„Það er eins og málsmeðferðin sem Landsvirkjun fékk, á Alþingi, hjá Skipulagsstofnun og Orkustofnun, sé einfaldlega þannig að pappírarnir frá henni voru stimplaðir og afgreiddir. Það voru verulega ámælisverð vinnubrögð viðhöfð alls staðar í…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er eins og málsmeðferðin sem Landsvirkjun fékk, á Alþingi, hjá Skipulagsstofnun og Orkustofnun, sé einfaldlega þannig að pappírarnir frá henni voru stimplaðir og afgreiddir. Það voru verulega ámælisverð vinnubrögð viðhöfð alls staðar í ferlinu,“ segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í samtali við Morgunblaðið, en sveitarstjórnin kærði í gær til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfi sem Orkustofnun veitti fyrir vindorkuverinu Búrfellslundi sem Landsvirkjun áformar að byggja.

„Að okkar mati er öruggt að leyfið verður fellt úr gildi og fari svo þýðir það að Landsvirkjun verður að sækja um virkjunarkostinn aftur í rammaáætlun. Það þýðir að Búrfellslundur verður ekki byggður í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir Haraldur Þór. „Ég held að menn verði að byrja á því að klára boðaða stefnumörkun í vindorku, áður en menn byrja svona vegferð. Þarna kemur kannski tækifæri til þess að byrja einu sinni á réttan hátt í svona mikilvægu máli,“ segir hann.

Ekki fjallað um virkjunarkost

Haraldur Þór segir að nú hafi aðilar máls 30 daga til að gera athugasemdir við kæruna og úrskurðarnefndin hafi allt að sex mánuði til að skila niðurstöðu.

Hann segir að í aðdraganda þessa verkefnis hafi Landsvirkjun farið í útboð og unnið að því eins og öll leyfi séu komin og stóra spurningin sé sú hvort fyrirtækið treysti sér til að halda áfram þegar rök sveitarstjórnarinnar í málinu liggja fyrir, vitandi það að hugsanlega verði leyfið fellt úr gildi.

Haraldur Þór segir að komið sé í ljós að allar þær stofnanir sem að málinu komu hafi brugðist, Alþingi, Orkustofnun og Skipulagsstofnun.

Hann segir að við afgreiðslu málsins á Alþingi hafi meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar tekið fram að verkefnastjórn rammaáætlunar hefði ekki fjallað um virkjunarkostinn, en segi að þetta sé samt sami kosturinn og fjallað var um í 3. áfanga rammaáætlunar. Þar hafi hins vegar verið fjallað um 200 megavatta vindorkuver sem rísa átti í tveimur sveitarfélögum, en síðan hafi orkukostinum verið breytt í 120 megavatta vindorkuver, án þess að verkefnastjórnin hefði afgreitt það formlega. Búrfellslundur sé því ekki í nýtingaráætlun rammaáætlunar og telur Haraldur Þór einboðið að virkjunarleyfið verði úr gildi fellt.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson