andláti Svanhildar móðursystur minnar hefur enn eitt skarð verið höggvið í systkinahópinn frá Bjarghúsum, og við frændsystkinin aftur minnt á óvægni krabbameinssjúkdómsins.

Svanhildur – eða Frú Svaken eins og hún var stundum kölluð á heimili okkar í Arahólum – var mér ekki einungis móðursystir eða frænka, heldur á margan hátt stóra systir. Þetta á í raun við um allan systkinahópinn, sem alla tíð hefur verið mjög samheldinn. Hún tók á móti mér í Bjarghúsum þegar ég fór að vera þar einn á sumrin, við 5-6 ára aldur. Þá var hún sjálf rétt um fermingu. Í minningunni var herbergið hennar – oft kallað milligangurinn – þakið alls konar myndum af tónlistarstjörnum, og ef mig misminnir ekki var The Osmonds í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún fór í 9. bekk í Hólabrekkuskóla og bjó líka hjá okkur í Arahólum fyrstu námsárin sín í Fjölbraut í Breiðholti. Mér fannst hún alveg ferlega ströng. Það var ekki gefinn neinn afsláttur þegar ég kom heim á daginn, oft skítugur upp fyrir haus eftir einhver ævintýri í hálfbyggðu Breiðholtinu. Og skyrið sem mamman tjáði henni að ég skyldi borða í hádeginu – já, það var ekki til umræðu annað en að það skyldi niður í maga. Lífið var ekki bara kókómjólk og snúðar. Þetta var að sjálfsögðu allt gert af væntumþykju. Þó svo að ég hafi í stríðni minni reynt að espa hana upp og reyna að fá mínu framgengt vissi ég að henni þætti alveg ógurlega vænt um litla frænda sinn og vildi allt fyrir hann gera.

Ég fékk að fylgjast með þegar fyrsta íbúðin var keypt, í Spóahólum, þar sem bæði Tóta og Daði bjuggu um hríð. Svanhildur var einstaklega drífandi og dugmikil, vann alla tíð með skólanum, og hafði seinna fleiri en eina vinnu í senn, allt til þess að tryggja sér og sínum umgjörð og öryggi. Þegar hún keypti fyrsta bílinn fékk ég að fara með norður í réttir í mjög svo eftirminnilega ferð. Ég var ekki nema 11-12 ára, en eitt af því sem enn stendur upp úr, áratugum seinna, er samtalið okkar þegar við riðum heim úr Þverárrétt með Bjarghúsahestana seint að kvöldi eftir langan og strangan gangnadag. Við töluðum um lífið í sveitinni og hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. Nokkrum árum seinna var farin önnur réttaferð norður í land, og þá var með í för Bárður, kærasti Svanhildar. Á suðurleið fór bíllinn að hökta á miðri Holtavörðuheiði. Við komum okkur niður í Hvalstöð, þar sem kúplingin söng sitt síðasta. Þá var hringt í Daða sem kom ásamt pabba og dró okkur í bæinn, seint að kvöldi. Þar með var Bárður búinn að stimpla sig inn í fjölskylduna. Hjálpsemi og samheldni systkinahópsins hefur verið okkur frændsystkinunum ómetanleg fyrirmynd. Dugnaði og eljusemi Svanhildar hefur ávallt verið beint að öðrum en henni sjálfri, bæði vinum og ættingjum. Hún hefur haldið þétt utan um fjölskylduhópinn sinn, og þá sérstaklega eftir að mamma og Tóta féllu frá fyrir réttum 11 árum. Það hefur verið ómetanlegt. Elsku Bárður, Ragga, Helgi og fjölskylda – innilegar samúðarkveðjur.

Árni og fjölskylda.

„Takk elsku frænka, fyrir að vera til fyrirmyndar.“ Þannig hófst kveðjan sem Svanhildur sendi í pósti til mín á handskrifuðu korti með dásamlega fallegum orðum.

Þannig var Svanhildur, ekki einungis að hún hugsaði fallega til annarra, hún framkvæmdi það sem við flest öll hugsum um að væri gefandi og gott að gera. Hún hafði einstakt lag á að raða saman fallegum, hvetjandi orðum, ekki til að geyma hjá sér heldur deila með þeim sem henni þótti vænt um. Talaði fallega til fólks og um fólk.

Í hvert einasta skipti sem við hittumst eða heyrðumst þá hlóð hún að mér hvatningarorðum og hrósi. Hennar einstaki hæfileiki gerði það að verkum að eftir samtal okkar á milli þá var maður fullhlaðinn orku og andlegu nesti til næstu mánaða.

Við frænkurnar fórum fyrst að starfa saman þegar hún tók á móti mér í stjórn Þroskaþjálfafélags Íslands. Þar hafði hún starfað, hún kenndi mér og leiðbeindi og við störfuðum þar áfram saman um skeið. Skörp í ættfræðinni og var ekki lengi að staðfesta við mig að við værum frænkur, þremenningar. Mikið óskaplega sem mér þótti vænt um það nýútskrifuðum þroskaþjálfanum að hafa reyndan fagmann sem fyrirmynd og að hún væri frænka mín. Það passaði svo virkilega vel að geta talað um Svanhildi frænku, í því fólst að mér fannst upphefð og traust.

Okkar síðasta samtal snerist um óvænt og óvægin veikindi, svo alvarleg að ekki varð umflúið að gera ráð fyrir að við hittumst ekki aftur þótt stefnt væri að því skömmu seinna. Orð hennar og yfirvegun við að takast á við lífsógnandi áfall er einungis á færi konu eins og Svanhildar, sjá björtu hliðina, lausnirnar og hvað væri best fyrir aðra, fjölskylduna, vinina.

Takk elsku frænka fyrir að vera fyrirmynd og að vera til fyrirmyndar. Ég geri mitt besta til að halda jákvæðu fallegu hugmyndafræðinni þinni á lofti og vonandi með þeim árangri sem þú náðir.

Elsku Bárður, Ragnheiður, Helgi og fjölskylda, minning um yndislega konu mun lifa á meðal okkar allra.

Guðný Stefánsdóttir.

Svanhildur Jónsdóttir frá Bjarghúsum í Vesturhópi var bekkjarfélagi okkar í Laugarbakkaskóla sem var lítill sveitaskóli norður í Miðfirði. Við fylgdumst að alla grunnskólagönguna.

Nú hefur Svanhildur kvatt okkur alltof snemma eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein. Enn og aftur hefur sá vágestur höggvið skarð í fjölskylduna frá Bjarghúsum. Við eigum ótal góðar minningar um Svanhildi, hún var límið í litla hópnum okkar og passaði upp á að við hittumst af og til í gegnum árin. Svanhildur var lífið og sálin þar sem hún var, mjög kát og það var sérstaklega gaman að vera í hennar félagskap. Henni var mjög annt um velferð annarra og hún var hjálpsöm svo af bar og nutu margir þess. Hún var leiðtogi með sinn yndislega hressileika, hlátur og gleði. Svanhildur var mjög félagslynd og átti marga vini og var dugleg að rækta samband við þá. Við bekkjafélagar hennar fengum að njóta þess og þau Bárður voru höfðingjar heim að sækja. Stolt hennar og gleði var fjölskyldan og það kom alveg sérstakur gleðiglampi í augu hennar þegar að hún talaði um litlu ömmudrengina sína Mána og Nóa. Missir þeirra allra er mikill. Hvíldu í friði elsku bekkjasystir og vinkona, hafðu þökk fyrir allt og allt. Við vottum Bárði, Helga, Röggu og fjölskyldu, aldraðri móður og systkinum og öllum ástvinum okkar dýpstu samúð. Minningar um yndislega konu munu ylja um ókomna tíð.

Fyrir hönd bekkjarfélaga 1961 Laugarbakkaskóla,

Dóra Kristín Traustadóttir.

Kærleikur, umhyggja, tryggð, rausnarskapur og gleði. Þessi orð koma upp í huga mér þegar ég leiði hugann að vináttu okkar Svanhildar. Orðin eiga einnig vel við Svanhildi sem persónu, hvort heldur ég hugsa um hana sem ömmu, móður, eiginkonu, dóttur, systur eða vinkonu.

Leiðir okkar Svanhildar lágu saman þegar við áttum báðar athvarf hjá Guðrúnu systur hennar og Dóra frænda mínum á fyrstu árum okkar í framhaldsskóla. Hún aðeins eldri en ég og tók því að sér að leiða mig í gegnum fyrstu dagana í skólanum. Hún hafði verið í mínum sporum árinu á undan, kom úr fámennum skóla úti á landi og hóf nám í mjög fjölmennum framhaldsskóla, auk þess þekkti hún áfangakerfi skólans sem var nýjung á þeim tíma. Af reynslu sinni stýrði hún mér til aukins þroska á fyrstu mánuðum framhaldsskólaáranna. Með okkur tókst einlæg vinátta sem varað hefur síðan.

Í gegnum tíðina höfum við haft þann sið að kíkja eftir því hvort Svanhildur og Bárður séu í Kolásnum þegar við keyrum Borgarfjörðinn. Höfðinglegar móttökur og ánægjulegar samverustundir í Kolásnum eru okkur dýrmætar minningar. Engu skipti hvort við boðuðum komu okkar eða komum með litlum fyrirvara.

Heimsóknir þeirra hjóna til okkar í Bolungarvík eru minningar sem lifa með okkur í fjölskyldunni. Í hugum barna okkar eru heimsóknir þeirra í kringum fermingarnar eftirminnilegastar þó svo það hafi komið fyrir að veður setti strik í reikninginn. Svanhildi tókst samt að gera fermingarbarninu minnisstæða heimsókn.

Boðberar kærleikans

eru jarðneskir englar

sem leiddir eru í veg fyrir fólk

til að veita umhyggju,

miðla ást,

fylla nútíðina innihaldi

og tilgangi,

veita framtíðarsýn

vegna tilveru sinnar

og kærleiksríkrar nærveru.

Þeir eru jákvæðir,

styðja,

uppörva og hvetja.

Þeir sýna hluttekningu,

umvefja og faðma,

sýna nærgætni

og raunverulega umhyggju,

í hvaða kringumstæðum sem er

án þess að spyrja um endurgjald.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Með sorg í hjarta kveðjum við kæra vinkonu sem kveður alltof fljótt. Dýpstu samúðarkveðjur sendum við Bárði, Röggu, Mads, Mána, Nóa, Helga sem og systkinum og móður Svanhildar.

Helga og fjölskylda.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann nú þegar ég þarf að kveðja elsku Svanhildi móðursystur mína. Öll matarboðin og gæðastundirnar á Kaplaskjólsveginum. Það var alltaf svo notalegt að koma til Svanhildar, enda alltaf tekið á móti manni með brosi og hlýju faðmlagi. Hvort sem það var stórt fjölskyldumatarboð eða bara smá spjall yfir kaffibolla þá var alltaf yndislegt að koma þangað.

Svanhildur var einstaklega fjölskyldurækin manneskja. Hún naut þess að hafa fólkið sitt í kringum sig og sýndi öllum athygli, sérstaklega börnunum. Hún hélt fjölskyldubingó fyrir stórfjölskylduna tvisvar á ári, á jólum og páskum, sem vakti mikla lukku, hjá ungum sem öldnum. Hún passaði upp á að börnin fengju alltaf eitthvert smáræði með heim, þó svo að þau hefðu ekki fengið bingó. Hún óskaði þess að þessari hefð yrði haldið áfram, því að hún vildi að fólkið í þessari stóru fjölskyldu okkar þekktist.

Máni og Nói voru augasteinarnir hennar. Hún elskaði að vera amma og passaði vel upp á tengslin við ömmustrákana sína, þó að þeir byggju erlendis.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Svanhildi betur á fullorðinsárum og urðum við miklar vinkonur. Það var gott að eiga hana að, sérstaklega eftir að móðir mín, systir hennar, lést fyrir nokkrum árum. Hún hélt svo vel utan um okkur systkinin og var alltaf til staðar. Missirinn er mikill en ég geymi allar minningarnar og samtölin okkar í hjartanu.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Bárðar, Röggu, Helga, Mads og Mána og Nóa.

Erla Rún Þórhildardóttir.