Kílómetragjald á að sporna við tekjufalli og kemur loftslagsmálum ekki við

Í fjárlögum næsta árs er margt óljóst og óútfært. Gott dæmi um það er stuttur kafli, sem ber yfirskriftina Minni samfélagslosun og sanngjarnari. Þar segir að ríkisstjórnin setji umhverfis- og loftslagsmál á oddinn. Síðan segir að „[s]íðara skref við innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara gjaldtökukerfis af ökutækjum og eldsneyti verð[i] innleitt um áramótin“.

Fyrra skrefið var álagning kílómetragjalds á rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla í upphafi þessa árs. Í fjárlögunum segir að við álagningu slíks gjalds á allar bifreiðar verði sértæk vörugjöld á bensín og olíu felld niður. Það var ljóst að rafbílavæðingin hafði vakið hroll í fjármálaráðuneytinu. Hún ásamt sparneytnari bensín- og dísilbílum hafði orðið til þess að tekjur ríkisins af eldsneytisgjöldum drógust saman og það er vitaskuld ótækt.

Kílómetragjaldið átti að stoppa upp í þetta gat. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort það samræmist því markmiði að draga úr losun. Í fjárlögunum segir að í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá því í sumar sé gert ráð fyrir 35-45% samdrætti í svokallaðri samfélagslosun fyrir 2030. Gjaldið gæti verið ein ástæða þess að á þessu ári hefur verulega dregið úr sölu rafbíla. Bifreiðaeigendur átta sig á því að álögur verða ekki umflúnar við að kaupa rafbíl og bensínbíllinn er ódýrari kostur. Þessi ráðstöfun hefur því líklega hægt á orkuskiptum.

Í fjárlögum er tekið fram að með innleiðingu kílómetragjalds muni þeir sem aka eftir vegum landsins greiða fyrir afnot af þeim í samræmi við notkun og þyngd ökutækja. „Gjaldtakan mun þannig með gagnsæjum hætti endurspegla betur raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins,“ stendur þar.

Ekkert er sagt um hvernig þetta verði útfært, en ástæðan er sennilega sú að kílómetragjaldið hefur ekki síst verið gagnrýnt fyrir að vera flatur skattur á öll ökutæki. Einu gildir hvort ökumenn eru á smábíl eða jeppa, gjaldið er það sama og endurspeglar því alls ekki „raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins“. Eftir er að sjá hversu sanngjörn hin nýja útfærsla verður.

Ástæðan fyrir innleiðingu kílómetragjalds er augljós. Gömlu gjöldin skila einfaldlega ekki lengur því sem til var ætlast. Því þarf nýja nálgun til að halda innstreyminu í ríkissjóð stöðugu.

En það er engin forsenda fyrir að halda því fram að með þessu sé verið að setja umhverfis- og loftslagsmál á oddinn eða þetta sé liður í orkuskiptum. Það er bara orðagjálfur. Þessi ráðstöfun snýst einfaldlega um að ekki verði tekjufall við breytta samsetningu bílaflotans.