Aðalhljómsveitarstjórinn „Ég er virkilega spennt fyrir þessu afmælisári,“ segir hin finnska Eva Ollikainen.
Aðalhljómsveitarstjórinn „Ég er virkilega spennt fyrir þessu afmælisári,“ segir hin finnska Eva Ollikainen. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það eru sannarlega dásamlega hátíðlegir tímar fram undan með fjölda hápunkta,“ segir Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ), spurð út í 75 ára starfsafmæli sveitarinnar á næsta ári sem fagnað verður á margvíslegan hátt í vetur

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Það eru sannarlega dásamlega hátíðlegir tímar fram undan með fjölda hápunkta,“ segir Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ), spurð út í 75 ára starfsafmæli sveitarinnar á næsta ári sem fagnað verður á margvíslegan hátt í vetur. Blaðamaður settist niður með Ollikainen á skrifstofu hennar í Hörpu og þáði hjá henni bolla af rjúkandi heitu tei áður en viðtalið hófst. Skemmtum við okkur konunglega yfir því að ferðast báðar með okkar eigið te hvert sem við förum og gleymdum við okkur því aðeins í fróðlegu spjalli um hinar ýmsu tetegundir áður en við komum okkur að aðalatriðinu, sjálfri efnisskrá vetrarins.

Starfsár SÍ hófst að þessu sinni hinn 16. ágúst á tónleikum með Páli Óskari og sem fyrr var boðið upp á opið hús á Menningarnótt. Þá voru tónleikarnir Klassíkin okkar á sínum stað og var þeim að venju sjónvarpað á RÚV. Fyrstu tónleikar Ollikainen á þessu starfsári fóru hins vegar fram fyrir sléttri viku þegar hún stjórnaði Wagner-veislunni með Ólafi Kjartani Sigurðarsyni. „Ólafur Kjartan er staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitarinnar og er algjörlega frábær. Ég naut þess í botn að stjórna þessum tónleikum með honum enda er hann einn fremsti Wagner-barítóninn í heiminum um þessar mundir.“

Íslendingar afar listrænir

Af öðrum hápunktum starfsársins nefnir Ollikainen tónleika með bandaríska sellóleikaranum Yo-Yo Ma sem fram fara í Eldborgarsal Hörpu 24. október. „Yo-Yo Ma er að heimsækja Ísland í fyrsta sinn, sem er mikill fengur fyrir okkur, en á tónleikunum flytur hann sellókonsert Elgars,“ segir hún en sjálf mun Ollikainen sjá um hljómsveitarstjórn þetta kvöld. „Síðan verða að sjálfsögðu sérstakir afmælistónleikar í byrjun mars þar sem okkar eini sanni Víkingur Heiðar Ólafsson leikur píanókonsert Brahms sem er alveg stórkostlegt. Einnig má ég til með að nefna vissa hápunkta hjá Sinfóníunni úr þýsku tónbókmenntunum eins og Ein Heidenleben eftir Strauss, Sinfóníu nr. 9 eftir Mahler og Sinfóníu nr. 4 eftir Bruckner.“

Segir hún virkilega ánægjulegt að sjá og finna áhuga Íslendinga á klassískri tónlist en að hennar sögn er landinn ansi listrænn og menningarlegur. „Ef þú horfir bara á fólksfjöldann og svo á fjölda myndlistarmanna, kvikmyndatökumanna, rithöfunda, tónskálda, einleikara og kvikmyndatónskálda, þá er gríðarlega skapandi fólk hér á landi. Mér finnst alla vega alveg dásamlegt að vera hérna.“

Risar samtímans

Aðspurð hvort einhverjir viðburðir á efnisskránni séu henni sérstaklega hjartfólgnir nefnir Ollikainen tvenna tónleika. „Annars vegar þegar við spilum aðra sinfóníu Thomasar Larcher og hins vegar þegar við spilum allar sinfóníur Arvos Pärt á einum tónleikum. Ég myndi segja að þessi tvö tónskáld væru risar samtímans. Thomas Larcher, sem tónskáld, er ekki eins þekktur enn og Arvo Pärt en verk hans eru mjög virtúósísk og flókin á sama tíma og þau eru mjög hjartnæm.“ Segir hún aðra sinfóníu Larchers nokkurs konar minnisvarða um flóttafólk sem drukknað hafi í Miðjarðarhafinu á síðustu árum.

„Þessi sinfónía er nú orðin 10 ára gömul en þegar hann samdi hana var þetta tiltekna vandamál algengt. Enn í dag fyrirfinnst þetta vandamál, sem fær mann til að hugsa um heiminn og af hverju sumir eru svo lánsamir að njóta forréttinda í lífinu en aðrir ekki. Af hverju getum við ekki jafnað þetta óréttlæti út?“ Bætir Ollikainen því við að fyrst og fremst sé verkið afar hjartnæmt og stórkostlegt þótt fólk þekki ekki endilega baksögu þess. „Ég hlakka mikið til þessara tónleika,“ segir hún en önnur sinfónía Larchers verður flutt hinn 10. október.

„Einnig hlakka ég mikið til þegar við flytjum allar fjórar sinfóníur Pärts í vor á einum tónleikum en þessi fjögur verk eru mjög ólík. Þau spanna líka langan tíma. Það fyrsta var samið á sjöunda eða áttunda áratugnum og það síðasta var samið nýlega. Við getum því heyrt hvernig stíllinn hans hefur breyst í gegnum árin. Hann er stórkostlegt tónskáld sem semur á þann hátt að hann skilur þig ekki eftir í kuldanum þegar þú hlustar. Fyrir mér er það mjög mikilvægt í samtímatónlist sem og auðvitað í allri tónlist.“

Áskorun að halda utan um alla

Spurð hvort hún sem aðalhljómsveitarstjóri SÍ hafi viljað leggja áherslu á verk eftir eitthvert eitt tónskáld í ár segir hún svo ekki vera þótt þýskra áhrifa gæti kannski líkt og oft áður í efnisskránni. „Þegar ég lít til baka á þau ár sem ég hef starfað sem aðalhljómsveitarstjóri hér þá höfum við í auknum mæli lagt áherslu á þýska tónlist, sem er sú tónlist sem er mér kærust og ég tengi mest við. Strax í æsku var þetta tónlistin sem ég kaus að spila á píanóið en hún hefur svo fylgt mér þessi tuttugu ár sem ég hef starfað sem hljómsveitarstjóri.“ Nefnir hún í framhaldinu að hún hafi ávallt verið mjög forvitin að eðlisfari og elski því áskoranir og að prófa nýja hluti. „En á endanum er þetta sú tónlist sem ég sný mér alltaf aftur að því hún lætur mér líða eins og ég sé heima hjá mér.“

Þá segir Ollikainen eina helstu áskorunina í starfinu vera að skilja manneskjuna og ná að halda utan um alla. „Í hverri einustu hljómsveit sem til er í heiminum finnur þú allt litróf mannkynsins; feimið eða mannblendið fólk, unga sem aldna, fólk sem er gríðarlega hamingjusamt en líka manneskjur sem af einhverjum ástæðum eru mjög leiðar. Í hópnum finnurðu líka heilsuhraust og sterkt fólk sem og fólk sem hefur mögulega einhverjar heilsutengdar áhyggjur. Þannig að hvernig nærðu að umfaðma alla í hljómsveitinni? Þú vilt auðvitað vera metnaðargjarn og bjóða upp á hágæðatónleika en hvernig kemstu á þann stað og færð alla með þér? Það er mesta áskorunin myndi ég segja.“

Bætir hún því við að þetta eigi sérstaklega við um þá sem séu að stíga sín fyrstu skref í hljómsveitarstjórn. „Á þeim tímapunkti skilur þú kannski ekki alltaf af hverju fólk er ekki að leggja sig 160% fram á hverri sekúndu því þú ert ungur og elskar það sem þú ert að gera og vilt því eðlilega að allir hugsi þannig líka.“

„Maður verður háður þessu“

Sjálf hefur Ollikainen fengist við hljómsveitarstjórn í tuttugu ár. Hún er fædd og uppalin í Finnlandi en býr nú í Danmörku ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra, níu og tíu ára. Komandi starfsár er hennar fimmta hjá SÍ en Ollikainen kemur til með að vera við stjórnvölinn allt til haustsins 2026 þegar Barbara Hanningan tekur við sem aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi.

En hverju skyldi hún vera stoltust af á liðnum fjórum árum í þessu starfi? „Ég er mjög stolt af mannlegu samskiptunum og þeirri staðreynd að ég er að hefja mitt fimmta starfsár hér. Við eigum mjög gott samband á sviðinu og berum mikið traust, hluttekningu og hlýju hvert til annars. En stoltust er ég þó af Hljómsveitarstjóraakademíunni sem er mitt hugarfóstur en Sinfó heldur nú í fimmta sinn námskeið í hljómsveitarstjórn undir minni stjórn og leiðsögn. Mér finnst algjörlega stórkostlegt að sjá hvað þetta unga fólk lærir mikið á stuttum tíma og hversu mikinn innblástur þau fá. Ég veit að minnsta kosti af tveimur ungum íslenskum tónlistarmönnum sem nú eru að læra hljómsveitarstjórn erlendis eftir að hafa verið hjá okkur í akademíunni. Íslendingar hafa hingað til ekki haft íslenskan aðalhljómsveitarstjóra en ég vona svo sannarlega að svo verði einn daginn. Að þau byrji hér í akademíunni, fari síðan utan í frekara nám og komi svo aftur til að stjórna Sinfóníuhljómsveitinni. Væri það ekki dásamlegt? Ég er því bæði stolt af þessu framtaki og leyfi mér að dreyma að það skili okkur íslenskum aðalhljómsveitarstjóra einn daginn,“ segir hún og nefnir í framhaldinu að það sé mjög mikilvægt að ungir tónlistarmenn fái tækifæri til að prófa hljómsveitarstjórn hér á landi. „Því ef þú hefur ekki prófað að stjórna hljómsveit eru litlar líkur á að þú sækir um slíkt nám erlendis.“

Innt í kjölfarið eftir því hvað sé helst heillandi við starfið stendur ekki á svari. „Þegar þú stendur á sviðinu er heili þinn og líkami að vinna á svo margan hátt. Í fyrsta lagi þarftu að hlusta og hafa eyrun sperrt og svo þarf heilinn í rauninni að setja sig í þrjár stellingar: Þú þarft að vita fyrir fram hvert þú ert að fara, vera í augnablikinu og geta horft til baka. Gerðist kannski eitthvað sem við þurfum mögulega að laga áður en við flytjum þetta verk næst? Þetta er líkamlega krefjandi starf en ég fæ mikið adrenalínkikk út úr því sem er alltaf jafn ánægjuleg tilfinning. Eigum við ekki bara að orða þetta þannig að maður verður háður þessu,“ segir hún og hlær.

Stórkostlegt tónlistarfólk

Verkefni Ollikainen á starfsárinu eru fjölbreytt og af ýmsum toga. Sjálf kemur hún til með að stjórna sjö tónleikum í Hörpu í vetur auk þess að fara með hljómsveitinni í innanlandsferð í vor þar sem spilað verður á Höfn, Vík og Selfossi og segist hún full eftirvæntingar fyrir efnisskrá vetrarins. Blaðamanni leikur í framhaldinu forvitni á að vita hvort hún eigi sér uppáhaldstónskáld en þeirri spurningu segist hún engan veginn geta svarað. „Ég hef oft verið spurð að þessu en svarið er alltaf það sama: Ég er allt of forvitin til að eiga mér uppáhaldstónskáld. Ég elska að kynna mér tónskáld sem ég hef ekki heyrt um áður og ég yrði á endanum brjáluð ef ég ynni bara með verk eftir eitt skáld.“ Þá segir hún sveitina vera í toppformi og á mjög góðum stað. „Ég er gríðarlega spennt fyrir þessu afmælisári því hljómsveitin spilar virkilega vel og býr yfir miklum sveigjanleika. Hún státar af stórkostlegu tónlistarfólki sem er með góðan samhljóm, andar saman og stefnir allt í sömu átt í tónlistinni. Eitt það dýrmætasta er hvað þetta eru tilfinningalega næmir tónlistarmenn og við þurfum að passa að halda fast í þann stórkostlega eiginleika.“

Allt eins og það á að vera

Ollikainen dregur djúpt andann þegar talið berst að því hvernig týpískur vinnudagur hjá henni líti út. „Ég vinn allt of mikið, það er bara staðreynd,“ segir hún og grípur létt fyrir andlitið. „Fjölskyldan mín er sammála þótt hún sé alveg sátt við það að ég sé svona mikið í burtu. Henni finnst hins vegar erfiðara að sjá hvað ég vinn mikið þegar ég er heima í Danmörku. Þá sit ég kannski inni í herbergi og læri ný verk eða svara tölvupóstum,“ segir hún og tekur fram að mestur tími fari í að læra ný verk, mæta á fundi og svara póstum. „Mér þykir einstaklega gaman að skipuleggja efnisskrár fram í tímann, bæði hér á landi og annars staðar, en ég vildi óska að það færi miklu minni tími í að svara öllum þessum tölvupóstum. En hvað getur maður svo sem gert í því?“

Segist hún þó mjög þakklát fyrir hversu auðvelt sé að ferðast á milli Íslands og Danmerkur. „Sem betur fer eru ansi margar flugferðir í boði á dag svo ferðamátinn gæti ekki verið hentugri. Ég er virkilega ánægð með þann tíma sem ég hef átt með Sinfó en ég held líka að eftir tvö ár sé komið að hárrétta tímapunktinum til að kveðja. Barbara Hannigan er alveg frábær listamaður svo hljómsveitin verður í góðum höndum sem gleður mig mikið. Hvað varðar minn eigin starfsframa lítur hann mjög vel út í augnablikinu. Á næstu misserum kem ég til með að vera mikið í Berlín og Vínarborg en ég er einnig með skipulagða tónleika í París, Zürich og London svo það er margt á döfinni og góðir hlutir að gerast. Framtíðin er því enn bjartari ef svo má að orði komast svo allt er eins og það á að vera,“ segir Ollikainen að lokum.

Nánari upplýsingar um starfsárið má finna á vefnum sinfonia.is.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir