Knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, verður frá keppni í lengri tíma en í fyrstu var haldið en hann meiddist í leik Noregs og Austurríkis í Þjóðadeildinni í fótbolta í síðustu viku. Í fyrstu var talið að sá norski yrði frá keppni í þrjár vikur, en ljóst er að miðjumaðurinn verður lengur að jafna sig á meiðslunum. Mikel Arteta, stjóri Arsenal, greindi frá því á blaðamannafundi í vikunni að Norðmaðurinn yrði frá í dágóðan tíma.
Afturelding er meistari meistaranna í karlaflokki í blaki eftir sigur á Hamri, 3:2, í miklum spennuleik í meistarakeppni BLÍ í Hveragerði á miðvikudaginn. Jakub Grzegolec skoraði 15 stig fyrri Aftureldingu en Tomek Leik var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig.
Sir Jim Ratcliffe, einn af eigendum enska knattspyrnufélagsins Manchester United, vill byggja nýjan hundrað þúsund manna leikvang fyrir félagið. Old Trafford, heimavöllur liðsins í dag, yrði þá rifinn til grunna. Nýi völlurinn myndi kosta tvo milljarða punda í byggingu.
Norska landsliðskonan Nora Mörk hefur tekið sér ótímabundið leyfi frá handknattleik og félagsliði sínu Esbjerg. Mörk spilaði kvalin á Ólympíuleikunum í sumar þar sem Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann til gullverðlauna en hún hefur verið ein fremsta handknattleikskona heims undanfarin ár.
Hannes Ingi Másson hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Tindastóls og leikur því áfram með uppeldisfélaginu á komandi tímabili. Hannes Ingi er 28 ára gamall framherji frá Hvammstanga sem hefur leikið með Tindastóli allan sinn meistaraflokksferil.
Mason Mount og Rasmus Höjlund sneru aftur til æfinga hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United í gær eftir meiðsli. Þeir hafa báðir verið að glíma við meiðsli aftan í læri en Mount meiddist í lok ágústmánaðar en Höjlund meiddist á undirbúningstímabilinu. Mount hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með United í deildinni á tímabilinu en Höjlund á ennþá eftir að spila fyrir United á tímabilinu.