Meiri afli Mark er 90 metra langur, 4.700 tonna frystitogari sem var með 427 tonn af grálúðu í síðasta túr.
Meiri afli Mark er 90 metra langur, 4.700 tonna frystitogari sem var með 427 tonn af grálúðu í síðasta túr.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorvaldur Svavarsson, skipstjóri frystitogarans Mark, sem gerður er út frá Bremerhaven í Þýskalandi, umbylti aflabrögðum þegar útgerðin BP í Hollandi samþykkti að fjárfesta í íslenskum Marport-veiðarfæranemum í hlera og troll

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Þorvaldur Svavarsson, skipstjóri frystitogarans Mark, sem gerður er út frá Bremerhaven í Þýskalandi, umbylti aflabrögðum þegar útgerðin BP í Hollandi samþykkti að fjárfesta í íslenskum Marport-veiðarfæranemum í hlera og troll.

Þegar Morgunblaðið náði tali af Þorvaldi í gær var hann staddur í Þýskalandi á leiðinni út á sjó og stefnan sett á grálúðu- og karfaveiðar við vesturströnd Grænlands.

„Þetta er heljarinnar 90 metra langur, 4.700 tonna, tveggja trolla togari með 25 í áhöfn. En það er rétt að fyrir breytingarnar veiddi þessi stóri togari bara 100 tonn af grálúðu í hverjum túr. Hins vegar erum við núna að veiða 350 til 400 tonn af grálúðu í hverri veiðiferð. Til að mynda í síðasta túr fengum við 425 tonn af grálúðu eftir 17 daga á veiðum,“ segir Þorvaldur.

Nýju græjurnar gerðu útslagið

Aðspurður segist hann ekki í nokkrum vafa um að nýir hlerar og íslensku nemarnir hafi gert gæfumuninn í að umbylta aflabrögðum.

„Það breyttist margt eftir að ég fékk þessar breytingar í gegn. Það má segja að útgerðin hafi verið föst í fortíðinni með veiðarfærin og tæknina. Eftir að það var gert hefur gengið rosalega vel hjá okkur,“ segir Þorvaldur léttur í bragði.

Aðspurður segir hann að útgerðin hafi sem betur fer hlustað á ráðleggingar sínar.

„Þegar ég byrjaði um áramótin setti ég það skilyrði að fá nýja hlera frá Morenot og svo fá Marport-græjunar líka. Útgerðin sem betur fer keypti þennan búnað og þá gjörbreyttust veiðarnar. Til að mynda sýna Marport-nemarnir hvar hlerarnir eru í sjónum, hvað langt frá botni og þess háttar. Það var algjör bylting að fá þennan veiðarfærabúnað,“ segir Þorvaldur.

Spurður hvort útgerðin hafi ekki verið ánægð með breytingarnar segir Þorvaldur að það hljóti að vera.

„Staðan hjá okkur um þessar mundir er sú að við erum verða búnir með grálúðu- og karfakvótann á austurströnd Grænlands. Það hefur aldrei gerst áður hjá útgerðinni. Núna erum við búnir að færa okkur á vesturströndina og erum með um 1.200 tonna kvóta þar,“ segir hann.

Hann segir aflaverðmætið hafa verið með ágætasta móti enda hafi fiskast í síðustu tveimur túrum tæp þúsund tonn af grálúðu og 240 tonn af karfa.

„Það er ágætt upp úr þessu að hafa, þar sem í síðasta túr vorum við 17 daga á veiðum og fiskuðum 24,8 tonn af grálúðu á dag að meðaltali. Það er ekki hægt að kvarta undan svoleiðis veiði“.

Hann segir að líkja megi grálúðuveiðinni við veiðina eins og hún var hérna á Íslandi í gamla daga.

„Grálúðuveiðin þarna á Grænlandi er ekkert ósvipuð því og hún var hér á landi á níunda áratugnum. Þá mokuðu íslensku togararnir upp grálúðunni á Hampiðjutorginu og ég fékk sömu tilfinninguna núna,“ segir Þorvaldur að lokum.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson