Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Afar mikilvægt er að borgarstjórn Reykjavíkur nái saman um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil hallarekstrar og skuldasöfnunar.

Kjartan Magnússon

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar versnar enn. Nýbirtur árshlutareikningur fyrir fyrstu sex mánuði ársins sýnir að ekkert lát er á ábyrgðarlausri skuldasöfnun borgarinnar þrátt fyrir stórauknar tekjur. Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn hefur litla stjórn á fjármálum borgarinnar þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um annað.

Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs (A-hluta) Reykjavíkurborgar var jákvæð um 196 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins en rekstrarafgangur samstæðunnar nam um 406 milljónum. Er það mun skárri rekstrarniðurstaða en á sama tímabili í fyrra þegar borgarsjóður var gerður upp með 921 milljónar króna tapi og samstæðan með 6,7 milljarða króna tapi.

Rekstrarafkoma borgarsjóðs var þó 1.707 milljónum króna lakari fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs en áformað var samkvæmt fjárhagsáætlun. Þá er rekstrarafkoma samstæðunnar 3.207 milljónum króna verri en kveðið var á um í fjárhagsáætlun.

Froðuhagnaður Félagsbústaða

Matshækkun félagslegra íbúða borgarinnar er færð sem hagnaður á rekstrarreikningi og hefur þar verið veigamikill þáttur undanfarin ár vegna mikillar hækkunar á húsnæðisverði. Um er að ræða bókhaldslegan hagnað en ekki peningalegan og er umdeilt hvort færa eigi slíkan froðuhagnað í rekstrarreikning. Slíkur ábati vegna hækkunar fasteignaverðs yrði ekki innleystur nema með sölu eigna, sem engin áform eru um. Á fyrri hluta ársins nam þessi froðuhagnaður 1.659 milljónum króna, sem þýðir að án hans hefði samstæða Reykjavíkurborgar verið rekin með 1.253 milljóna króna tapi á tímabilinu. Þess vegna er vafasamt að halda því fram að borgin hafi verið rekin með rekstrarafgangi á fyrri helmingi ársins og með því hafi orðið viðsnúningur í rekstri, eins og fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans segja.

Skuldirnar segja sögu

Þróun skulda Reykjavíkurborgar gefur að mörgu leyti skýrari mynd af rekstri hennar en sjálfur rekstrarreikningurinn. Á einungis sex mánuðum, frá ársbyrjun til júníloka, hækkuðu skuldir borgarsjóðs um rúma sex milljarða króna og skuldir samstæðunnar um rúma sextán milljarða.

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar áttu skuldir borgarsjóðs að hækka um tæpa tíu milljarða króna allt árið 2024 og nema tæpum 209 milljörðum króna í lok þess. Um mitt ár voru þær þegar orðnar tæpir 205 milljarðar.

Samkvæmt sömu fjárhagsáætlun áttu skuldir samstæðunnar að hækka um ríflega 26 milljarða króna á árinu og nema 516,5 milljörðum króna í árslok. Þegar árið var aðeins hálfnað voru skuldirnar orðnar 511,6 milljarðar.

Ólíklegt er að skuldasöfnun Reykjavíkurborgar verði hætt á árinu 2024. Slíkt er áhyggjuefni af mörgum ástæðum. Ekkert sveitarfélag getur byggt rekstur sinn á lántökum árum og jafnvel áratugum saman eins og gerst hefur í Reykjavík. Á tímum hárra vaxta og mikillar verðbólgu er slík stefna beinlínis hættuleg.

Aðgerða er þörf

Afar mikilvægt er að borgarstjórn Reykjavíkur nái saman um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil hallarekstrar og skuldasöfnunar. Til þess þurfa borgarfulltrúar meirihlutans að sameinast um að horfast í augu við vandann í stað þess að afneita honum. Einar Þorsteinsson, núverandi borgarstjóri, sýndi vissulega viðleitni í þá átt þegar hann viðurkenndi, í upphafi kjörtímabilsins, að borgin glímdi við alvarlegan rekstrarvanda, sem mikilvægt væri að finna lausn á. Og að fjárhagsstaða borgarinnar hefði verið miklu verri en hann bjóst við. Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, hefur hins vegar ætíð haldið því fram að borgin hafi verið glæsilega rekin undir sinni stjórn þrátt fyrir að tölurnar segi allt aðra sögu.

Vinna við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir komandi ár stendur nú sem hæst. Þar gefst tækifæri til að koma rekstrinum í jafnvægi og hætta hallarekstri og skuldasöfnun. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu. Sem fyrr eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reiðubúnir til samvinnu við aðra flokka um raunverulegar aðgerðir í því skyni að ná stjórn á fjármálum borgarinnar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon