Nicoline Weywadt Hér við saumavél sína heima á Djúpavogi 1867. Hún lærði ljósmyndun fyrst íslenskra kvenna.
Nicoline Weywadt Hér við saumavél sína heima á Djúpavogi 1867. Hún lærði ljósmyndun fyrst íslenskra kvenna. — Ljósmynd/Johann Holm-Hansen/Þjóðminjasafn Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við horfum oft einvörðungu á vélvæðingu utan heimilanna, eins og hún hafi skipt meira máli í sögunni, en margt í vélvæðingu inni á heimilum hafði afgerandi áhrif á framgang sögunnar. Með tilkomu saumvéla urðu miklar breytingar á daglegu lífi kvenna, störfum þeirra og sjálfstæði

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við horfum oft einvörðungu á vélvæðingu utan heimilanna, eins og hún hafi skipt meira máli í sögunni, en margt í vélvæðingu inni á heimilum hafði afgerandi áhrif á framgang sögunnar. Með tilkomu saumvéla urðu miklar breytingar á daglegu lífi kvenna, störfum þeirra og sjálfstæði. Við eigum það til að taka vinnuframlagi kvenna sem sjálfsögðum hlut, en fyrir tíma saumavéla hefur verið gríðarleg vinna fyrir konur að sauma í höndunum flíkur á alla fjölskyldumeðlimi og gera við,“ segir Arnheiður Steinþórsdóttir MA í sagnfræði en hún hélt í vikunni erindi í Háskóla Íslands um áhrif saumavélarinnar á íslenskt samfélag á árunum 1865-1920, og hvernig saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing.

„Í kringum 1850 komu saumavélar til heimilisnota á markað í Bandaríkjunum og þær virðast hafa komið fljótt hingað til Íslands. Fyrst og fremst var það í gegnum Danmörku og konur sem höfðu tengsl þangað. Þetta voru konur úr efri stéttum samfélagsins og þær fylgdust vel með því sem var að gerast og nýttu sín áhrif og stöðu til að koma saumavélum til Íslands. Þær íslensku konur sem eignuðust fyrst saumavélar voru til að byrja með einvörðungu úr embættismannastétt eða kaupmannsdætur. Þessar konur keyptu til dæmis saumavélar úti í Danmörku og fluttu með sér hingað heim, til einkanota.

Til að byrja með var það stöðutákn að eiga saumavél, þetta var munaðarvara og það þótti mjög fínt að eiga slíkt tæki,“ segir Arnheiður og bætir við að til sé ljósmynd sem tekin var árið 1867 af Nicoline Weywadt þar sem hún situr við hlið saumavélar. „Þetta er elsta heimild sem ég hef fundið um saumavél hér á landi, en Nicoline var kaupmannsdóttir frá Djúpavogi og hafði því tengsl við útlönd. Hún var merkileg kona, fyrsti kvenljósmyndarinn hér á landi. Á myndinni er hún klædd eftir nýjustu tísku evrópskrar borgarastéttar, mjög glæsileg og greinilega stolt af þessum grip, saumavélinni, sem hún hefur eignast ung. Einkennandi var fyrir borgarastétt þessa tíma að vera með erlenda munaðarvöru inni á heimilum. Þessi ljósmynd er mjög merkileg og dýrmæt heimild.“

Þróunin var hröð eftir 1876

Arnheiður segir að sjá megi hversu fáar saumavélar voru til hér á landi á þessum tíma í endurminningum Guðrúnar Borgfjörð um lífið í Reykjavík.

„Guðrún segir í bók sinni að árið 1870 hafi aðeins þrjár saumavélar verið til í höfuðstaðnum Reykjavík. Ári síðar, 1871, hefur þetta breyst, því til er grein frá því ári þar sem fram kemur að saumavélar hafi verið fluttar inn í meiri mæli en áður. Árið 1876 sjást saumavélar í fyrsta sinn í innflutningsskýrslum og eftir það er þróunin hröð, en í minni rannsókn skoðaði ég fjölda saumavéla í slíkum skýrslum árin á eftir og sá hversu hratt saumavélum fjölgaði hér á landi. Samkvæmt verslunarskýrslum var heildarfjöldi innfluttra saumavéla árið 1910 kominn upp í 13.503 vélar.

Upp úr aldmótum er því búið að flytja inn nógu margar saumavélar fyrir hvert einasta heimili á Íslandi, en væntanlega voru þær ekki allar í notkun, sumar til dæmis orðnar gamlar og ekki hægt að gera ráð fyrir að allar hafi verið til einkanota. Í endurminningum um þennan tíma er gjarnan talað um að á nánast hverju heimili hafi verið saumavél og þótt sjálfsagt. Saumavélin var eins og heimilispersóna, svo eðlilegur hlutur þótti hún fljótlega upp úr aldamótum.“

Konur ferðast með saumavélar

Arnheiður segir að saumvélar frá þeim tíma sem hún skoðaði, frá 1865 til 1920, séu bæði fótstignar og handsnúnar.

„Þær sem voru handsnúnar voru aðeins ódýrari en þær fótstignu, sem varð til þess að fleiri höfðu efni á að kaupa sér saumavél. Handsnúnu saumavélarnar voru í minni kantinum og léttari, þær buðu því upp á ákveðinn hreyfanleika. Það bauð til dæmis upp á alls konar tækifæri að vera saumakona og geta ferðast á milli heimila með saumavél með sér. Saumakonur fóru líka á milli bæja og saumuðu á þær saumavélar sem til voru á heimilum,“ segir Arnheiður og bætir við að hún hafi fundið heimildir frá konum sem sögðu frá því hversu tilkoma saumavélar var mikil bylting fyrir þær.

„Ingibjörg Jónsdóttir frá Djúpadal skrifaði merkilegar endurminningar um lífið í Breiðafjarðareyjum kringum 1870, en hún talar þar um að þegar hún fékk saumavél á heimilið hafi hún sparað sér vinnukonu. Aftur á móti fór hún sjálf að sauma fleira en vanalega, því þá gat hún líka saumað seglin á bátana og skinnfötin á piltana. Verkefni hennar urði fleiri og jafnvel þyngri að einhverju leyti, því saumavélin bauð upp á miklu meiri afköst. Krafan um afköst varð í raun meiri og konur sátu kannski löngum stundum við saumavélar sínar. Vinnuálagið minnkaði ekki, þó tímasparnaður væri vissulega talsverður með tilkomu saumavéla. Þær voru klárlega mikil búbót.“

Arnheiður segir að saumavélar hafi verið dýrar á þessum tíma og ekki hlaupið að því að kaupa sér saumavél, jafnvel ódýrustu vélarnar kostuðu á við árslaun vinnukonu.

„Þetta hefur því verið meiri háttar fjárfesting. Fyrrnefnd Guðrún Borgfjörð segir frá því í endurminningum sínum að hún hafi keypt sér saumavél upp úr 1870 hjá kaupmanni í Reykjavík. Hún fékk að greiða fyrir hana með afborgunum, eftir atvikum. Guðrún var saumakona og saumavélin varð hennar atvinnutæki. Til hennar komu stúlkur til að læra saumaskap, en það var nokkuð algengt á þessum tíma að saumakonur bæði saumuðu fyrir fólk og fengju stúlkur í læri til sín.“

Þær sem áttu með sig sjálfar

Arnheiður segir að saumakona nokkur á Ísafirði, Andrea Guðmundsdóttir, sé fyrsta íslenska konan sem vitað er að hafi nýtti sér kosningarétt til að kjósa til bæjarstjórnar, eftir að lög um kosningarétt ekkna sem stóðu fyrir búi og kvenna sem áttu með sig sjálfar, voru samþykkt á Alþingi 1882. Þessi lög náðu eingöngu til kosninga á sveitarstjórnarstigi.

„Andrea átti með sig sjálfa, af því hún var saumakona. Hún sá fyrir sér. Saumavélar voru því stór þáttur í því að konur gátu verið fjárhagslega sjálfstæðar og öðluðust réttindi, eins og að kjósa til bæjarstjórna,“ segir Arnheiður og bætir við að alþýðukonur hafi átt auðveldara með að eignast eigin saumvél þegar leið á nítjándu öldina.

„Meðal annars af því að þá fóru saumavélar að koma inn á opinber uppboð og þar seldust þær oft mun ódýrari en nýjar vélar hjá kaupmönnum. Uppboð gefa líka mynd af því hvernig samfélagið verðmetur hluti hverju sinni, og saumavélar hafa verið orðnar sjálfsagður hlutur þegar þær fást fyrir lítið á uppboðum.“

Arnheiður segir ánægjulegt að nú sé afturhvarf til saumavélarinnar.

„Þetta þarfaþing rís nú aftur upp, meðal annars vegna þess að við mannfólkið erum orðin umhverfismeðvituð. Það er ekki sjálfbært að flytja endalaust inn tilbúin föt sem framleidd eru óraveg í burtu frá okkur. Við þurfum að hætta að henda flíkum þó það komi gat, heldur gera við þær. Þá kemur sér vel að eiga saumavél.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir