Andspænis „Viðfangsefni Líkaminn er skál er þungt. Þyngd efnisins nær þó ekki almennilega í gegn, til þess er verkið of ljúft,“ segir í rýni.
Andspænis „Viðfangsefni Líkaminn er skál er þungt. Þyngd efnisins nær þó ekki almennilega í gegn, til þess er verkið of ljúft,“ segir í rýni. — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Líkaminn er skál ★★★½· Eftir Helgu Arnalds og Matteo Fargion. Meðhöfundar: Eva Signý Berger og Valgerður Rúnarsdóttir. Leikstjórn og kóreógrafía: Matteo Fargion og Helga Arnalds. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger og Helga Arnalds. Myndbönd: Helga Arnalds og Eva Signý Berger. Texti: Helga Arnalds, Valgerður Rúnarsdóttir og Eva Signý Berger. Tónlist: Matteo Fargion. Sönglög: Francesca Fargion. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Flytjendur: Helga Arnalds og Valgerður Rúnarsdóttir. Leikhópurinn 10 fingur frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 5. september 2024.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Fyrsta frumsýning vetrarins í Tjarnarbíói í ár var sýningin Líkaminn er skál, dansverk með leir, eftir Helgu Arnalds og Matteo Fargion. Helga er leikhúsfólki hér á landi vel kunn. Leikhópurinn hennar, 10 fingur, sem er núna á sínu þrítugasta leikári, hefur sett upp sýningar eins og Lífið (þar sem unnið var með mold), Stúlkan sem stöðvaði heiminn (plast) og Skrímslið litla systir (pappír) sem allar hafa hlotið verðskuldaða athygli. Mörg verkanna hafa verið fyrir börn en núna eru það fullorðnir sem sköpunin talar til.

Í verkum leikhópsins hefur áhersla verið á samspil myndlistar og leiklistar; ólíkur efniviður sem tengist meira myndlistarsýningum en sviðsverkum hefur leikið stór hlutverk. Föst efni og eðli þeirra, mold, pappír, plast, leir, eru upphafspunkturinn í sköpun verkanna og grunnurinn að því sem síðar verður. Líkaminn er skál er hér engin undantekning. Leirinn hafði orðið í upphafi ferilsins en það sem hann hafði áhugavert fram að færa var síðan mótað út frá lögmálum tónlistarsköpunar og kóreógrafíu en þar kom Matteo Fargion, hinn höfundur verksins, sterkt inn.

Matteo Fargion er tónskáld, flytjandi og kennari sem hefur í gegnum árin lagt áherslu á að gera tónlist fyrir dansverk en áhugi hans á dansi vaknaði eftir að hann sá sýningu með Merce Cunningham í London. Fargion hefur átt gjöfult samstarf við marga danshöfunda en hæst ber samstarf hans og Jonathans Burrows undir merkjum Burrows&Fargion. Verkin þeirra eru á mörkum þess að vera dans, tónlist, gjörningur og/eða gamanleikur. Í upphafi samstarfsins var verkaskiptingin á milli þeirra skýr; danshöfundurinn sá um danssmíði, tónskáldið samdi síðan tónlistina við dansinn. Smátt og smátt riðlaðist þetta kerfi og samstarfið varð fljótandi og á jafningjagrundvelli. Fargion steig meira inn í danssmíðina og einnig upp á sviðið sem flytjandi. Hann nýtti sér lögmál tónsmíðanna í danssköpuninni og hefur í seinni tíð kennt tæknina sem hann hefur þróað í þá veru.

Líkaminn er skál er um reynsluna og tilfinningarnar sem fylgja því að upplifa áfall sem verður til þess að heimurinn sem við þekkjum hrynur og ekkert verður eins og það var. Áfallið, sem getur stafað af ýmsu, eins og ástvinamissi, heilsutjóni eða því að missa heimili sitt í náttúruhamförum, riðlar gangverki lífsins og vekur einstaklinginn til vitundar um að ekkert er sjálfgefið, ekki einu sinni lífið sjálft. Kveikjan að verkinu er reynsla Helgu af því að greinast með krabbamein og hvernig það breytti sýn hennar á lífið og framtíðina.

Efninu er komið til skila á fjölbreyttan hátt. Grunnurinn er leikur með leirinn. Flytjendurnir standa hlið við hlið eða hvor við sinn endann á borði og gera, fullkomlega samtaka, einfalda hluti úr leirnum. Allar hreyfingar þeirra eru formaður í sterka kóreógrafíu sem einkennist af endurtekningum og markvissri hrynjandi. Inn á milli setjast flytjendurnir niður og horfa með áhorfendum á myndband sem birtist á skjá, undir myndbandinu hljómar söngur á ensku. Þeir taka sér líka stundum stöðu við míkrófóna sem stillt er upp á sviðinu og fara með texta á íslensku.

Leirinn, áferð hans, viðmót flytjendanna gagnvart honum og hvernig og hvað þeir móta úr honum segir áhugaverða sögu. Þessi saga er ekki endilega ein og sú sama hjá öllum áhorfendum en leirinn ber uppi framvindu verksins á skemmtilegan hátt. Hann er í upphafi ferskur og spennandi en endar blautur og laus í sér og þar með erfiður að móta. Textinn í verkinu gefur vísbendingu um grunnefni sögunnar og styður upplifunina af þeim köflum þar sem leirinn er í aðalhlutverki án þess að vera línuleg frásögn. Myndbandsbrotin mynduðu enn eitt lagið af merkingu ásamt sönglögunum sem voru spiluð með.

Viðfangsefni Líkaminn er skál er þungt. Þyngd efnisins nær þó ekki almennilega í gegn, til þess er verkið of ljúft. Verkið rennur vel þrátt fyrir að skipta sér úr einu tjáningarformi í annað í gegnum alla sýninguna. Kóreógrafían, byggð á einföldum hreyfingum, var þétt og hrynjandin, taktföst og endurtekningasöm, bæði í tónlist og hreyfingum, var markviss allan tímann. Tónlistin í verkinu var mjög falleg og söngurinn ekki síðri. Það truflaði þó að söngtextarnir voru á ensku og höfðu því ekki eins sterk áhrif og textarnir sem voru fluttir á sviðinu. Það að textarnir væru ekki allir á sama tungumálinu hafði líka áhrif því tungumál hafa sinn blæ og orku og skapa því ólíka upplifun. Umgjörðin var vel heppnuð, einföld og stílhrein nema búningarnir voru ekki spennandi. Helga í svartri blússu og bláum gallabuxum en Vala í ljósum gallabuxum og ryðrauðum hlýrabol. Þeir voru hvorki þannig gerðir að þeir yrðu heild með leikmyndinni né nógu afgerandi til að skapa spennu fyrir augað.

Líkaminn er skál er góð sýning. Það vantar þó upp á að þyngd viðfangsefnisins komist til skila.