Kosningavetur Ingibjörg Isaksen og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Kosningavetur Ingibjörg Isaksen og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. — Morgunblaðið/Hallur
Útlit er fyrir fjörugt þing fram undan, eins og títt er í lok kjörtímabils, en ekki þó síður þar sem ágreiningur er um mörg mál, ekki aðeins milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu, heldur einnig milli stjórnarflokka og um sum mál ríkir ekki einu sinni eining innan einstakra stjórnarflokka

Útlit er fyrir fjörugt þing fram undan, eins og títt er í lok kjörtímabils, en ekki þó síður þar sem ágreiningur er um mörg mál, ekki aðeins milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu, heldur einnig milli stjórnarflokka og um sum mál ríkir ekki einu sinni eining innan einstakra stjórnarflokka.

Þetta kemur fram í máli Ingibjargar Isaksen þingflokksformanns Framsóknar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins í Dagmálum, netstreymi Morgunblaðsins, sem opið er öllum áskrifendum.

Þau ræddu þar verkefnin sem bíða þings og ríkisstjórnar, að miklu leyti út frá þeirri þingmálaskrá, sem ríkisstjórnin hefur birt yfir helstu frumvörp og önnur þingmál hvers ráðherra.

Mörg mál töldu þau raunar að myndu renna greiðlega í gegn, sum með stuðningi stjórnarandstöðu, en önnur síður. Boðuð frumvörp um útlendingamál yrðu þannig vísast afgreidd án mikilla vandræða, en hins vegar ætti eftir að koma í ljós hvað frumvarp um innflytjendamál fæli í sér. Svipaða sögu mætti segja um ýmis boðuð frumvörp, þar sem málaflokkurinn lægi fyrir en efni frumvarpsins alls ekki.

Þannig væri viðbúið að boðuð frumvörp um stjórn fiskveiða, fjölmiðlastyrki, grunnskóla og Bókun 35 við EES-sáttmálann gætu valdið núningi í stjórnarliðinu.