[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umfang og notkun ólöglegrar sjónvarpsþjónustu hér á landi er mikið áhyggjuefni að mati rétthafa. Ný könnun sem gerð var í vor sýnir að ríflega 30% landsmanna hlaða niður eða streyma sjónvarpsefni með ólöglegum hætti

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Umfang og notkun ólöglegrar sjónvarpsþjónustu hér á landi er mikið áhyggjuefni að mati rétthafa. Ný könnun sem gerð var í vor sýnir að ríflega 30% landsmanna hlaða niður eða streyma sjónvarpsefni með ólöglegum hætti. Hlutfall notenda er hæst meðal ungs fólks. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu um ólöglega dreifingu sjónvarpsefnis sem Sýn hélt í síðustu viku.

Fjöldi erlendra sérfræðinga tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni en aðalræðumaður var Michael Lund, öryggisstjóri hjá Nordic Content Protection (NCP) sem eru félagasamtök sem starfa fyrir sjónvarpsiðnaðinn á Norðurlöndunum. Auk hans tóku til máls Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar og Kristjana Thors Brynjólfsdóttir þróunarstjóri fyrirtækisins. Herdís lagði á það áherslu í máli sínu að þjófnaður á sjónvarpsefni væri samfélagslegt vandamál. Hún sagði að mikilvægt væri að fræða neytendur betur um að hvað fælist í því að stela sjónvarpsefni og að sækja brotamenn til saka svo eftir sé tekið. Kristjana kynnti niðurstöður úr könnun Gallup frá því í vor þar sem sést vel hversu margir kjósa að stela sjónvarpsefni.

Stór glæpasamtök hagnast

Eins og komið hefur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í ár er afar auðvelt að verða sér úti um svokallaða IPTV-áskrift. Við kaup á nýjum sjónvarpstækjum er eitt það fyrsta sem fólk sér hnappur til að sækja slík öpp sem færa manni allar heimsins sjónvarpsstöðvar fyrir lítinn pening. Valið reynist mörgum auðvelt enda kosta áskriftir að IPTV-þjónustum jafnan um tvö þúsund krónur á mánuði, aðeins brot af hefðbundnum sjónvarpsáskriftum. Áskriftarverðið rennur hins vegar í vasa þeirra sem stela efninu af rétthöfum og þjófarnir eru í mörgum tilvikum stór erlend glæpasamtök.

Lágt verð fyrir góða vöru

Michael Lund hefur starfað um nokkurra ára skeið hjá NCP en var áður hjá lögreglunni í Danmörku og fékkst við netglæpi. Hann sagði frá því í ræðu sinni að nýverið hefði hann rekist á skýrslu frá 1997 um stöðu mála í baráttunni við þjófnað á sjónvarpsefni. Þótt aðstæður séu aðrar í dag taldi hann þessa upprifjun vera ágætisáminningu um umfang vandans og að hann hverfi ekki á morgun. Þá, eins og nú, kosti þjófnaður á sjónvarpsefni rétthafa mikið og samfélagið verði af skattgreiðslum svo dæmi sé tekið.

Lund lagði raunar áherslu á það að baráttan væri erfið vegna þess að IPTV-þjónustan væri „góð vara“. Þar fái kaupendur 200 þúsund sjónvarpsstöðvar en greiði ekki nema sem nemur 20% af áskriftarverði hefðbundinna sjónvarpsstöðva á Norðurlöndunum. Salan fer að hans sögn víða fram, bæði í gegnum hefðbundnar vefsíður en einnig í gegnum hópa og undirsíður á samfélagsmiðlum. Fyrir nokkrum árum hafi margir selt í gegnum Facebook en tekist hafi að ná eyrum stjórnenda Facebook. Þeir hafi gripið til aðgerða og í kjölfarið hafi það minnkað til muna.

Klippa á vinsæla fótboltaleiki

„Það er mikilvægt að peningurinn endar hjá skipulögðum glæpasamtökum,“ sagði Lund og bætti við að barátta samtakanna snúist helst um að eltast við stóru aðilana. Það að geta lokað einni þjónustu sem útvegi 100.000 manns efni vegi þyngra en að stöðva minni söluaðila. Þeir séu þó reyndar líka í skotlínunni.

En hvað er gert til að reyna að stöðva sjóræningjana, eins og þeir eru stundum nefndir? Lund segir að rannsakendur kaupi áskriftir og safni upplýsingum um það hvernig hver söluaðili ber sig að. Þótt ekki leiði öll upplýsingaöflun til að einstaklingar séu sóttir til saka á þeim tímapunkti geta upplýsingarnar nýst vel síðar meir. Þannig sé til dæmis hægt að leggja fram gögn um að sakborningur hafi selt vöru sem virkaði svona og svona ef til saksóknar kemur síðar. Þá getur viðkomandi ekki borið við því að hann hafi bara verið að blekkja neytendur með auglýsingum sínum.

Hann segir að í sumum tilfellum sé hægt að sjá hvernig efninu er stolið og þá er hægt að bregðast við. Það sé stundum gert með því að stöðva dreifingarleiðina á viðkvæmum tíma, til dæmis í stórum fótboltaleikjum. Um þessar mundir séu einmitt í gangi tilraunir með þetta í útsendingum frá dönsku Superligunni.

Háar fjárhæðir tapast ár hvert

„Við þurfum að ráðast að peningunum,“ segir Lund sem rakti svo hversu mikið umfang IPTV hefur aukist. Viðskiptavinum slíkra veitna hefur fjölgað úr 400 þúsund á Norðurlöndunum árið 2017 í 1,4 milljónir árið 2022. Háar fjárhæðir tapast ár hvert. Þannig reiknast sérfræðingum til að á Norðurlöndunum hafi tapaðar tekjur af völdum ólöglegs streymis verið 531 milljón evra árið 2017. Sama ár hafi sjóræningjarnir hagnast um 78 milljónir evra. Árið 2019 hafði viðskiptavinum fjölgað í 1,2 milljónir en áætlaðar ólöglegar tekjur voru 102 milljónir evra. Árið 2022 voru viðskiptavinir orðnir tæpar 1,4 milljónir en tekjurnar voru áætlaðar 90 milljónir evra.

Mikill árangur í Svíþjóð

Þegar horft er til Evrópu allrar segir Michael Lund að árið 2019 hafi áætlaður fjöldi viðskiptavina IPTV-veitna verið 13,7 milljónir. Tekjur hafi verið um 942 milljónir evra. Árið 2022 hafði viðskiptavinum í Evrópu fjölgað í 17,1 milljónir en tekjurnar voru komnar yfir einn milljarð evra. Tapaðar tekjur rétthafa voru metnar á rúma 3,2 milljarða evra.

Annað sem kom fram í máli Michaels Lunds er að mikilvægt sé að innan lögreglunnar sé til staðar þekking til að geta beitt sér gegn þeim sem stela sjónvarpsefni og selja það áfram. NCP hafa að hans sögn þrýst á um slíkt í Danmörku og Svíþjóð og hjálpað til við þjálfun lögreglumanna og greiningu á gögnum. Samtökin hafa jafnframt barist fyrir að lögum sé breytt svo hægt sé að takast á við glæpi sem þessa. Segir hann að mörg mál, bæði stór sem smá, hafi leitt til sakfellinga og tekist hafi að sækja bætur fyrir rétthafa í réttarsal. Best hafi þeim tekist upp í Svíþjóð en þar í landi hafi samtökin sótt um 400 milljónir sænskra króna í bætur. Upphæðirnar eru lægri í Danmörku og Noregi.

Áhugaleysi yfirvalda hér

Í umræðum á ráðstefnunni kom fram að verk er að vinna hér á landi vilji rétthafar ná að sporna við þeirri þróun að sífellt fleirum þyki sjálfsagt að stela sjónvarpsefni. Nefnt var að flestir notendur IPTV-þjónusta væru í yngsta aldurshópnum og viðhorfið þar virtist benda til þess að þar telji margir að ekki sé um stóran glæp að ræða.

Þá varð þátttakendum tíðrætt um að yfirvöld hefðu lítinn áhuga sýnt á að takast á við vandann. Það sýndi sig ágætlega með því að fjórum ráðherrum hefði verið boðið á ráðstefnuna en enginn mætti. Þetta áhugaleysi kæmi jafnframt fram í skorti á úrræðum og mannskap sem lögregla búi yfir til að rannsaka slík mál hér. Óljóst sé hvort lögregla megi villa á sér heimildir á netinu við rannsóknir og íslensku höfundarréttarlögin ná ekki yfir streymi svo dæmi séu tekin.