Vanskil Mismikil aukning milli aðila í innheimtu.
Vanskil Mismikil aukning milli aðila í innheimtu. — Morgunblaðið/Golli
ViðskiptaMogginn greindi frá því í gær að gögn kröfuþjónustunnar Motus sýndu 20,1% aukningu á alvarlegum vanskilum hjá einstaklingum og 6,5% hjá fyrirtækjum, samanborið við sömu mánuði í fyrra. Leitað var viðbragða hjá forsvarsmönnum tveggja…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

ViðskiptaMogginn greindi frá því í gær að gögn kröfuþjónustunnar Motus sýndu 20,1% aukningu á alvarlegum vanskilum hjá einstaklingum og 6,5% hjá fyrirtækjum, samanborið við sömu mánuði í fyrra. Leitað var viðbragða hjá forsvarsmönnum tveggja fyrirtækja í innheimtu, sem sögðust ekki hafa séð svo mikla aukningu hjá sér.

Helgi Björn Kristinsson forstöðumaður Netgírós bendir á: „Þegar heimsfaraldurinn gekk yfir voru minnstu vanskil sem greinendur hafa séð. Við þurfum því að bera vanskil saman við árið 2020. Þau voru samt sem áður lág á þeim tíma þar sem þá var mikið um frystingar lána og annarra ívilnana,“ segir Helgi í samtali við ViðskiptaMoggann. Tölurnar séu því ekki sambærilegar. Hann segist hafa skilning á að háir vextir séu farnir að hafa neikvæð áhrif, en segist aðspurður ekki hafa orðið var við mikla aukningu á vanskilum.

„Við fylgjumst mjög vel með vanskilum og höfum ekki séð mikla breytingu hjá okkur. En það er hægt að taka undir með Seðlabankanum að vegna vaxtanna sé fólk að taka á sig aukna greiðslubyrði án þess að það komi fram í vanskilatölum,“ útskýrir Helgi.

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri kröfuþjónustunnar Inkasso, tekur í sama streng en segir ljóst að vanskil hafi aukist á þessu ári.

„Við erum að sjá einhverja aukningu á alvarlegum vanskilum, en tölurnar eru ekki eins háar og hjá Motus. Vanskil hafa verið að aukast síðan í covid en í ár hafa þær ekki náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldurinn,“ segir Guðmundur.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson