Skytta Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson er kominn til Gummersbach.
Skytta Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson er kominn til Gummersbach. — Morgunblaðið/Eggert
Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson fer vel af stað með sínu nýja félagi Gummersbach en hann gekk til liðs við þýska félagið í sumar frá þýska stórliðinu Flensburg. Teitur Örn, sem er 25 ára gamall, er uppalinn á Selfossi en gekk til liðs við Kristianstad í Svíþjóð þegar hann var tvítugur

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson fer vel af stað með sínu nýja félagi Gummersbach en hann gekk til liðs við þýska félagið í sumar frá þýska stórliðinu Flensburg.

Teitur Örn, sem er 25 ára gamall, er uppalinn á Selfossi en gekk til liðs við Kristianstad í Svíþjóð þegar hann var tvítugur. Hann lék með sænska liðinu í þrjú tímabil en gekk svo til liðs við Flensburg í Þýskalandi þar sem hann var í þrjú ár.

Selfyssingurinn var markahæsti leikmaður Gummersbach þegar liðið tryggði sér á dögunum sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar með stórsigri gegn Mors-Thy frá Danmörku, 39:30, í síðari leik liðanna í Þýskalandi. Teitur Örn skoraði 7 mörk í leiknum og var markahæstur en Gummersbach, undir stjórn fyrrverandi landsliðsfyrirliðans Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann einvígið örugglega 74:52.

Í miklu stærra hlutverki

„Þetta var hárrétt skref fyrir mig og ég er í miklu stærra hlutverk hjá Gummersbach en ég var í hjá Flensburg,“ segir Teitur Örn í samtali við Morgunblaðið.

„Þessar fyrstu vikur hafa gengið mjög vel og ég mér finnst klúbburinn frábær. Ég átti mjög góða tíma hjá Flensburg en ég var alltaf í aukahlutverki hjá félaginu. Heilt yfir þá gekk þetta vel og ég nýtti þau tækifæri sem ég fékk. Ég hef ekkert slæmt að segja um Flensburg og ég bætti mig mjög mikið sem handboltamaður þarna. Það eina sem vantaði var að ég fengi stærra hlutverk innan liðsins en það gekk því miður ekki.

Hjá Gummersbach er ég í miklu stærra hlutverki og ég er á meðal elstu og reynslumestu leikmanna liðsins, þrátt fyrir að vera ekki það gamall. Það hvílir mikil ábyrgð á mínum herðum, sem er auðvitað frábært, og þannig vil ég hafa það. Það kemur ekkert annað til greina en að standa sig í hverjum einasta leik og það mæðir mikið á mér,“ sagði Teitur sem á að baki 36 A-landsleiki.

Guðjón Valur heillaði

Teitur yfirgaf Flensburg þegar samningur hans rann út í sumar en hann var með nokkur tilboð á borðinu.

„Það voru nokkur félög sem sýndu mér áhuga og ég tók mér góðan tíma í að fara yfir þá valkosti sem í boði voru. Ég var með tilboð frá Danmörku og ég velti því alveg fyrir mér að fara þangað. Deildin þar hefur tekið mjög miklum framförum á undanförnum árum, bæði getulega séð og fjárhagslega líka. Eftir að hafa skoðað aðstæður hjá Gummersbach var valið samt auðvelt. Það er ákveðin menning í kringum Gummersbach og þetta var í raun aldrei spurning eftir að þeir settu sig í samband við mig.

Ég þekki Gauja [Guðjón Val Sigurðsson] frá tíma okkar saman í landsliðinu. Maður ólst upp við hann að spila með landsliðinu og ég veit nákvæmlega hvernig karakter hann er. Hans hugarfar og hans sýn á hlutina, og þjálfarastarfið líka, heillaði mig mjög mikið. Hann er með mjög skýra sýn á þetta starf og sú sýn heillaði mig. Hann er mjög faglegur í öllu sínu og gerir þetta vel. Hann er mjög stór ástæða þess að ég valdi Gummersbach.“

Finnur fyrir stuðningnum

Gummersbach er stórveldi í þýskum handbolta en félagið hefur tólf sinnum orðið Þýskalandsmeistari og fimm sinnum Evrópumeistari.

„Ég finn ekki fyrir neinni pressu þannig séð en ég finn hins vegar fyrir ótrúlega miklum stuðningi. Þetta er stórveldi í þýskum handbolta og menningin fyrir handbolta í bænum er svakalega mikil. Þetta er lítill bær, það búa rúmlega 52.000 manns hérna, og stemningin fyrir handboltanum er mögnuð.

Þegar við mættum Mors-Thy í umspilinu fyrir Evrópudeildina var bæjarhátíð í kringum leikinn og þvílíkt stuð í miðbænum. Það er stutt mjög þétt við bakið á okkur hérna og þú finnur vel fyrir því. Við erum svo með okkar markmið og það er að koma félaginu aftur í hæstu hæðir. Pressan kemur því frá okkur sjálfum. Við viljum vinna alla leiki og við erum með mannskapinn í það í dag.“

Gefa allt sitt í verkefnið

En getur Gummersbach barist við stórlið á borð við Magdeburg, Kiel, Flensburg, Füchse Berlín og Melsungen um þýska meistaratitilinn?

„Langtímamarkmiðið er að koma félaginu aftur í fremstu röð og þetta er allt á réttri leið. Ég er bara búinn að vera hérna í einn og hálfan mánuð en metnaðurinn, dugnaðurinn og drifkrafturinn innan félagsins er mjög áþreifanlegur finnst mér. Það voru ekki endilega botnlausir vasar sem drógu mig hingað heldur menningin og viljinn til þess að bæta sig.

Stór hluti leikmannahópsins er yngri en ég og margir af þessum leikmönnum voru með liðinu þegar það lék í B-deildinni. Allir sem starfa í kringum félagið vilja verða betri og gera hlutina betur. Það eru allir tilbúnir að leggja sig alla í verkefnið og gefa allt sitt á hverjum einasta degi. Þeir leikmenn sem eru fengnir til félagsins eru líka allt leikmenn sem hafa bæði vilja og aga til þess að gera hlutina af fullum krafti.“

Gott teymi Íslendinga

Eins og áður sagði er Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari liðsins og þá er Eyja- og landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson varafyrirliði liðsins en Guðjón Valur gerir miklar kröfur til Íslendinganna.

„Gaui er mjög hreinskilinn með það að kröfurnar, sem hann gerir til okkar Íslendinganna, eru mjög miklar. Hann segir það bara beint við mann og að það sé talsvert erfiðara að vera Íslendingur undir hans stjórn en ekki. Það er enginn afsláttur gefinn. Það er hið besta mál og það hentar mér bara mjög vel. Mér finnst mjög gaman að æfa og ég tek því fagnandi.

Ég og Elliði þekkjumst líka vel enda erum við jafn gamlir. Við lékum mikið saman með yngri landsliðunum. Við erum með sama hugarfar og með breitt bak. Við eigum okkar bestu ár eftir og það er gott fyrir félagið að geta treyst á okkur. Við erum líka mjög gott teymi og það er alltaf skemmtilegra að vera með Íslending með sér.“

Jákvætt fyrir íslenskan handbolta

Teitur Örn verður í eldlínunni með Gummersbach í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir meðal annars Íslandsmeisturum FH en hann lék einnig gegn Val á Hlíðarenda í sömu keppni þegar hann var leikmaður Flensburg, tímabilið 2022-’23.

„Það er alltaf gaman að spila á Íslandi og ég er fullur tilhlökkunar. Það er ekki oft sem öll fjölskyldan og vinir manns geta mætt á leik hjá manni en þeir fá tækifæri til þess núna þegar við mætum FH. Að spila í Evrópudeildinni er fyrst og fremst ótrúlega mikil lyftistöng fyrir klúbbinn og sýnir svart á hvítu hversu gott starf hefur verið unnið hérna á síðustu árum.

Á sama tíma er líka frábært að sjá tvö íslensk lið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þessi keppni er ekkert grín og ef við horfum bara á liðin sem eru að fara taka þátt í henni í ár þá erum við að sjá lið eins og Flensburg, sem vann hana í fyrra, Kiel og Melsungen. Þetta er gríðarlega sterk keppni og það er mjög jákvætt fyrir íslenskan handbolta að eiga tvö lið þarna.“

Draumur að spila fyrir Ísland

Teitur Örn hefur verið inn og út úr landsliðinu undanfarin ár en hann er að berjast við menn á borð við Ómar Inga Magnússon, Viggó Kristjánsson og Kristján Örn Kristjánsson um sæti í liðinu.

„Ég er kominn í mun stærra hlutverk hjá Gummersbach, sérstaklega varnarlega. Varnarleikurinn gæti orðið lykillinn að mínum landsliðsferli enda er samkeppnin ansi mikil sóknarlega þegar kemur að sæti í landsliðinu. Ég er fyrst og fremst að hugsa um að bæta mig sem leikmaður hjá Gummersbach og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum.

Það er alltaf markmið og draumur að spila fyrir landsliðið og það breytist aldrei. Það fylgir því alltaf sama stoltið að klæðast bláu treyjunni og berjast fyrir landið sitt. Á sama tíma er það ekki undir mér komið, það eru aðrir sem velja liðið hverju sinni, en auðvitað vonast ég til þess að festa mig í sessi í landsliðinu,“ sagði Teitur Örn í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason