Skólabyggingar Aðalbyggingin fyrir miðju. Hægra megin er heimavistin til húsa og lengst til hægri iðnnám.
Skólabyggingar Aðalbyggingin fyrir miðju. Hægra megin er heimavistin til húsa og lengst til hægri iðnnám. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil fjölgun nemenda er við Menntaskólann á Ísafirði á milli ára en nemendum sem stunda dagskólanám á haustönn fjölgar um 20% og eru nú alls 218 talsins. „Þetta er auðvitað mjög ánægjuleg þróun og við höfum verið að rýna í þessa…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Mikil fjölgun nemenda er við Menntaskólann á Ísafirði á milli ára en nemendum sem stunda dagskólanám á haustönn fjölgar um 20% og eru nú alls 218 talsins.

„Þetta er auðvitað mjög ánægjuleg þróun og við höfum verið að rýna í þessa fjölgun,“ segir skólameistarinn Heiðrún Tryggvadóttir þegar Morgunblaðið forvitnaðist um málið hjá henni. Hún telur að nokkrir þættir mismunandi þættir styðji við þessa þróun.

„Nemendum frá suðursvæði Vestfjarða fjölgar hjá okkur og tengist það væntanlega betri samgöngum. Þótt ekki sé búið að ljúka framkvæmdum á Dynjandisheiði þá finnum við fyrir auknum áhuga á suðurfjörðunum. Mikilvægt er þó að farið verði að moka um helgar svo nemendur komist auðveldlega heim í helgarfrí. Hér á svæðinu er fólki að fjölga og það skilar sér í auknum fjölda. Nemendafjöldi helst svo alltaf í hendur við fæðingartíðni og nú er fólksfjölgun á svæðinu sem er að skila sér til okkar. Nýnemaárgangurinn er fjölmennur á svæðinu en nýliðunin í MÍ er samt töluvert umfram það. Allar þessar breytur telja en gott orðspor skólans er að breiðast út, sem skiptir líka máli.“

Koma víða að

Nýjum nemendum utan Vestfjarða hefur fjölgað töluvert við skólann og segir Heiðrún að áhugavert sé að reyna að átta sig á þeirri fjölgun, sem er þó nokkur milli ára. „Við erum með nemendur sem koma alls staðar að. Mögulega eru heimavistarskólar meira í tísku og við fáum líka nemendur sem eru hér til að stunda íþróttir og eru á íþróttasviði skólans.“

Athyglisvert má telja að nú er fullt á heimavist skólans. Hún var í mikilli notkun á níunda áratugnum og fram á þann tíunda en það voru einungis örfáir nemendur um tíma snemma á þessari öld. „Það er einnig mjög skemmtilegt. Við vorum að glíma við minni nýtingu á heimavistinni eftir að jarðgangagerð bætti samgöngur á norðanverðum Vestfjörðum. Það er óvænt að heimavistin sé aftur orðin full. Í mesta lagi höfum við nýtt tvo af þremur göngum vistarinnar en nú er góð nýting á húsnæðinu. Við þurfum að fara mjög langt aftur til að finna jafn góða nýtingu á heimavistinni.“

Heildarfjöldi nemenda við MÍ er nú 540 þegar allt er talið. Við skólann er einnig boðið upp á fjarnám og lotubundið dreifnám og þar eru yfir 300 nemendur.

„Haustið 2021 vorum við með nokkru fleiri nemendur sem voru þó skráðir í færri einingar. Þá var eins og margir vildu nýta sér fjarnám í heimsfaraldrinum. En það er eina dæmið um fleiri nemendur og þetta er mesti nýnemafjöldi sem hefur verið innritaður eftir að stúdentsprófinu var breytt í þriggja ára nám. Skólinn er því þétt setinn og eiginlega öll skúmaskot í honum nýtt,“ segir Heiðrún en til stendur að bæta aðstöðu fyrir verknámið með nýjum húsakynnum. „Sem betur fer hefur verið undirrituð viljayfirlýsing um byggingu nýrrar verknámshússeiningar en 40% dagskólanemenda stunda einmitt nám í starfs- og verknámsgreinum.“

Hún bendir á að mikill fjölbreytileiki sé í nemendahópnum og sem dæmi séu 25% dagskólanemenda með annað móðurmál en íslensku. Alls séu töluð hátt í 20 tungumál innan skólans. Ný íslenskubraut var stofnuð í haust fyrir nemendur með lítinn bakgrunn í íslensku.