Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Í bráðlætinu má segja að „barninu hafi verið varpað burt með baðvatninu“. Síðan höfum við búið við aðalnámskrár með loðin og ómælanleg hæfniviðmið.

Meyvant Þórólfsson

Nærri tveir áratugir eru liðnir síðan íslenskum nemendum bauðst síðast að þreyta samræmd lokapróf í stærðfræði, náttúruvísindum og íslensku að loknu skyldunámi. Á sama tíma hefur námsárangri hrakað jafnt og þétt á þessum sömu námssviðum í alþjóðlegum samanburðarmælingum. Ekki eru horfur á að það breytist á næstu árum.

Aðalnámskrá 1999

Samræmd lokapróf voru síðast í boði á gildistíma Aðalnámskrár 1999. Að mati undirritaðs hefur engin opinber námskrá á Íslandi verið eins hyggilega úr garði gerð hvað inntak snertir og námsmarkmið. Talsverð vinna var lögð í gerð hennar, enda afraksturinn eftir því: Vönduð inntaksmiðuð námskrá í tólf heftum þar sem gætt var að samsvörun milli alhliða þroska nemenda, hagnýtra námssviða og fræðigreina. Hún studdi við samfellda uppbyggingu náms og kennslu frá 1. bekk upp í 10. bekk og saman tvinnuðust þekkingarmarkmið, leiknimarkmið og viðhorfsmarkmið, er féllu vel að mikilvægum dygðum og mannkostum, jafnt vitsmunalegum, siðferðilegum, borgaralegum og framkvæmdalegum, samanber hugmyndir Kristjáns Kristjánssonar, heimspekiprófessors við Háskólann í Birmingham, sem hefur haft töluverð áhrif á menntamál hér og erlendis.

Á gildistíma Aðalnámskrár 1999 stóð nemendum til boða að þreyta samræmd lokapróf í stærðfræði, náttúruvísindum, íslensku, erlendum málum og samfélagsgreinum, auk könnunarprófa í 4. og 7. bekk. Þetta merka skipulag skólastarfs stóð því miður stutt og heyrir nú sögunni til. Hamfarir sem hér áttu sér stað af mannavöldum 2008 ollu örvinglan á öllum sviðum samfélagsins, einnig á sviði menntamála. Hér ríkti þvílíkt upplausnarástand að forsætisráðherra óttaðist að íslenskt samfélag myndi „sogast með bönkunum inn í brimrótið“ og líða undir lok.

Haldinn var þjóðfundur þar sem útvaldir heimtuðu bætt siðgæði, ábyrgð, heiðarleika, mannréttindi, jöfnuð og valddreifingu; hugmyndafræði svonefndrar nýfrjálshyggju skyldi skolað burt og öllu því sem henni tilheyrði, þar með hinni inntaksmiðuðu aðalnámskrá frá 1999 og samræmdu lokaprófunum. Í bráðlætinu má segja að „barninu hafi verið varpað burt með baðvatninu“. Síðan höfum við búið við gagnslitlar aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með loðin og ómælanleg hæfniviðmið, „hræðileg“, „handónýt“ og „ömurleg“, svo vitnað sé í orð skólastjórnenda í skýrslu frá 2020, Mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla.

Hæglæti fremur en bráðlæti

Við stöndum ekki utan við söguna heldur „andspænis henni sem túlkendur og þátttakendur“, eins og það var orðað í Aðalnámskrá 1999: „Í sögunámi er leitast við að túlka fortíð, skilja nútíð og mæta og móta framtíð. Þetta hefur verið kallað söguvitund.“

Til að skilja hvar við stöndum og hvert við stefnum er mikils virði að skilja hvar við vorum stödd áður. Við verðum m.ö.o. að átta okkur á hvað fyrri kynslóðum gekk til við að móta atburði liðins tíma. Skoða þarf allt samhengið með hæglæti og opnum huga.

Ef eitthvað hafði farið úrskeiðis á einu sviði, var ekki þar með sagt að öllu þyrfti að varpa fyrir róða í bráðlæti og byrja upp á nýtt. Varast skal að meta liðna atburði á forsendum okkar eigin tíma og fara jafnvel niðrandi orðum um hugmyndir þeirra sem á undan gengu. Vissulega tekur allt breytingum og við þurfum að taka mið af fyrirbærum eins og stafrænni upplýsingamiðlun, gervigreind, sjálfbærni, fjölmenningu og mannréttindum.

En það er alvarleg söguskekkja að ætla að kunnátta og þekking í hefðbundnum námsgreinum eins og stærðfræði, náttúruvísindum og íslensku hafi misst gildi sitt. Til að geta átt vitræn samskipti þarfnast allir ríks orðaforða, þekkingar á hlutföllum og breytum og vitneskju um náttúruleg fyrirbæri eins og orku, lífbreytileika, lofthjúp jarðar og sólkerfi. Stafræn tækni, gervigreind eða fjölmenningarleg inngilding breyta engu þar um. Á hinn bóginn þarf skólinn að taka alvarlega varnaðarorð á borð við þau, sem Jonathan Haidt setti fram í bók sinni The Anxious Generation, um hættuna er stafaði af stafrænni tækni og snjalltækjum.

Samræmd próf í hálfa öld – „gömul og lúin amma“?

Samræmdu prófin hafa runnið sitt skeið kvað forysta Kennarasambands Íslands fyrr í sumar; fyrrverandi formaður sambandsins tók svo til orða í fb-færslu: „Samræmd próf voru fyrir löngu komin á líknardeildina áður en þau gáfu upp öndina – eins og eldgömul og lúin amma. Það lífgar hana ekki við að maður vilji óskaplega halda í hana því maður hafi verið uppáhaldsbarnabarnið hennar.“ Athyglisverð ummæli kennaraforystunnar.

Slík ummæli eru reyndar ekki ný af nálinni. Allt frá því samræmd lokapróf leystu hér landspróf og gagnfræðapróf af hólmi fyrir tæplega hálfri öld hefur verið tekist á um miðlægt mat á námi, tilgang þess og gildi. Í ráðuneytinu má finna fjöldann allan af niðurstöðum nefnda og starfshópa um samræmd lokapróf og samræmd könnunarpróf, sem staðfesta þann urmul álitamála sem í þeim leynast.

Ævinlega stendur þó eftir sú krafa að hver nemandi á rétt á að fá stöðu sína metna við lok skyldunáms með tilliti til áframhaldandi náms á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt. Digurmæli kennaraforystunnar breyta engu þar um.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum.

Höf.: Meyvant Þórólfsson