Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Jarðhitinn styður með beinum hætti við allar stoðir sjálfbærni. Hún er náttúrunni hagfelld, eflir gæði samfélaga og er efnahagslega hagkvæm.

Guðlaugur Þór Þórðarson

Heita vatnið hefur verið gull okkar Íslendinga undanfarna öld og við nýtum það hvort tveggja til húshitunar og raforkuframleiðslu. Við höfum byggt okkar lífsgæði á grænni orku og sérþekking okkar í jarðhita er okkar einkennismerki um allan heim. Þrátt fyrir þessa sérstöðu höfum við sýnt lítinn metnað undanfarin ár til þess að viðhalda veitum til húshitunar sem byggðar voru upp um allt land á síðustu öld.

Skýrar niðurstöður ÍSOR

Í fyrra skilaði ÍSOR skýrslu um stöðu hitaveitna á landinu. Niðurstöðurnar voru óyggjandi á þann veg að 2/3 hluti hitaveitna landsins sjá fram á veruleg vandræði á komandi árum við að viðhalda eðlilegri starfsemi og munu ekki ná að anna aukinni eftirspurn. Þá blasa við áskoranir vegna álags á innviði á Suðurnesjum vegna jarðhræringa sem hafa áhrif á hitaveitu á svæðinu.

ÍSOR hefur bent á að frá aldamótum hefur ekki verið leitað að heitu vatni að nokkru ráði. Á sama tíma hefur ríkissjóður niðurgreitt húshitun á köldum svæðum um 2,5 milljarða á ári. Við það bætast aðrir 2,5 milljarðar í niðurgreiðslur vegna flutnings á raforku.

Ótrúlegur árangur á skömmum tíma

Það er öllum ljóst að á Íslandi er nóg af heitu vatni og svo verður meðan jörð byggist. Það þarf hins vegar að leita að því og byggja upp nýjar hitaveitur og styrkja þær sem fyrir eru. Á síðasta ári réðumst við í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í fyrsta jarðhitaleitarátak aldarinnar. Við settum 450 milljónir í leit að heitu vatni um allt land og það átak er strax farið að bera árangur.

Á einu ári höfum við fundið vatn á Ísafirði, Drangsnesi, Patreksfirði, Grundarfirði, Selfossi, Blönduósi og Skagaströnd, í Grímsnes- og Grafningshreppi og í Bláskógabyggð. Þá lofa rannsóknir góðu og boranir eru áætlaðar á Vopnafirði, Húsavík, Ólafsfirði og í Skaftárhreppi.

Í kjölfar náttúruhamfara á Reykjanesi, sem ekki enn sér fyrir endann á, varð öllum ljóst að við þyrftum að bregðast við þeirri stöðu að innviðir á Reykjanesi gætu brostið. Við þessu hefur sannarlega verið brugðist. Suðurnesjalína 2 er komin til framkvæmda eftir áratugalangar deilur. Vegna þeirrar ógnar sem blasir við hitaveituinnviðum á Suðurnesjum tók ég þá ákvörðun að fjármagna umfangsmikla jarðhitaleit á Reykjanesi. Stjórnvöld tryggðu einn milljarð króna í rannsóknarboranir á eignarlandi ríkisins. Niðurstaða þeirrar leitar er sú að við höfum fundið nægilegt magn af heitu vatni til þess að halda öllum húsum frostlausum í vetur ef allt fer á versta veg. Við erum því komin með varaáætlun sem heldur ef allt fer á versta veg varðandi húshitun á Suðurnesjum, aðgerð sem varðar rúmlega 30.000 íbúa á Reykjanesi. Næstu skref eru að gera samninga við viðhalds- og dreifiaðila til framtíðar um rekstur á nýju holunum.

Kyrrstaðan rofin

Við höfum rofið kyrrstöðuna í orkumálum og í jarðhitaleit eftir áratuga kyrrstöðu. Við megum ekki láta það gerast aftur að okkar mikilvægustu auðlind, okkar íslenska gulli, heita vatninu, sé ekki sinnt. Jarðhitinn er ein verðmætasta náttúruauðlind Íslands. Auðlind sem hefur tryggt lífsgæði þjóðarinnar með þeim hætti að fáu verður við það jafnað. Jarðhitinn styður með beinum hætti við allar stoðir sjálfbærni. Hún er náttúrunni hagfelld, eflir gæði samfélaga og er efnahagslega hagkvæm. Á næsta ári mun ráðuneyti mitt halda áfram að styðja við jarðhitaleit og með því styrkja byggð á Íslandi.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Höf.: Guðlaugur Þór Þórðarson