Söngleikjastælar Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Bjarni Snæbjörnsson fagna vináttunni með tónleikaröð.
Söngleikjastælar Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Bjarni Snæbjörnsson fagna vináttunni með tónleikaröð. — Morgunblaðið/Eggert
Vinirnir Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, oftast kölluð Sigga Eyrún, og Bjarni Snæbjörnsson eru að eigin sögn ástríðufullir söng-leikarar. Síðustu ár hafa þau verið iðin við að leika í söngleikjum, setja upp og sýna eigin söngleiki sem og að halda tónleika með hinum ýmsu söngleikjaþemum

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Vinirnir Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, oftast kölluð Sigga Eyrún, og Bjarni Snæbjörnsson eru að eigin sögn ástríðufullir söng-leikarar. Síðustu ár hafa þau verið iðin við að leika í söngleikjum, setja upp og sýna eigin söngleiki sem og að halda tónleika með hinum ýmsu söngleikjaþemum.

Í vetur standa þau fyrir tónleikaröðinni Söngleikjastælum, ásamt Karli Olgeirssyni og hljómsveit, en hún fer fram í Salnum í Kópavogi og hefst í næstu viku, föstudaginn 20. september. Um er að ræða fimm tónleika og á hverja þeirra mæta til þeirra tveir gestasöngvarar og flytja sín uppáhaldssöngleikjalög en þeir eru: Jóhanna Vigdís Arnardóttir (Hansa), Una Torfadóttir, Valgerður Guðnadóttir, Örn Árnason, Margrét Eir Hönnudóttir, Kristinn Óli Haraldsson (Króli), Björgvin Franz Gíslason, Þórunn Lárusdóttir, Katla Njálsdóttir og Þór Breiðfjörð.

„Við vorum eitt sinn parið Viggó og Víóletta, hugmynd sem fæddist þegar við vorum að vinna spunaverkefni í Borgarleikhúsinu. Ekki leið á löngu þar til við vorum farin að skemmta sem þetta söngelska par út um allt og í heil tíu ár komum við fram á ýmsum viðburðum, sem var alveg ótrúlega gaman,“ segir Sigga Eyrún. „Axel Ingi Árnason, sem er nýtekinn við sem forstöðumaður í Salnum, kom að máli við okkur fyrr á árinu og bað okkur að gera tónleikaröð. Ekki sem Viggó og Víóletta heldur bara sem við sjálf, byggða út frá okkar vináttu og því sem við höfum gert,“ bætir hún við.

Fagna vináttunni

„Við kynntumst í Superstar árið 2007 í Borgarleikhúsinu en þessi tónleikaröð snýst svolítið um það að fagna vináttunni okkar. Við erum búin að bralla ýmislegt saman í 17 ár svo vináttan er komin með bílpróf,“ segir Bjarni og skellihlær. „Vináttan byrjaði í söngleik en svo héldum við áfram að vinna við söngleikjaverkefni og fundum fljótt hvað við elskuðum að gera þetta saman. Okkur finnst fátt skemmtilegra en að sprella, hlæja og syngja þessa tónlist.“ Sigga Eyrún tekur undir hvert orð og blaðamaður finnur fljótt að hér er á ferðinni sönn og djúp vinátta. „Ég hef elskað söngleiki frá því ég var lítil og ég held ég geti sett puttann á það hvenær þetta varð að ástríðu hjá mér en það var þegar ég var unglingur og áttaði mig á að það væri hægt að syngja um tilfinningar sínar. Ég hef alltaf hallast að hljómsveitum sem segja sögur og það er það sem söngleikir gera. Þú færð ákveðið tækifæri til að tjá tilfinningar þínar upphátt í gegnum tónlistina en það er eitthvað einstaklega heilandi við það,“ segir hún.

„Ég verð bara „litli“ Bjarni aftur. Fæ að vera sprúðlandi hýr og glaður og njóta þess að vera hispurslaus og opna á allar tilfinningar. Ég gerði einmitt söngleikinn Góðan daginn, faggi fyrir þremur árum en það var ákveðið heilunarferðalag fyrir mig. Þar fékk ég tækifæri til að gera upp sárin mín frá æsku svo ástríðan fyrir þessu söngleikjaformi er svo marglaga hjá manni. Að gera þann söngleik var rétta leiðin fyrir mig því tónlist getur tekið óræðar og flóknar tilfinningar og sprengt þær upp svo þær öðlast jafnvel alveg nýja merkingu,“ útskýrir hann.

Ástríðufullir gestasöngvarar

Sem fyrr segir verða tíu gestasöngvarar á tónleikunum en innt eftir því hvort valið hafi verið erfitt segja vinirnir svo ekki vera. „Við vildum fyrst og fremst velja góða söngvara sem við vissum að réðu vel við verkefnið. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt því það er fátt leiðinlegra en að fara á söngleik og leikarinn ræður ekki við lögin,“ segir Sigga Eyrún.

„Við völdum skemmtilegt fólk sem við höfum unnið með og býr yfir ólíkri reynslu úr bransanum. Ef við horfum til dæmis á Unu Torfa, þá er hún mjög ung tónlistarkona en er samt sem áður að skrifa sinn eigin söngleik fyrir Þjóðleikhúsið núna og svo erum við líka með reynsluboltana Þór Breiðfjörð og Örn Árna,“ segir Bjarni. „Akkúrat! Síðan erum við með Hönsu, Margréti Eiri, Völu Guðna, Björgvin Franz og Þórunni Lár. sem eru öll búin að leika ótrúlega stór hlutverk í söngleikjum, og eiga að baki magnaða ferilskrá, og Kötlu Njáls og Króla sem eru með spútnik-söngleikjaraddir,“ skýtur Sigga Eyrún inn í. „Þetta eru allt nördar sem elska þetta form og hafa því sungið þessa tegund tónlistar í mörg ár. Við viljum bara vera með fólk sem er með fulla ástríðu og fer óhikað inn í gáskann og gleðina og skilur alla tilfinningasöguna sem þarf að segja,“ segir Bjarni.

Hvergi nærri hætt

Þá segja þau hverja tónleika fyrir sig ólíka enda sé dagskrá þeirra fjölbreytt og lagavalið mismunandi. „Ef þú tryggir þér miða á alla tónleikana færðu meira að segja 50% afslátt,“ segir Sigga Eyrún og tekur fram í kjölfarið að þótt uppbygging tónleikanna sé kannski keimlík í grunninn fylgi gestasöngvurunum mismunandi áherslur. „Þema allra tónleikanna er auðvitað vináttan okkar en við bjóðum upp á mikla breidd, gömul og ný lög í bland, og gætum þess að skemmtanagildið sé í hámarki. Búningakistan okkar verður heldur ekki langt undan svo það er aldrei að vita hvað gerist á sviðinu,“ segir hún.

En skyldi söngleikjaáhugi landans hafa aukist með árunum? „Já, klárlega. Íslendingar eru miklir söngleikjaaðdáendur þótt þeir viðurkenni það ekki allir,“ segir Bjarni áður en Sigga Eyrún grípur boltann. „Við megum ekki gleyma því að langstærstu sýningarnar sem settar eru upp hér á landi eru söngleikir. Við verðum líka með rosalega skemmtilega hljómsveit með okkur og komum til með að spjalla á milli laga um söngleikina og segja frá því hvernig við tengjum við lögin,“ segir hún. „Við tökum þetta einfaldlega alla leið og gerum þetta bæði vel og fagmannlega, með gleðina og gáskann í fyrirrúmi,“ ítrekar Bjarni. Blaðamaður getur þó ekki sleppt þeim án þess að spyrja að síðustu út í framtíðarplönin. „Það er einfalt. Við komum til með að halda áfram að gera þetta þar til við komumst ekki lengur upp á sviðið,“ segja þau og skella upp úr í kór.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir