Marianne Rasmussen framkvæmdastjóri Sjávarútvegssýningarinnar, sem fer nú fram í fertugasta sinn í Fífunni í Kópavogi, segir aðspurð að viðburðurinn sé ekki eingöngu til að leiða fólk í sjávarútvegi saman.
„Fyrirtæki í sjávarútvegi eða þau félög sem útvega vörur eða þjónustu honum tengda hafa í gegnum árin nýtt sýninguna til þess að ganga frá samningum og stofna til nýrra viðskipta. Það er ekki hægt að segja að fyrirtækin noti sýninguna sérstaklega til þess að gera samninga, þeir eru samt nokkrir undirritaðir á sýningunni en auðvitað eiga flestir slíkir samningar langan aðdraganda,“ segir Marianne í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að sýningin sé góður vettvangur fyrir fyrirtækin til þess að hittast, kynnast og undirbúa framtíðina.
„Hugmyndin á bak við sýninguna er í grunninn að leiða saman kaupendur og seljendur í sjávarútvegi undir sama þaki, svo þeir hafi tækifæri til þess að kynnast og efla viðskiptasambönd sín á milli yfir þessa þrjá daga,“ segir Marianne.
Spurð hvers vegna Ísland hafi orðið fyrir valinu þegar sýningin var haldin fyrst árið 1994 segir hún svarið vera einfalt.
„Íslendingar hafa í gegnum aldirnar reitt sig mjög mikið á fiskveiðar. Á sínum tíma lögðu Samtök iðnaðarins og fleiri íslensk hagsmunasamtök það til að halda sýninguna hér á landi. Um 40% útflutningstekna Íslendinga koma með einum eða öðrum hætti frá sjávarútveginum. Þetta er augljós staðsetning,“ segir Marianne að lokum.