Aukið fé hjálpar lítið í húsnæðismálum ef framboð skortir

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs segir að útgjaldavöxtur verði hóflegur, aðeins 4,1%, og að það sé minnsti vöxtur ríkisútgjalda frá árinu 2013. Þessi vöxtur er þó talsvert yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans og það að hann hafi ekki verið minni í rúman áratug segir sennilega meira um vöxtinn þau ár en aðhaldið nú.

Fjármálaráðherra var annars bjartsýnn um verðbólguhorfur og hefur vonandi rétt fyrir sér um það, en það er ekki víst að ríkisútgjöldin styðji jafn vel við jákvæða þróun í þeim efnum og hann vonast eftir. Þrátt fyrir að mikið sé talað um aðhald í útgjöldum og tugir milljarða nefndir í því sambandi vantar ekkert upp á útgjöldin. Þegar þau eru borin saman við stöðuna fyrir áratug eða tveimur er þróunin ískyggileg. Vissulega eru ýmsar skýringar á útgjaldavextinum, ekki síst mikil hækkun launa og ráðstöfunartekna, en mikil fjölgun opinberra starfsmanna og vaxandi verkefni hins opinbera skýra ekki síður þessa óheillaþróun.

Þá má nefna að þegar horft er til verðbólgunnar vegur húsnæðisliðurinn þungt og aðgerðir ríkisins sem kynntar eru í fjárlagafrumvarpinu draga ekki úr í þeim efnum. Ríkisstjórnin vill hjálpa fólki að koma þaki yfir höfuðið, sem er vissulega þýðingarmikið, en húsnæðisstuðningur upp á fjörutíu milljarða á næsta ári hefur ekki aðeins jákvæð áhrif í þeim efnum. Vandinn er sá að slíkur stuðningur við þær aðstæður sem ríkja í skipulags- og húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Reykjavík, er aðallega til þess fallinn að ýta upp húsnæðisverði og þar með verðbólgu. Rót vandans er skortur á lóðum og nýbyggingum utan þéttingarsvæða, en sá vandi verður ekki leystur með auknum fjárútlátum ríkissjóðs. Þann vanda verður fjármálaráðherra að ræða við flokksbróður sinn í ráðhúsinu.