Grá Allur leikstíll var fremur lágstemmdur og að mestu raunsæislegur. Litlar sem engar stílfærslur í sköpun persónanna, staðsetningum eða kóreógrafíu.
Grá Allur leikstíll var fremur lágstemmdur og að mestu raunsæislegur. Litlar sem engar stílfærslur í sköpun persónanna, staðsetningum eða kóreógrafíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef marka má sýninguna er skáldsagan Sjóndeildarhringurinn formuð eins og minningabók.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Það var ánægjulegt að upplifa hlustunina, hláturinn og í lokin fagnaðarlætin í þéttskipuðum Þjóðleikhússalnum fimmtudaginn 5. september síðastliðinn. Af skvaldrinu fyrir sýningu og í hléinu var ljóst að þar voru landar leikhópsins drjúgur hluti áhorfenda, komnir til að sjá sviðsetningu Michałs Kotanskis á leikgerð Radosławs Paczocha af rómaðri pólskri skáldsögu, Widnokrag (Sjóndeildarhringurinn) eftir Wiesław Mysliwski á vegum Stefan Zeromski-leikhússins. Ákaflega virðingarvert framtak að færa hinum stóra hópi Pólverja í íslensku samfélagi þetta sýnishorn af menningu heimalandsins, og gott að Þjóðleikhúsið sé komið í stöðugt samstarfssamband við leikhús þar í landi.

Ef marka má sýninguna er skáldsagan Sjóndeildarhringurinn formuð eins og minningabók. Maður á miðjum aldri rifjar upp uppvöxt sinn og þroskaár. Krefjandi heimilisaðstæður með föður sem ekki nær sér eftir hrylling stríðsins, móður sem reynir að halda öllu saman og bæta lífsaðstæður fjölskyldunnar í þröngri stöðu. Og svo skrautlegt og viðburðaríkt lífið í sveitinni hjá ættingjunum. Lífsmáti á hverfanda hveli, sem smám saman lokast fyrir drengnum eftir því sem hann menntast og fullorðnast. Gömul saga og síný.

Kjarninn er samt sem áður kjarnafjölskyldan og lífsbarátta hennar, með smá aðstoð frá góðhjörtuðum en dálítið klaufskum rútubílstjóra og tveimur léttlyndiskonum sem smita móðurina af tangóást og heilla líka strákinn um tíma á þroskabraut hans.

Efnið náði augljóslega til sinna á sýningunni í Þjóðleikhúsinu, en ólíkt því sem oft gerist með erlendar leikhúsheimsóknir var þetta frekar tíðindalítil sýning frá strangleiklistarlegum sjónarhóli. Ákaflega hefðbundin skáldsöguleikgerð þar sem ábyrgðin á að miðla efninu var næstum öll hjá sögumanninum. Aðkoma fjölskipaðs leikhóps – 24 leikarar á sviðinu, sem er fátíð sjón í dag utan stærstu söngleikja – var fyrst og fremst að „leikskreyta“ frásögn hans, fara með samtöl eða tilsvör sem virkuðu eins og beint upp úr bókinni þótt ógerningur sé að sannreyna það.

Allur leikstíll var fremur lágstemmdur og að mestu raunsæislegur. Litlar sem engar stílfærslur í sköpun persónanna, staðsetningum eða kóreógrafíu, eins og oft er gripið til í skáldsagnaleikgerðum af þessu tagi. Tilbreytingum í tempói eða ástríðuþunga var haldið á mjög þröngu bili, sem gerði okkur sem ekki skiljum málið nokkuð erfitt fyrir í þá þrjá tíma sem sýningin tók. Fyrir vikið var næsta erfitt að meðtaka hvað það var sem kallaði þennan leikhóp, eða hvatamenn verkefnisins, að þessari tilteknu skáldsögu.

Leikmynd Magdalenu Musiał var smekklegt verk og nýttist vel við að fleyta sögunni áfram og milli sögusviða, og myndbandshönnun Jakubs Lech jók mjög á þau áhrif.

Heilt yfir var Sjóndeildarhringurinn í Þjóðleikhúsinu enginn sérstakur listrænn sigur. En óneitanlega þarft verk sem greinilega rataði til sinna og er auk þess partur af lengri sögu samvinnu og gagnkvæmra áhrifa sem vonandi og líklega verða báðum aðilum til góðs þegar fram í sækir, að ógleymdum leikhúsgestum beggja vegna hafsins.