Stofnfélagar Hörður Guðmundsson, Guðmundur Rafnar Valtýsson og Böðvar Ingi Ingimundarson eru fæddir og uppaldir í Laugardalnum og hafa sungið meira og minna með kórnum síðan hann var stofnaður 18. apríl 1952.
Stofnfélagar Hörður Guðmundsson, Guðmundur Rafnar Valtýsson og Böðvar Ingi Ingimundarson eru fæddir og uppaldir í Laugardalnum og hafa sungið meira og minna með kórnum síðan hann var stofnaður 18. apríl 1952.
Yfir 500 manns hafa sungið í kirkjukórum í 30 ár eða lengur og nokkrir í yfir 70 ár. Á Kirkjudögum í Lindakirkju í Kópavogi í lok ágúst mættu margir úr hópnum og fengu heiðursviðurkenninguna Liljuna fyrir framlag sitt á sviði kirkjutónlistar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Yfir 500 manns hafa sungið í kirkjukórum í 30 ár eða lengur og nokkrir í yfir 70 ár. Á Kirkjudögum í Lindakirkju í Kópavogi í lok ágúst mættu margir úr hópnum og fengu heiðursviðurkenninguna Liljuna fyrir framlag sitt á sviði kirkjutónlistar. Þar á meðal voru nokkrir kórfélagar í Söngkór Miðdalskirkju og einn þeirra er Guðmundur Rafnar Valtýsson, fyrrverandi skólastjóri grunnskólans á Laugarvatni (1959-1997) og oddviti Laugardalshrepps í fimm ár.

„Ég byrjaði að syngja í Söngkór Miðdalskirkju þegar ég var 14 ára, var einn af stofnfélögunum 18. apríl 1952 og var settur í millirödd, en varð síðar tenór,“ segir Guðmundur. Tveir aðrir stofnfélagar eru enn í kórnum, Böðvar Ingi Ingimundarsson, sem var einnig settur í millirödd á fermingaraldri, og Hörður Guðmundsson, sem byrjaði strax sem tenór.

„Ég er eiginlega hættur en hélt lengi áfram í kórnum eftir að við fluttum til Reykjavíkur,“ heldur Guðmundur áfram. Hann segist þá hafa keyrt á milli á æfingar og í söngverkefni, oft vikulega, en á námsárunum hafi kórstarfið setið á hakanum. „Þremenningarnir hafa verið mjög tryggir og eru ótrúlega sprækir,“ segir Erla Þorsteinsdóttir, sem hefur verið í Söngkór Miðdalskirkju í yfir 30 ár og formaður kórsins undanfarin ár. Jón Bjarnason er kórstjóri.

Breyttar aðstæður

Erla segir að mest hafi verið 25 til 30 félagar í kórnum en þeim hafi fækkað á nýliðnum árum og nú syngi kórinn einkum í kirkjuathöfnum. „Við erum eiginlega hætt að halda tónleika.“

Ýmsar ástæður eru fyrir lakari endurnýjun í kórnum nú en áður. Erla segir að margir kórar séu í grennd og samkeppnin því nokkur. Margir hafi verið mjög lengi í kórnum og séu komnir á aldur. Nokkrir hafi flutt í burtu og séu hættir að keyra austur frá Reykjavík. Unga fólkið hafi úr miklu að velja og gefi sér ekki tíma til að sækja messur vegna ýmissa áhugamála. „Hér er mikið um að vera,“ segir Erla og vísar meðal annars í fjölbreytt íþróttalíf. „Fólk velur það sem það vill gera.“

Guðmundur segir að ekkert hafi þótt athugavert við það að strákar á fermingaraldri yrðu stofnfélagar í kór. „Ég átti heima í Laugardalnum og okkur var sagt að það væri upplagt að við yrðum með.“ Hann bætir við að alltaf hafi verið miklir söngmenn á svæðinu og lengst af verið eðlileg endurnýjun í kórnum.

„Það er alltaf gaman að syngja, hitta fólk og syngja,“ segir Guðmundur. Hann syngur enn í kór Félags kennara á eftirlaunum, Ekkó-kórnum, sem var formlega stofnaður 1997 með það að höfuðmarkmiði að koma fram á skemmtunum FKE, en kórinn hefur jafnframt sungið við ýmis önnur tækifæri.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson