[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markvörðurinn Birkir Fannar Bragason hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild FH sem gildir út tímabilið. Birkir Fannar gekk aftur til liðs við FH á síðasta tímabili og var þá markvarðateymi liðsins, Daníel Frey Andréssyni og Axel Hreini…

Markvörðurinn Birkir Fannar Bragason hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild FH sem gildir út tímabilið. Birkir Fannar gekk aftur til liðs við FH á síðasta tímabili og var þá markvarðateymi liðsins, Daníel Frey Andréssyni og Axel Hreini Hilmissyni, til halds og trausts. Áður hafði hann spilað með FH í fimm ár frá 2016 til 2021 þar sem hann varð deildarmeistari árið 2017 og bikarmeistari 2019. Birkir Fannar lék tvö tímabil með Kórdrengjum í 1. deild árin 2021 til 2023.

Tom Craig, leikmaður Ástralíu í hokkí, hefur verið úrskurðaður í eins árs bann af hokkísambandinu þar í landi eftir að hann var handtekinn á Ólympíuleikunum í París, grunaður um að hafa reynt að kaupa kókaín.

Knattspyrnumaðurinn Harvey Elliott miðjumaður Liverpool meiddist á fæti í verkefni með U21-árs landsliði Englands fyrir helgi og verður af þeim sökum frá í fjórar til sex vikur. Elliott varð fyrir meiðslum á æfingu liðsins en bein í fæti hans er brotið.

Anton Ingi Rúnarsson hefur ákveðið að segja starfi sínu sem þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í knattspyrnu lausu. Grindavík hélt sæti sínu í 1. deild á nýafstöðnu tímabili og mun að öllum líkindum sameinast öðru liði fyrir það næsta. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þar um að ræða Njarðvík. Anton Ingi hefur verið hluti af þjálfarateymi meistaraflokks kvenna undanfarin fjögur ár og var aðalþjálfari síðastliðin tvö tímabil.

Knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal og norska landsliðsins, verður frá í að minnsta kosti þrjár vikur vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Noregs gegn Austurríki í Þjóðadeildinni á mánudagskvöld. Missir hann því m.a. af stórleikjum Arsenal við Tottenham og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.