Stjarna „Þetta voru hinir glæsilegustu tónleikar og fullir af bæði hlýju og geislum sem stöfuðu á tónleikagesti,“ segir um Wagner-veislu Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson söng einsöng.
Stjarna „Þetta voru hinir glæsilegustu tónleikar og fullir af bæði hlýju og geislum sem stöfuðu á tónleikagesti,“ segir um Wagner-veislu Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson söng einsöng. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Wagner-veisla – Upphafstónleikar Forleikir ★★★★· Sungnir þættir ★★★★★ Tónlist og texti: Richard Wagner úr óperunum Hollendingnum fljúgandi, Tannhäuser, Meistarasöngvurunum frá Nürnberg og Valkyrjunni. Einsöngvari: Ólafur Kjartan Sigurðarson. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Konsertmeistari: Sigrún Eðvaldsdóttir. Hljómsveitarstjóri: Eva Ollikainen. Upphafstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg starfsárið 2024-2025 fimmtudaginn 5. september 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það ríkti mikil eftirvænting í Hörpu á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á komandi starfsári. Wagner var á efnisskránni og það var staðarlistamaður hljómsveitarinnar, barítónsöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson, sem steig á svið. Hann hefur öðlast heimsfrægð sem Wagnersöngvari allar götur frá því að þreyta frumraun sína í Bayreuth sumarið 2021. Þar hefur hann nú þegar sungið alls fimmtíu sýningar í hlutverkum á borð við Alberich (Niflungahringurinn), Biterolf (Tannhäuser) og Kurwenal (Tristan og Isolde). Á næsta ári fer hann að auki með hlutverk Telramunds í Lohengrin sem enginn annar en Christian Thielemann mun stjórna. Ólafur Kjartan hefur enn fremur í kjölfarið komið fram bæði á Scala (Mílanó) og Covent Garden (Lundúnum) og þannig lagt óperuheiminn að fótum sér. Af viðtölum að dæma er þessi stórsöngvari einkar jarðbundinn og hlýr og það skein einmitt í gegn í troðfullum Eldborgarsal Hörpu.

Richard Wagner (1813-1883) var að mestu sjálfnuma. Hann var afsprengi hámenningar þýskumælandi ríkja sem hvíldi meðal annars á barokkmeisturunum Bach og Händel og framlagi klassískra tónskálda á borð við Haydn og Mozart. Það má líka segja að með vaxandi menningarlegum, hugmyndafræðilegum og ekki síst efnahagslegum áhrifum hafi hinn þýskumælandi heimur orðið að vöggu nokkurs konar menningarbyltingar á 19. öld og þaðan er Wagner sprottinn.

Það má eiginlega skipta efnisskrá Wagner-veislunnar í Hörpu í tvennt: Annars vegar forleiki úr Hollendingnum fljúgandi (1943), Tannhäuser (1845/1861), Lohengrin (1850) og loks Meistarasöngvurunum frá Nürnberg (1868) og svo hins vegar sungna þætti úr Hollendingnum, Meistarasöngvurunum og Valkyrjunni (1870).

Tónleikarnir hófust af krafti á forleik að þriðja þætti Lohengrin sem Sinfóníuhljómsveit lék einkar vel undir stjórn Evu Ollikainen. Jafnvægið milli einstakra hljóðfærahópa var fyrirtak og ég má til með að hrósa málmblásurum sérstaklega. Þetta er auðvitað margleikinn forleikur en flutningur hans var „ferskur“ og blæbrigðaríkur.

Þá steig Ólafur Kjartan fram á svið og söng Flieder-einræðu Hans Sachs („Was duftet doch der Flieder“) úr öðrum þætti Meistarasöngvaranna. Röddin er vissulega stór en hann skalaði hana ágætlega til og söng á köflum bæði veikt og ljóðrænt. Um textaframburð þarf ekki að fjölyrða en nánast hvert orð skilaði sér þar sem ég sat og jafnvægið milli hljómsveitar og Ólafs Kjartans var gott.

Næst lék hljómsveitin forleikinn að þriðja þætti Meistarasöngvaranna. Ég vil sérstaklega hrósa Evu Ollikainen fyrir að velja þennan forleik (sá að fyrsta þætti er miklu oftar leikinn) enda gullfalleg tónsmíð. Sellóin áttu stórleik í upphafi í hægu tempói (með djúpu en hægu víbratói). Túlkun Evu Ollikainen var líka ljóðræn þótt ég hefði kannski kosið örlítið meiri öndun á milli hendinga. Annars var túlkunin afslappaðri en ég hef heyrt áður hjá þessum aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Haldið var beint yfir í flutning á forleiknum að Hollendingnum fljúgandi sem var að mörgu leyti vel fluttur (smá klikk hér og þar, aðallega í brassinu) og túlkunin var músíkölsk. Tréblásarar stóðu sig einkar vel og hljómurinn var bæði breiður og mjúkur. Undir lok forleiksins gekk svo Ólafur Kjartan á svið og farið var beint yfir í stóru aríu Hollendingsins, „Die Frist ist um“. Þar lýsir hann þeim raunum sínum að komast aðeins í land á sjö ára fresti. Kannski var það táknrænt fyrir flutning á Wagner á Íslandi, sem yfirleitt fer fram með nokkurra ára millibili. Hvað um það, Ólafur Kjartan söng atriðið vel og studdi túlkunina með skynsamlegri öndun. Aftur var textaframburður afar skýr og hann sýndi mikinn kraft með því að skera í gegnum stóra hljómsveitina á kraftmestu stöðunum. Eva Ollikainen og hljómsveitin áttu líka gott mót og til að mynda var attaca (snerpa) í strengjunum góð.

Eftir hlé var tekið til óspilltra málanna með Parísarútgáfunni á forleiknum að Tannhäuser. Öfugt við valið á forleiknum úr Meistarasöngvurunum hefði ég aldrei valið Parísarútgáfuna af Tannhäuser-forleiknum (endirinn frá Dresden er miklu glæsilegri) en flutningurinn var ljóðrænn og Eva Ollikainen byggði upp mikið og gott crescendo með sannfærandi hætti.

Tónleikunum lauk svo á niðurlagi Valkyrjunnar, það er að segja kveðju Wotans. Ólafur Kjartan var öruggur frá fyrstu innkomu og söng einkar vel. Kannski á hann eftir að syngja þetta hlutverk einhvern tímann í heild hér á landi (eins og raunar var ráðgert fyrir pestarárin). Ég hefði kosið meiri ljóðrænu í hljómsveitinni í kjölfar þess að Ólafur söng „Der Augen leuchtendes Paar“ en annars var flutningurinn góður. Ég verð þó að gera athugasemd við það að það var bara ein harpa sem lék í kaflanum úr Valkyrjunni en Wagner skrifar fyrir miklu fleiri. Martial Nardeau átti hins vegar stórleik á pikkolóflautuna í blálokin sem skein í gegn.

Þetta voru hinir glæsilegustu tónleikar og fullir af bæði hlýju og geislum sem stöfuðu á tónleikagesti. Vonandi fáum við að verða vitni að heildarflutningi á Wagner-óperu á Íslandi innan tíðar og ég leyfi mér að stinga upp á Lohengrin (Ólafur Kjartan fer einmitt með eitt aðalhlutverkið í því verki í Bayreuth 2025 og Telramund var fyrsta Wagner-hlutverkið sem hann söng). Það færi einkar vel á því!