Veiðar Einungis fengust 233 krónur fyrir kílóið af grásleppu á mörkuðum á þessari vertíð, sem olli dræmri sjósókn smábátasjómanna.
Veiðar Einungis fengust 233 krónur fyrir kílóið af grásleppu á mörkuðum á þessari vertíð, sem olli dræmri sjósókn smábátasjómanna. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Síðasti dagur grásleppuvertíðar var 12. ágúst síðastliðinn og heimilt var að stunda veiðarnar í 55 daga, mun fleiri en undanfarin ár. Hins vegar sáu færri smábátar sér fært að stunda veiðar en verið hefur og aðeins 140 bátar lönduðu afla á…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is.

Síðasti dagur grásleppuvertíðar var 12. ágúst síðastliðinn og heimilt var að stunda veiðarnar í 55 daga, mun fleiri en undanfarin ár. Hins vegar sáu færri smábátar sér fært að stunda veiðar en verið hefur og aðeins 140 bátar lönduðu afla á vertíðinni og það þarf að fara aftur til ársins 2007 til að finna álíka sjósókn.

Lágt grásleppuverð hafði mest áhrif á þátttökuna, en meðalverð á mörkuðum var 233 krónur. Það er nánast óbreytt á milli ára og hæst var verðið árið 2019 en þá fengust 322 krónur fyrir kílóið af óslægðri grásleppu.

Vertíðin skilaði tæpum 3.700 tonnum, sem jafngildir sjö þúsund tunnum af söltuðum hrognum, og nam aflaverðmætið um 800 milljónum króna.

Spurður nánar um þátttökuna segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hana stafa fyrst og fremst af markaðsverðinu.

„Þegar verð er lágt fara fáir bátar á grásleppu. Það hefur sjálfsagt spilað inn í þessi kvótaumræða um grásleppuna, en verðið og markaðurinn spiluðu stærstu rulluna í því hversu dræm þátttakan var á þessari vertíð,“ segir Örn í samtali við Morgunblaðið.

Að hans sögn hefði mátt selja meira af grásleppuhrognum á þessari vertíð og segist hann vona að það verði meiri vöntun á mörkuðum á þeirri næstu.

Spurður hvaða afurðaverð myndi gera það að verkum að sjósóknin glæddist segir Örn að bátarnir verði að fá hærra verð en 233 krónur.

„Ef það fengjust allavega 300 krónur fyrir hrognin væri það engin spurning að slíkt verð myndi glæða sjósóknina hjá sjómönnum,“ segir Örn að lokum.